Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:49:56 (6068)

2000-04-06 18:49:56# 125. lþ. 94.14 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ástæða til að hafa mörg orð um þau frumvörp sem hér liggja fyrir þinginu og eru reyndar fylgifrumvörp við tillögu sem hér var flutt fyrir nokkru síðan til þingsályktunar til staðfestingar á Schengen-samningnum eða Schengen-gerðum sem svo eru nefndar.

Schengen-samningurinn kom til umræðu á Alþingi 22. mars sl. og sannast sagna hélt ég að við hefðum þá lokið umfjöllun þess máls. Ég mun skýra hvers vegna svo er ekki.

Í umræðunni um þáltill. um Schengen-samninginn röktum við sum þá pólitísku þróun sem er að eiga sér stað í Evrópu og sýndum fram á hvernig Schengen-samkomulagið tengist Evrópusamrunanum. Ég minnti á Rómarsamninginn frá árinu 1957 þegar Efnahagsbandalag Evrópu var formlega stofnað, en samningurinn tók síðan gildi árið eftir, árið 1958. Það er athyglisvert að sjá hér í þáltill. í gögnum með Schengen-samningnum setningu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Schengensamstarfið er þannig liður í því að náð verði áformum þeim sem keppt er að með hinum innri markaði ESB í samræmi við 7. gr. A í Rómarsamningnum.``

Þetta er nú mergurinn málsins. Þetta er hin pólitíska hlið á þessu máli. Hér er verið að hnýta enn einn þráðinn í Evrópusamrunanum.

Ég ætla ekki að víkja nánar að þessari hlið í umræðunni nú og ætlaði sannast sagna ekki heldur að tala um hina efnahagslegu og peningalegu þætti þessa máls, taldi þá afgreidda að sinni einfaldlega vegna þess að við hefðum samþykkt Schengen-samkomulagið. Okkur þótti mörgum ýmsum spurningum ósvarað um kostnaðinn. Sitthvað var vitað. Við vitum að stofnkostnaður við Schengen-upplýsingakerfið er 220 millj. kr. Við vitum um áætlaðan kostnað við rekstur þess kerfis. En varðandi aðrar framkvæmdir sem tengjast Schengen-samkomulaginu og nýju eftirlitskerfi og tollgæslukerfi, þá er margt á huldu. Menn töluðu um 500--1.000 millj. kr. á allra næstu árum. Þetta er allt óljóst.

Við vitum hins vegar að ráðast á í stækkun á flugstöðinni í Keflavík sem í fyrsta áfanga mun kosta 3,5 milljarða kr. og síðan er rætt um 2 milljarða til viðbótar á allra næstu árum. Hve mikið af þessu er komið til vegna Schengen-samstarfsins er hins vegar óljóst. Þar er svona puttinn upp í loftið, eins og sagt var.

Þetta héldum við sannast sagna að væri allt útrætt mál. Og það við héldum við hinn 22. mars sl. En síðan rann upp 23. mars og þá skilaði frá sér áliti nefnd sem hafði einmitt verið að kanna þau mál sem snúast um Schengen-samkomulagið og peningalega og efnahagslega þætti þess. Þetta var álit frá nefnd sem hefur verið að störfum í rétt ár. Hún var skipuð í aprílmánuði árið 1998 af samgrh. og átti að kanna áhrif Schengen-samstarfsins á ferðaþjónustuna á Íslandi. Hlutverk nefndarinnar var að vera til ráðgjafar um undirbúning og framkvæmd Schengen-samningsins og skyldi hún jafnframt skoða sérstaklega hvernig hægt væri að nýta þetta aukna frelsi til eflingar íslenskri ferðaþjónustu, svo ég vísi í upphafsorð skýrslunnar.

En skemmst er frá því að segja að þessi skýrsla hefur að geyma ýmsa mjög neikvæða þætti fyrir þessa gjörð alla saman. Reyndar er það rangt sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. í umræðu á þinginu í byrjun vikunnar að nefndin eða nefndarálitið væri neikvætt þegar á heildina væri litið. Nefndin tekur á jákvæðum og neikvæðum þáttum, þótt ég hafi staðnæmst við hina neikvæðu, hin gagnrýnu atriði, þegar ég vakti máls á skýrslunni í fyrirspurnatíma á mánudaginn.

Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nefndin telur augljóst að stækkun flugstöðvarinnar sé bæði vegna Schengen-aðildar og fyrirsjánlegrar aukningar í ferðamannafjölda. Hitt er einnig ljóst að flugstöðin verður tvískipt vegna Schengen-aðildarinnar. Það er hins vegar augljóst að mati nefndarinnar að tvískiptingin í sjálfu sér veldur óhagræði og auknum kostnaði.``

Síðar í skýrslunni er vikið að viðskiptamöguleikum flugstöðvarinnar, en því hafði verið haldið mjög á lofti í umræðum hér að þeir mundu aukast verulega vegna þessara breytinga, en hér segir, með leyfi forseta:

,,Það er álit nefndarinnar að Schengen-samstarfið muni ekki auka viðskiptamöguleika flugstöðvarinnar að ráði.``

Síðar segir í þessari sömu skýrslu, með leyfi forseta:

,,Sé vikið að kostnaði við rekstur FLE má öruggt telja eins og áður hefur komið fram að hann aukist. Fyrir því eru mörg rök. Má nefna að kostnaður vegna tvískiptrar flugstöðvar hlýtur að verða meiri. Aukinn kostnaður á farþega skapast vegna þess að verslunarrými, veitingaþjónusta, Saga biðstofa, upplýsingagjöf til farþega og önnur farþegaþjónusta þarf að verða tvískipt og tilkostnaður því meiri. Kostnaður á hvern farþega vegna löggæslu og landamæragæslu hlýtur að aukast.``

Og síðar segir, með leyfi forseta:

,,Að mati nefndarinnar er hætta á að alls konar innheimta þjónustugjalda og skatta verði hækkuð á næstu árum. Það er jafnframt álit nefndarinnar að verði þjónustugjöld og skattar hækkuð skerði það samkeppnisstöðu FLE og þar með íslenskrar ferðaþjónustu. Þetta er augljóst þar sem þau gjöld sem tekin eru í dag eru ekkert sérstaklega lág í samanburði við það sem gerist í nágrannalöndunum.``

Nú er í þessari skýrslu, sem eins og ég segi dregur upp bæði neikvæðar og jákvæðar hliðar, lögð áhersla á að aukinn tilkostnaður sé ekki einvörðungu kominn til af Schengen-samstarfinu. En eins og hér er rakið og hér hefur verið vitnað til þá er verulegur hluti kostnaðarins til kominn af þeim sökum enda benda skýrsluhöfundar á að þetta valdi bæði auknum tilkostnaði og auknu óhagræði. Enda segir það sig sjálft þegar tvískipta þarf flugstöðinni, það segir sig sjálft, og þegar ráða þarf her manna til að sinna þessari auknu gæslu.

Síðan er vikið að ýmsu óhagræði sem flugfélögin verða fyrir. Það er vikið að Ameríkufluginu og erfiðleikum sem þar munu koma upp. Allt þetta er eflaust leysanlegt. En staðreyndin er eftir sem áður sú að þetta veldur miklu óhagræði og tilkostnaði.

Þá finnst mér þetta standa upp á íslensk stjórnvöld og þá sem vilja koma þessu fyrirkomulagi á: Hvað hafa Íslendingar út úr þessu samstarfi? Þetta finnst mér skorta. Við vitum að tilkostnaðurinn er mikill. Skattgreiðandinn þarf að borga fyrir þetta samstarf mörg hundruð milljónir, ef ekki milljarða og þessu fylgir mikið óhagræði. Og fram á það er sýnt af nefnd sem ríkisstjórnin lét fara í saumana á þessum málum. Það er sýnt fram á það. Þá stendur upp á ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann að sýna okkur sem höfum efasemdir fram á að kostirnir séu enn þá meiri. Og hverjir eru þeir? Ég auglýsi eftir þeim.

[19:00]

Við skiljum náttúrlega áfergju eindreginna Evrópusinna í að binda okkur böndum við Evrópusambandið eða þeirra sem vilja stuðla að stofnun Stór-Evrópuríkis og að Íslendingar gerist þar útkjálkabyggð. En gagnvart öðrum er mér þetta hulin ráðgáta.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um Schengen-samkomulagið og Schengen-samstarfið að sinni þótt að sjálfsögðu væri hægt að hafa um það langt mál, ég hef gert það í fyrri ræðum mínum þannig að sjónarmið mín eru kunn í því efni.

Mig langar þá til að víkja að frv. eða fylgifrv. sem eru til afgreiðslu og sérstaklega að tveimur þáttum sem ég hef gagnrýnt. Ég læt liggja milli hluta álitaefni sem komu upp í tengslum við skilgreiningu á landamæravörðum og hlutverki lögreglumanna við útfærslu á þessum málum. Ég hef trú á því að það muni leysast í sjálfu sér þegar fram líða stundir með lagabreytingum næsta haust. Við erum a.m.k. fullvissuð um að svo verði. En ég ætla að víkja að tveimur þáttum sem mér finnst skipta mjög miklu máli í þessu. Það er annars vegar hvað skráð er í grunninn og hins vegar persónuverndin, hvernig staðið er vörð um einstaklinginn í þessum frv.

Gagnagrunnurinn verður á ábyrgð ríkislögreglustjóra. Það er það embætti sem mun bera ábyrgð á skráningu í grunninn. Síðan þegar gáð er að því hvaða upplýsingar eigi að skrá í hann er þar að finna ýmislegt sem er harla matskennt. Það má t.d. skrá upplýsingar um hvort viðkomandi einstaklingur er ofbeldishneigður eins og segir í lögunum. Þetta er matskennt, þetta getur verið handfast ef viðkomandi hefur verið dæmdur en þetta getur líka verið matskennt.

Í 6. gr. í 2. lið b, segir varðandi heimildir til skráningar á upplýsingum um einstaklinga í upplýsingakerfið:

,,Ætla má af fyrri hegðun hans eða öðrum ástæðum að tilgangur hans með komu hingað til lands eða á Schengen-svæðið sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingastarfsemi.``

Þarna erum við aftur komin með atriði sem er harla matskennt og það er ríkislögreglustjóri sem á að ákveða þetta upp á sitt eindæmi. Hann ákveður hvað er skráð í grunninn. Ef hann álítur einhvern einstakling líklegan til að fremja skemmdarverk þá skráir hann í grunninn og sendir boð um það inn á allt Evrópusvæðið í gegnum gagnagrunninn.

Ég vakti athygli á því við fyrri umræðu þessara mála að skilgreiningin á skemmdarverkum væri harla misjöfn. Þegar mótmælendur voru að hleypa upp fundunum í Seattle fyrir nokkrum vikum þá var litið á það sem skemmdarverk af hálfu þeirra sem skipulögðu ráðstefnu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar. Þar litu menn á það sem skemmdarverk að menn væru að reyna að hleypa upp ráðstefnunni og má til sanns vegar færa að einhverjir hafi verið að reyna það.

Hefði þessi ráðstefna átt sér stað hér á landi og hefðu einhverjir verið gripnir hér af lögreglu gæti það hent að viðkomandi einstaklingar væru skráðir í grunninn sem einstaklingar líklegir til að fremja skemmdarverk. Þetta eru harla matskennd atriði.

Ef við ætlum að samþykkja lög sem veita ríkislögreglustjóra heimild til slíkrar skráningar er það lágmarkskrafa að mínum dómi að persónuvernd verði styrkt til mikilla muna frá því sem er í þessum lögum. Því í lögunum getur persónuvernd, sem nú heitir tölvunefnd, --- persónuvernd kemur hún til með að heita --- komið á framfæri við ríkislögreglustjóra ábendingum eða gagnrýni og hún getur gert hið sama gagnvart dómsmrn. En hún hefur ekki vald til að setja fram bindandi tilmæli, það hefur hún ekki. Hún hefur ekki vald til að setja fram bindandi tilmæli um að ríkislögreglustjóra beri að taka einstaklinginn út úr gagnagrunninum.

Er það eitthvað í Schengen-samkomulaginu eða samningnum sem mælir gegn því að persónuvernd fái þetta vald? Nei. Það er ekkert í samningnum sem mælir gegn því. Í samningnum í 109. gr. og einnig í 114. gr. er vísað til innlendra laga í þessu efni.

Í 109. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Réttur hvers einstaklings til þess að fá aðgang að þeim upplýsingum, sem eru til um hann í Schengen-upplýsingakerfinu, skal vera í samræmi við innlend lög samningsaðilans sem fær beiðni um nýtingu þessa réttar á yfirráðasvæði sínu.``

Í 114. gr. segir, með leyfi forseta, hér í 2. lið:

,,Hver sem er hefur rétt til að senda beiðni til eftirlitsstofnunarinnar um athugun á upplýsingum, sem skráðar eru um viðkomandi einstakling í Schengen-upplýsingakerfinu, svo og á notkun þeirra. Þessi réttur er útfærður í samræmi við innlend lög þess samningsaðila sem fær beiðnina. Hafi annar samningsaðili fært inn viðkomandi upplýsingar fer athugunin fram í náinni samvinnu við eftirlitsstofnun þess samningsaðila.``

Einnig hér er vísað í innlend lög. Það er ekkert í samningnum sem kemur í veg fyrir að við getum hert hina innlendu löggjöf til verndar persónuvernd Íslendinga, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það.

Þess vegna er það algjörlega óskiljanlegt að meiri hlutinn á Alþingi skuli neita að taka ábendingar okkar úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til athugunar. Mér finnst gjörsamlega óskiljanlegt að gefa einum manni, ríkislögreglustjóra, sjálfdæmi um hvað hann setur inn í grunninn. Verndin sem við setjum fyrir einstaklinginn í formi persónuverndar, þess embættis sem er að verða til, er ekki sterkari en svo að sú stofnun hefur einungis rétt til að koma með ábendingar.

Hvað gerir einstaklingurinn ef hann ætlar að sækja rétt sinn og fá sig færðan úr grunninum ef það er í samræmi við álit persónuverndar? Hann verður að sækja það fyrir dómstólum. Hvað skyldi það kosta að sækja mál fyrir dómstólum? Skyldi það vera yfir eða undir einni milljón? Það er a.m.k. ekki langt undir einni milljón, hefði ég haldið.

Þetta eru þau atriði sem mér finnst ástæða til að taka til endurskoðunar í þessum fylgilögum með Schengen-samkomulaginu áður en við afgreiðum þau frá okkur. Mér finnst það vera grundvallaratriði að við gerum það.