Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:34:19 (6118)

2000-04-06 21:34:19# 125. lþ. 94.24 fundur 595. mál: #A ríkisábyrgðir# (Íbúðalánasjóður og LÍN) frv. 70/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður ekki svarað því hvernig þessu er háttað í bókhaldi Íbúðalánasjóðs, hvort hann hefur greitt gjaldið til þessa eða hvort safnast hefur upp skuld við ríkissjóð en þeirra upplýsinga er sjálfsagt að afla og leggja fram í þingnefndinni.

Það fórst fyrir að leggja fram kostnaðarmat, þ.e. prenta það með frv. þó að það lægi fyrir þegar því var útbýtt fyrst, en frv. hefur verið prentað upp með kostnaðarmatinu. Þar kemur fram að ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlaga fyrir þetta ár að sjóðirnir greiði ríkisábyrgðargjaldið. Ef til þess hefði komið hefði rekstrarafkoma Íbúðalánasjóðs versnað um 151 milljón og Lánasjóðs ísl. námsmanna um 28 milljónir og það hefði þurft að hækka vexti Byggingarsjóðs ríkisins nokkuð og sömuleiðis Byggingarsjóðs verkamanna.

Hækkun vaxtanna hefði hins vegar haft áhrif á útgreiðslu vaxtabóta úr ríkissjóði sem erfitt er að áætla hvað hefðu orðið miklar en gera má ráð fyrir því að ríkissjóður hefði þurft að leggja Lánasjóði námsmanna til þessar 28 milljónir miðað við að raungildi eigin fjár sjóðsins hefði haldist óbreytt.

Verði þetta frv. að lögum þarf ekki að hækka útlánsvexti eða auka framlög úr ríkissjóði. Hér háttar þannig til að verið er að flytja úr einum vasa í annan, ábyrgðargjaldið af Lánasjóði námsmanna og Íbúðalánasjóði rennur beint í ríkissjóð, en ríkissjóður hefði þurft að koma með framlög til þess að standa undir gjaldinu. Þetta hefði náttúrlega verið hálfvandræðalegt mál og þess vegna er þessi leið farin, nettóútkoman er núll fyrir ríkissjóð en væntanlega bætt eða betri bókhaldsleg afkoma hjá þessum aðilum.