Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:43:35 (6048)

2000-04-06 16:43:35# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, EMS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Frv. byggir á samningi sem gerður hefur verið á milli ríkisvaldsins og Bændasamtaka Íslands.

Herra forseti. Það verður að segjast í byrjun að aðkoma sérstaklega stjórnarandstöðunnar að samningi sem þessum, í raun að frv. sem þessu, er mjög takmörkuð. Í fyrsta lagi hefur ekkert samráð verið haft við t.d. fulltrúa stjórnarandstöðunnar í landbn. um gerð samningsins og við höfum því engin tækifæri haft til þess að hafa áhrif á hann. Við fáum hann hins vegar í hendur hér í frumvarpsformi og getum í raun og veru þó vilji væri fyrir hendi sáralitlu breytt vegna þess að við munum ekki endanlega afgreiða frv. þetta fyrr en atkvæðagreiðslu er lokið meðal sauðfjárbænda. Verði samningurinn samþykktur þar þá er býsna erfitt að gera a.m.k. viðamiklar breytingar á því sem hér liggur fyrir öðruvísi en endurtaka þá atkvæðagreiðsluna og þannig gæti hringurinn haldið áfram nokkuð oft. Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, í upphafi að gera athugasemdir við það að stjórnarandstaðan skuli ekki hafa haft til þess aðstöðu að koma að málinu.

[16:45]

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að þegar síðasti samningur var gerður hafði því verið lofað í aðdranda þess samnings af hálfu þáv. hæstv. landbrh. að landbn. þingsins kæmi að einhverju leyti að því máli en við það var ekki staðið. Það var heldur ekki gert nú og til að halda því til haga vildi ég hefja ræðu mína á þessum athugasemdum.

Hins vegar er ljóst að niðurstaða þeirra samningaviðræðna sem átt hafa sér stað milli ríkisvaldsins og samtaka sauðfjárbænda er að sjálfsögðu yfirfull af jákvæðum hlutum. Það er þó ýmislegt sem eðlilegt er að hafa áhyggjur af vegna þess að ekki er jafnljóst hver niðurstaðan verður þegar fram líða stundir gagnvart því að ná þeim markmiðum sem menn hafa sett sér með þessum samningi. Ég mun ekki í ræðu minni fara nákvæmlega niður í hvert smáatriði í frv. en ég geri ráð fyrir að við munum eyða dágóðum tíma til þess í landbn. og mun að sjálfsögðu ekki láta mitt eftir liggja í þeim efnum og get lýst því yfir fyrir mína hönd vegna áskorana hv. þm. Hjálmars Jónssonar, formanns nefndarinnar, að það munu örugglega ekki verða tafir á málinu af hálfu stjórnarandstöðunnar í nefndinni.

Herra forseti. Markmið samningsins eru fögur og vonandi að þau náist sem flest fram. Það er hins vegar nauðsynlegt að benda á að samningar hafa verið gerðir áður og fögur markmið sett fram. Því miður hefur enn ekki tekist að ná þeim öllum fram í þeim samningum sem gerðir hafa verið.

Það er þó eitt markmið sem ég sakna sárlega í þessum samningi og það er markmið sem sett var fram í samþykktri stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Í þeirri samþykkt segir, með leyfi forseta:

,,Í þeim sveitum sem byggja nær eingöngu á sauðfjárrækt og samgöngur hindra atvinnusókn í önnur byggðarlög verði hugað að aðgerðum sem gætu meðal annars falist í breyttum áherslum í ráðstöfun beingreiðslna með tilliti til byggðasjónarmiða.``

Því miður hefur þetta ekki verið sett inn í markmið samningsins en hefði líklega átt að vera eitt höfuðmarkmiðið vegna þess að þetta er grundvallaratriði því að bág staða landbúnaðar er að sjálfsögðu byggðamál og það ber að taka á því sem slíku. Það var einmitt á þeim nótum sem hv. þm. Hjálmar Jónsson, formaður landbn., skrifaði í grein sem hann sendi í Morgunblaðið þann 20. október 1999. Ein megináhersla hans var sú að þannig yrði gengið að þessum samningi að það ákvæði sem ég las hér áðan væri þar vel ráðandi.

Það er hins vegar ljóst að til þess að það megi verða þarf það auðvitað að liggja vel skilgreint fyrir út frá landgæðum og byggð hvar á landinu best er að stunda sauðfjárrækt og gera í raun og veru þeim bændum, sem þar vilja búa með sitt sauðfé, kleift að stunda búskap sinn með reisn. Vissulega eru vonir til þess að hluti af því náist í gegnum hið svokallaða gæðastýringarkerfi, en á því eru verulegir gallar sem ég mun væntanlega minnast örlítið á síðar í ræðu minni.

Ég sagði áðan að gerðir hefðu verið samningar áður með fögrum markmiðum sem því miður hefðu ekki náðst. Í síðustu samningum var m.a. þetta markmið sett: ,,Að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur.``

Það er athyglisvert að í markmiðum núverandi samnings hefur orðið ,,neytendur`` fallið brott og það er kannski enn einn vandinn við samninginn, þ.e. skortur á tengingu milli framleiðandans og markaðarins, milli bóndans og neytandans. Þar eru tengingar engar en milliliðir því miður of margir.

Hvernig hefur tekist að ná markmiðum um samkeppnishæfnina og hagkvæmnina? Ég held að því sé best lýst með tölum sem lýsa afkomu þeirra sem stunda þessa atvinnugrein. Í skýrslu sem Byggðastofnun tók saman kom fram í niðurstöðum að sú þróun hefði átt sér stað í tekjum sauðfjárbænda á árabilinu 1991--1998 að þær hefðu lækkað um nær 20% á sama tíma og kaupmáttur almennra launþega hækkaði um tæp 15%. Þetta var á tímabilinu frá 1991--1998. Ekki liggja fyrir tölur um árið 1999 en því miður eru allar líkur á að á því ári hafi þessi munur aukist ef eitthvað er.

Í markmiðum hinna gömlu samninga var einnig talað um að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu og í markmiðum hins nýja samnings er talað um að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða. Því miður hefur þetta jafnvægi ekki náðst og á seinni árum hefur munurinn á milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða aukist, þ.e. framleiðslan hefur aukist en salan minnkað. Þróunin í sölu kjöts hefur því verið nær eingöngu niður á við, þó á því sé eins árs undantekning. Þessu til frekari áréttingar, herra forseti, vil ég vitna í grein eftir fyrrv. formann landbn., Egil Jónsson, sem hann ritaði Morgunblaðið um þetta mál laugardaginn 25. mars sl. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ég taldi það skyldu mína að rjúfa þagnarmúrinn um hvernig kjörum sauðfjárbænda er komið eftir samningsferli síðasta áratugar nýliðinnar aldar þegar kjör í sauðfjárbúskap versnuðu um þriðjung.``

Herra forseti. Þetta er í rauninni þungur dómur manns sem vann að þessum málum og hefur fylgst býsna vel með þeim um þá stefnu sem hér hefur verið við lýði þann áratug sem hann fjallar um. Hann kemst að vísu sjálfur að þeirri niðurstöðu að hinn nýi samningur muni engu um þetta breyta. Ég vil ekki vera svo svartsýnn en vona hins vegar að úr rætist vegna þess að málið er svo mikilvægt að nauðsyn krefur að úr verði bætt.

Herra forseti. Sú aðferðafræði sem hér er viðhöfð snýr í fyrsta lagi að beingreiðslum sem eru miðaðar við framleiðsluviðmið frá 1976--1978 og er í raun uppistaðan í þeim samningi sem nú er í gildi og verður það áfram. Síðan er nýjungin um gæðastýringuna og jöfnunargreiðslurnar auk ýmissa annarra jákvæðra þátta. Það er hins vegar afar mikilvægt fyrir okkur hv. þm. að hugleiða gaumgæfilega hvernig við förum með þá fjármuni sem hér eru á ferð, því að verið er að greiða út úr ríkissjóði rúmlega 2 milljarða á ári og síðan er 1 milljarður sem á að fara í hin svokölluðu uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki. Ég vil gera uppkaupin örlítið að umtalsefni.

Það liggur í mínum huga alls ekki ljóst fyrir hverjir það eru sem munu ganga fremstir fram í sölu ærgilda. Hæstv. starfandi landbrh. taldi sig draga fram rök fyrir því að það yrðu elstu bændurnir sem þar mundu fremstir fara. Það er í raun og veru ekkert sem segir til um slíkt og ýmsir hafa af því áhyggjur að það gætu alveg eins orðið yngri bændurnir. Þá verð ég að segja að áhyggjur okkar yrðu enn meiri um framtíð þessa atvinnuvegar sem er svo mikilvægur í landinu. Við verðum auðvitað að vona hið besta en eðlilegt er að spyrja hæstv. landbrh. hvernig hann sér þetta fyrir og hvort gert sé ráð fyrir því að einhverjar reglur gildi um það hvernig valið verði úr þeim hópi ef svo illa vildi til, vil ég orða það, að boðin væru fleiri en 45 þúsund ærgildi til uppkaupa af hálfu bænda sem stunda sauðfjárrækt í dag.

Til áréttingar um áhyggjur af yngri bændunum vil ég vitna í bónda einn sem rætt var við í Morgunblaðinu þann 19. febrúar sl. Þetta er Eyjólfur Gunnarsson, sauðfjárbóndi á Bálkastöðum í Hrútafirði. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ég óttast að ungir menn muni helst hætta, menn sem geta farið í aðra vinnu. En að þeir muni sitja eftir sem frekar hefðu átt að hætta, bændur sem geta ekki búið en eiga ekki kost á öðrum störfum.``

Herra forseti. Vonandi er þetta rangt, en því miður er ýmislegt sem bendir til að eitthvað geti verið til í slíkum áhyggjum varðandi hina yngri bændur.

Ég spurði hæstv. landbrh. hvort einhverjar reglur yrðu settar eða hvort þær lægju fyrir um hvernig að þessu yrði staðið. Einnig er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig hið frjálsa framsal muni þróast, þ.e. það sem leyft verður þegar búið er að kaupa upp hin 45 þúsund ærgildi eigi síðar en árið 2004, og hvernig sérfræðingar okkar í landbúnaðarmálum sjá hugsanlega þróun í þeim efnum. Má t.d. búast við að framboð verði mikið eða á hvernig markaði mun þetta fara fram og hvernig geta menn áætlað þá sölu? Ef þetta verður ekki fyrr en árið 2004 eru aðeins þrjú ár eftir af samningnum og spurning hvaða vissu menn hafa þá fyrir því, ef þeir eru að kaupa á hinum frjálsa markaði, að það muni halda þegar og ef samningur verður framlengdur. Þetta eru allt spurninar sem við hljótum að velta fyrir okkur og skoða í samhengi vegna þess að það skiptir auðvitað verulegu máli hvernig þessi þróun verður.

Það er hins vegar ljóst að innan bændahópsins hafa verið deildar meiningar um hvort leyfa eigi hið frjálsa framsal og sumir vilja ganga svo hart fram að leyfa það nú þegar og auðvitað hægt að færa fyrir því rök. En eins og ég sagði áðan hef ég meiri áhyggjur af því að ekki sé tekið heildstætt á byggðavandanum, sem ég vil kalla, í málinu. Það eru megináhyggjur mínar í þessu og ég er ekki viss um að hið frjálsa framsal muni endilega leysa þann vanda á hinn besta hátt.

Hér hefur verið nefnt og nokkuð rætt um hina svokölluðu gæðastýringu. Vissulega er ýmislegt jákvætt sem þar kemur fram ef allt mun ganga upp, en þó er ljóst að mikill vandi getur komið upp þegar bændastéttinni verður hugsanlega skipt upp í tvo hópa, annars vegar gæðastýrður hópur og hins vegar þeir sem sumir í blaðagreinum hafa kallað skussa, en ég vil ekki taka það upp vegna þess að auðvitað geta ýmsar aðstæður verið þannig að menn hafi ekki möguleika á að taka þátt í gæðastýringunni. Það er fyrsti þátturinn í gæðastýringunni sem ég geri ráð fyrir að geti orðið hvað erfiðastur, þ.e. landnotin. Í fskj. er yfirlýsing varðandi þau mál og ég tel að við í landbn. þurfum að fara vandlega yfir það. Hvernig land er beitt hefur að sjálfsögðu mikil áhrif. Við getum ímyndað okkur að tveir bændur, hlið við hlið, þar sem annar vill vera í gæðastýringunni en hinn ekki, geti beitt sama afréttinn á mismunandi hátt og þar af leiðandi geti það bitnað á þeim bóndanum sem vill vera í gæðastýringunni ef hinn bóndinn ofbeitir það land sem hann þarf einnig að hafa aðgang að. Væntanlega hafa sérfræðingarnir velt þessu fyrir sér og eiga svör sem við fáum, ef ekki í umræðunni þá í umfjöllun landbn. um frv.

Nauðsynlegt er að nefna jákvæðu þættina sem hér koma fram en þeir eru að gerð er tilraun til þess að auka fagmennsku í greininni. Það er afar mikilvægt og nauðsynlegt vegna þess að það skiptir líka máli að litið sé jákvætt til þessarar atvinnugreinar því hún á mest undir því komið að neytendur nýti þær afurðir sem framleiddar eru. Ég ætla að vitna í aftur það sama viðtal og ég vitnaði í áðan við Eyjólf Gunnarsson á Bálkastöðum, en hann segir, með leyfi forseta:

,,Samdráttur í sölu kindakjöts er þó aðalmálið fyrir sauðfjárbændur,`` segir Eyjólfur ,,og á þeim málum er ekkert tekið í búvörusamningnum. Það er endalaust undanhald og ekki séð fyrir endann á því. Við höfum í raun ekkert við nýjan sauðfjársamning að gera ef við náum ekki að selja vöruna.``

Herra forseti. Það er mikill sannleikur í þessum orðum. Það er auðvitað lykilatriðið að það náist að selja þessa ágætu gæðavöru en því miður vantar alla tengingu í samninginn við þann mikilvæga þátt þessa máls.

Að lokum vil ég, herra forseti, vitna í grein sem upphaflega er reyndar skrifuð af ritstjóra Vikunnar í blaðið Vikuna en Bændablaðið tók upp og ekki að ástæðulausu vegna þess að þar er einmitt verið að fjalla um þessa mikilvægu tengingu, þ.e. framleiðsluna og sölu þeirra afurða sem á markað koma. Með leyfi forseta, segir Jóhanna Harðardóttir, ritstjóri Vikunnar:

,,Nýjustu fréttir herma að lambakjötsneysla sé alltaf að minnka og á 15 árum hefur neyslan farið úr 40 í 25 kg á mann á ári.``

Þetta er gífurleg minnkun og eins og komið hefur fram í máli mínu virðist hún halda áfram. Jóhanna Harðardóttir rekur síðan og viðurkennir að vera einn af þeim sem hún kallar svikara því þeir borða ekki lengur jafnmikið af lambakjöti og áður, en segir síðan, með leyfi forseta:

,,Gallinn er bara sá að markaðssetning á lambakjöti er marga áratugi á eftir tímanum.``

Herra forseti. Ég held að með þessari stuttu nettu setningu sé einmitt lýst hluta af þeim vanda sem við eigum við að stríða við að koma þessum gæðavörum í maga landsmanna.

Herra forseti. Ég vil ljúka ræðu minni með því að endurtaka það sem ég sagði áðan. Það mun að sjálfsögðu verða kappkostað af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar í landbn. að þetta mál fái hraða afgreiðslu í nefndinni.