Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:17:25 (6073)

2000-04-06 19:17:25# 125. lþ. 94.14 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er leitt til þess að vita að fleiri hv. þm. skuli ekki sjá þörf fyrir að sitja í salnum þegar mál af þessu tagi kemur til 3. og síðustu umræðu. Ég ítreka þau orð sem ég hef áður sagt, herra forseti: Það var sorgardagur í þessum sal þegar þáltill. um heimild til ríkisstjórnarinnar um að samþykkja og fullgilda Schengen-samninginn fór hér í gegn.

Ég ítreka það líka, herra forseti, að rökin með því að við gerumst aðilar að þessum samningi eru satt að segja afar fátækleg. Ég átel stjórnvöld fyrir að hafa ekkert gert til að nýta tímann í upplýsingagjöf og kynningu fyrir almenning sem á sannarlega heimtingu og rétt á að fá að vita um hvað hér um ræðir.

Tvö ár eru síðan lögð var fyrir þingið þáltill. sem gerði ráð fyrir að ríkisstjórnin legði fram greinargóðar upplýsingar um hvað þetta kostaði þjóðina, hvað þetta þýddi og hvar rökin með því að gerast aðilar lægju. Sú þáltill. var illu heilli felld. Enn eru afskaplega ótryggar upplýsingar á borðinu er lúta að fjármálum þessa ævintýris alls. Það á ekki síst við um umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. í frv. sem hér er til umfjöllunar, frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið.

Herra forseti. Í öllu þessu máli er stór þversögn. Það er alveg ljóst að persónueftirlit, við það að gerast aðilar að Schengen-samningnum, verður afnumið. Samt sem áður er hin fullyrðingin hávær í umræðunni og kemur á móti, að allt eftirlit verði stóraukið. Í þessu felst þversögn og við eigum auðvitað að velta þessu þannig fyrir okkur að við komumst til botns í málunum.

Ég hef, herra forseti, hlustað á lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli lýsa því hve vel þjálfaðir landamæraverðirnir okkar verði í því að lesa látæði fólks sem kemur til landsins. Ef það vill svo til að það er grunsamlegt en er ekki í upplýsingakerfinu þá ætlar lögreglan að lesa af látæði fólks hvort það er grunsamlegt eða ekki. Þetta er hluti af því stóraukna eftirliti sem verður til staðar. Herra forseti, mér finnst þetta ekki traustvekjandi.

Síðan er eitt enn. Ef út í það yrði farið þá væri meira að segja hægt að hugsa sér að Íslendingar gerðust aðilar að upplýsingakerfi Schengen án þess að samningurinn sjálfur yrði fullgiltur. Ég hefði gjarnan viljað heyra umræðu --- það hefur ekki verið rætt í þessum sal við fyrri umræður þessa máls --- um hvort það er rétt túlkað að við gætum gerst aðilar að upplýsingakerfinu sem slíku án þess að samningurinn yrði fullgiltur. Það væri ágætt ef hæstv. utanrrh. gæti svarað því og farið um það einhverjum orðum því að það er sannarlega sorglega fátt sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um þessi mál hér úr ræðustóli. Það skortir alla umræðu. Hún er sannarlega ekki nægilega djúp eða vitræn til að við getum tekið upplýsta ákvörðun um þetta mál á hinu háa Alþingi.