Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:52:12 (6060)

2000-04-06 17:52:12# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að gagnrýna að þetta stóra mál skuli vera tekið á dagskrá án þess að hæstv. landbrh. sé viðstaddur. Ég heyri reyndar að hv. formaður landbn., Hjálmar Jónsson, gerir sitt besta til þess að verja hvern stafkrók í frv. en eigi að síður er það svo að við hefðum gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. landbrh. Hann hefur í rauninni komið fram sem táknrænn vörsluaðili þessara hugmynda. Hann hefur sjálfur verið á fundum og ég hefði gjarnan viljað bæði heyra mál hans og eins hitt að tryggja að hann hlýddi á mál alþingismanna.

Mig langar líka til að segja það í upphafi, herra forseti, að mér kom nokkuð á óvart eftir að síðasti búvörusamningur var afgreiddur héðan frá Alþingi fyrir fimm árum að þeir bændur sem ég heyrði í, m.a. á bændafundum sem ég fór á, virtust að jafnaði til muna frjálslyndari og tilbúnari til að taka áhættu og fara í stærri breytingar í starfsumhverfi sínu en hv. Alþingi. Það kom mér nokkuð á óvart. Það segir mér að þeir sem höndla þessi mál fyrir hönd bænda eru að verja eitthvert annað kerfi en bændurnir sjálfir vilja að þeir séu að horfa til. Það segir mér að þeir séu kannski að verja eigið kerfi umfram það sem við vildum sjá bændum landsins til handa.

Ekki síst vegna þess að hv. formaður landbn. segir okkur að menn munu forðast allt skrifræði er athyglisvert að horfa á tölurnar sem koma fram í umsögnum fjármálaskrifstofu fjmrn. um hvað þetta muni kosta. Þar kemur fram, herra forseti, að þjónusta og þróunarkostnaður muni verða 1 milljarður 645 þús. kr. á þessu tímabili, hann muni verða hátt í 2 milljarðar af þessari upphæð. En álagsgreiðslurnar vegna gæðastýringar verða til muna lægri. Greiðslurnar sem eiga að fara beint til bænda vegna gæðastýringarinnar eru til muna lægri en þjónustu- og þróunarkostnaðurinn og hvert skyldi hann nú falla? (Gripið fram í: Það er frystingin.) Nei, ég held að það sé ekki frystingin. Ég held að hún sé einhvers staðar annars staðar. Sömuleiðis, herra forseti, vegna þess að menn tala um að nú ætli þeir að fækka sauðfé um 45 þúsund fjár er gert ráð fyrir uppkaupum á greiðslumarki fyrir tæpan milljarð sem er mun lægri tala en menn ætla að fara með í þjónustu- og þróunarkostnað. Þetta er athyglisvert í ljósi þess sem verið er að halda fram.

Þetta er líka athyglisvert þegar við horfum til þess hver markmiðin í samningnum eru. Þau eru að sjálfsögðu fallega orðuð. Nýi samningurinn hefur það að markmiði að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda. Við hljótum að velta svolítið fyrir okkur hvort menn séu þá á réttri leið.

Nú heyrist mér á mönnum að þeir reikni með því að nægir verði til að selja eða láta ríkinu aftur í té ávísanirnar, að selja ríkinu til baka þær ávísanir sem þeir hefðu annars rétt á að fá og að menn munu þannig geta fækka sauðfé í landinu um 45 þús. fjár. Hins vegar er ástæða til þess vegna þess að hér eru menn með ákveðin markmið og þau nokkuð háleit að vekja athygli á því hvernig fór fyrir mönnum með þann samning sem er enn í gildi, samninginn frá 1995 þar sem voru einnig háleit markmið en mér sýnist að hafi flest brugðist.

Ég sagði við þá umræðu að mér sýndist að inni í þeim samningi væri eins konar sóknarmark, að menn mundu að sjálfsögðu fjölga fé til þess að reyna að bjarga sér og það hefur sannarlega gerst. Menn hafa farið í það að fjölga fé það mikið að það er nánast jafnmikil fjölgun og sú fækkun sem menn ætla sér að ná í þeim samningi sem á nú að taka gildi ef samþykktur verður. Menn eru sem sé að reyna að spóla aðeins til baka í samningnum en mér sýnist að menn séu kannski ekki á mikilli leið til framfara.

Gagnrýnt hefur verið að engin búsetumarkmið séu í þessum samningi. Í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að gripið verði til sérstakra ráðstafana hvað varðar svæði sem byggja á sauðfjárrækt. Reyndar er líka vikið að sjávarútvegi en ekki er að sjá að samningurinn í sjálfu sér beini mönnum í þá átt, færi ekki búsetumarkmið. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig eigi að styrkja sauðfjárræktina vegna þess að auðvitað er alveg ljóst að takmörk eru fyrir því hversu fáir bændur geta haldið út á tilteknum svæðum landsins. Ef menn eru að óska eftir stórfelldum uppkaupum eða sölu bænda á ávísununum og þá jafnframt áskilnað um að ekki megi vera með sauðfjárrækt á jörðinni næstu sjö árin þá má ætla að það verði þannig grisjun á ýmsum svæðum landsins að enginn landbúnaður verði stundaður. Þar koma bæði til félagslegir þættir en líka hitt að til þess að smala suma afrétti þarf ákveðinn fjölda bænda. Ef þeir eru ekki til staðar er sauðfjárrækt þar með dottin um sjálfa sig á viðkomandi svæði.

Mér finnst athyglisverð, herra forseti, sú áhersla sem lögð er hér á gæðastýringu. Kannski hef ég verið of tilbúin til þess að trúa því að við værum með vöru í hæsta gæðaflokki. Ekki er langt síðan hér var einmitt umræða um gæðastýringarmál þar sem ríkið var að fara í mikla herferð til að selja þessa gæðavöru. Ég minnist þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal tók líka þátt í þeirri umræðu og velti vöngum yfir því af hverju ríkið þyrfti að fara í að selja þessa gæðavöru ef hún seldi sig sjálf og væri svona góð. Þessu hefur verið haldið að okkur en nú á að fara í gæðastýringu. Nú eiga bændur samkvæmt því sem hér kemur fram að sitja tvo daga á námskeiði og þar með eiga þeir að vera fullnuma í gæðastýringunni. Síðan eru önnur skilyrði sem hefur verið farið yfir, m.a. skilyrði sem lúta að því að bóndi hafi yfir að ráða beitilandi sem sé í viðunandi beitiástandi og beitarnýting sé sjálfbær.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst þessi setning hljóma eins og tónlist í eyrum mínum. Ég veit að hún gerir það gagnvart býsna mörgum öðrum. Menn vilja gjarnan sjá það að landið sé skynsamlega nýtt til beitar og mörgum hefur sviðið ofbeit eða ofnýting lands og það er í góðu samræmi við þær hugmyndir sem menn hafa orðið um umhverfisvernd og nýtingu auðlindanna að þarna sé farið fram með þeim hætti sem hér er lýst að beitiland sé í viðunandi ástandi og beitarnýting sé sjálfbær. Hins vegar sýnist mér að þarna geti verið ýmsir hlutir á ferðinni sem gera það að verkum að ég get ekki glaðst innilega þó að setningin sé falleg vegna þess að hér segir, ef ég má vitna í, með leyfi forseta:

[18:00]

,,Leiki vafi á að fullnægjandi beitiland sé fyrir hendi eða þar sem vitað er að ástand landsins er ekki ásættanlegt, svo sem vegna upplýsinga um rof eða hrossabeit, fer fram ítarlegri skoðun á landinu. Jafnframt skal stefnt að því að auðnir og rofsvæði verði ekki nýtt til beitar og gerðar tímasettar framkvæmda- og fjárhagsáætlanir um úrbætur eftir því sem við á.``

,,Jafnframt skal stefnt að því ...`` og ,,... úrbætur eftir því sem við á``. Síðan kemur toppurinn:

,,Fáist ekki fjármagn til nauðsynlegra girðinga verða bændur ekki látnir gjalda þess í vottun.``

Þeir geta sem sé fengið gæðastýringarskírteinið, heimildina eða álagið án þess að þessir hlutir séu í lagi og það segir hér: ,,Fáist ekki fjármagn til nauðsynlegra girðinga ...`` Hvaðan á það fjármagn að koma? Það fjármagn á greinilega ekki að koma frá bændum sjálfum. Þetta fjármagn á að koma úr ríkissjóði, vænti ég, og þarna er gat sem að mínu mati gerir það að verkum að mjög erfitt er að trúa á að mönnum sé fullkomin alvara með hinar ágætu fyrirætlanir um beitilandið í viðunandi ástandi og sjálfbæra beitarnýtingu. Ég verð að segja að gæðastýringarátakið og gæðastýringarumræðan og það álag sem bændur eiga að fá ef þeir taka þátt, minnir mig, í námskeiðum verkalýðsfélaganna sem voru haldin á árum áður og eru sum haldin enn og eru misgóð. Í mörgum tilfellum var um að ræða námskeið sem voru þannig að menn gátu fengið 5% launahækkun, 8% launahækkun ef þeir sóttu námskeiðin. Í sumum tilvikum var ekki hægt að halda námskeiðin. Það voru ekki tök á því. Þá voru ákvæði inni um að væri ekki hægt að halda námskeiðið fengu menn samt launahækkunina. Þetta var aðferð til að hækka launin.

Ég held því fram, herra forseti, að gæðastýringarmálin í þessum samningi sé því miður fyrst og fremst aðferð til að hækka laun bænda. Nú er ég ekki að sjá eftir því þó að bændur hafi hærri laun og mér hefur sviðið það eins og fleirum að skynja það að raunverulega fátæktin í íslensku samfélagi er á meðal sauðfjárbænda. Hins vegar væri eðlilegra og hreinlegra að koma beint framan að hlutunum.

Ég held líka að ástæða sé til að gæta að því sem hér hefur verið bent á í umræðunni að tímafresturinn liggur þannig í málinu að menn verða búnir að missa möguleikana á því að skila ríkinu aftur ávísuninni þegar að því kemur að þeir verða að fara í gegnum gæðastýringarnálaraugað sem verður eins og ég sagði áðan, herra forseti, kannski ekkert nálarauga þegar upp verður staðið þar sem að þessi varnagli er sleginn með fjármagn til girðinganna.

Áður en ég hverf frá ákvæðum samningsins vildi ég ræða aðeins um jöfnunargreiðslurnar og þá fjölgun sauðfjár sem orðið hefur. Það blasir við að á tímabili núgildandi samnings hefur sauðfé í landinu fjölgað nánast jafnmikið og það fé sem menn ætla sér að kaupa upp í næsta samningi. Það var þannig að menn gátu og geta framleitt eins og þeir vilja og með þessum samningi á að verðlauna þá og mæta þeim sem hafa verið að auka við fé sem menn gætu kannski ætlað að væru fyrst og fremst ungir bændur sem væru að byrja. Hitt stendur eftir að gamla kerfið þar sem menn leiða rétt sinn til 20 ára gamals kjötinnleggs, það er það sem blífur. Þeir sem áttu kjötinnlegg fyrir 20 árum eiga réttinn í kerfinu og þó að gerð sé tilraun til að mæta þeim sem hafa verið að reyna að vinna sig inn í kerfið, þá er það gert af mjög miklum vanefnum eða mjög sparlega skulum við kannski orða það. Það er algerlega, herra forseti, skilið á milli þess hvað menn eru að framleiða, hversu mikið og þess hvað ríkið er tilbúið til að styrkja hvern og einn.

Ýmsir velta fyrir sér lögmæti þessarar stefnu, lögmæti þess að kjötinnleggið fyrir 20 árum skapi grundvöllinn fyrir ávísanagreiðslunum í dag. Ljóst er að þeir sem eru að reyna að berjast inn í greinina og hafa vissulega verið að taka áhættu með aukinni framleiðslu og ætluðu sér kannski líka að hafa meira upp úr sér en reyndist vegna þeirra breytinga sem urðu á verði útflutts kjöts eru mjög ósáttir við hlut sinn. Þeim finnst að þarna sé hrópleg mismunun á ferðinni og efast um lögmætið eins og ég sagði áðan. Fróðlegt væri að vita og væntanlega getur hv. formaður landbn. svarað því hvort menn hafa látið skoða sérstaklega lagalega stöðu þess að tiltekinn hópur bænda, vegna þess að hann leiðir rétt sinn svo langt aftur í tímann, fær rétt til reglubundinna ávísana frá ríkinu á meðan aðrir sem eru í framleiðslu eiga ekki kost á slíku nema þá að mjög takmörkuðu leyti eins og komið hefur fram.

Herra forseti. Mér fannst merkilegt að umræða skyldi spinnast um heiðarleik þessarar stéttar. Sú athugasemd sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að eftir að búið var að gefa heiðarleikavottorðið væri þetta kannski eina stéttin með slíkt vottorð. Mér finnst lágmark ef menn vilja kalla eftir sérstökum heiðarleik hjá tilteknum stéttum að búa þeim það starfsumhverfi að þeir geti unnið í því kerfi. Mér finnst að Alþingi hafi í sumum tilfellum verið mjög mislagðar hendur þegar um það er að ræða að skapa okkar hefðbundnu atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, eðlilegt starfsumhverfi. Stundum hefur það verið þannig, herra forseti, að þeir sem hafa verið duglegastir við að fara fram úr kerfinu hafa uppskorið mest þegar upp er staðið og slík kerfi geta aldrei verið ásættanleg. Þess vegna skora ég á hv. landbn. að fara vel ofan í markmið samningsins um að styrkja sauðfjárrækt og bæta afkomu sauðfjárbænda ef hægt er að gera það í einum og sama gjörningnum og menn velti því mjög alvarlega fyrir sér hvort þau fyrirheit sem eru í samningnum, hvort þau markmið sem eru í samningnum geta samræmst því sem þarna er sett fram sem höfuðmarkmið.

Ég er á þeirri skoðun, herra forseti, að það kerfi sem verið er að framlengja með svolitlum breytingum sé löngu gengið sér til húðar, að menn þurfi að hugsa þetta upp að nýju, að rétt sé að hlusta á bændur sjálfa vegna þess eins og ég sagði áðan, að það kom mér á óvart að heyra hversu miklu lengra þeir væru tilbúnir til að ganga, hversu miklu frjálslyndari þeir voru en hv. Alþingi þegar síðan þessi búvörusamningur var samþykktur. Ég held að rétt sé að menn fari að leggja eyrun eftir því hvað verið er að segja í grasrótinni, hvernig menn vilja hafa þetta. Það kann ekki góðri lukku að stýra fyrir framtíð atvinnugreinar þar sem á að styrkja atvinnugreinina að setja upp kerfi sem menn telja að passi best fyrir eldri bændur en komi verst út fyrir hina yngri. Það er ekki lífvænlegt kerfi, herra forseti. Það er ekki framtíð í slíku kerfi.