Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:36:57 (6120)

2000-04-06 21:36:57# 125. lþ. 94.24 fundur 595. mál: #A ríkisábyrgðir# (Íbúðalánasjóður og LÍN) frv. 70/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:36]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Enn og aftur ræðum við um frávik frá reglum sem settar eru til handa opinberum aðilum.

Þegar gjald var lagt á ríkisábyrgðir var það mjög gott skref fram á við til að sýna raunverulegan kostnað við lántöku. Áður hafði það verið svo að opinberir bankar tóku lán erlendis og það virtist vera að þeir fengju sjálfir ógurlega góð kjör. En það var í rauninni ríkissjóður Íslands sem var að fá kjörin vegna þess að ríkisábyrgð var á bönkunum.

Eftir að ríkisábyrgðargjaldið var sett á kom í ljós hver áhættan var og að menn yrðu að borga fyrir hana og þá breyttist mjög margt. Reyndar er það svo að innlánsstofnanir voru undanþegnar sem skekkti mjög mikið stöðu ríkisbankanna gagnvart þeim eina einkabanka sem var í gangi á þeim tíma.

Nú er þetta allt saman horfið þar sem búið er að hlutafélagavæða ríkisbankana og þeir hafa verið að losa sig við ríkisábyrgðina vegna þess að ábyrgðargjaldið var hærra en sem nam þeirri vaxtahækkun sem þeir þurftu að sæta á erlendum mörkuðum án ríkisábyrgðar.

Það er mjög mikilvægt í allri starfsemi að sýna raunverulegan kostnað, hvort sem það er opinber eða einkastarfsemi. En þar er ljóður á hjá opinberum fyrirtækjum og það ræddum við áðan varðandi virðisaukaskattinn. Opinber fyrirtæki greiða t.d. ekki eignarskatt. Þau greiða ekki tekjuskatt og þau greiða almennt ekki virðisaukaskatt. Þetta skekkir allan samanburð á milli þeirra og annarra fyrirtækja sem eru að hasla sér völl. Ég vil nefna að sennilega, þó ég viti það ekki, er um helmingur af löggæslunni einkavæddur. Ég reikna með því að starfsmenn í öryggisgæslu séu að verða fleiri en starfsmenn lögreglunnar. Þessar einkaöryggisgæslur eru í samkeppni við aðila sem greiða ekki þessi opinberu gjöld sem ég nefndi, eignarskatt, tekjuskatt, virðisaukaskatt o.s.frv. Hér er lagt til að þessu verði haldið áfram gagnvart þessum sjóðum.

Það getur verið, herra forseti, að menn vildu selja fasteignalánasjóðinn Íbúðalánasjóð, og hann yrði seldur fyrirtæki sem héti Húsbréf hf. Þá er náttúrlega mjög mikilvægt að sýndur sé raunverulegur kostnaður af þessum sjóðum. Líka er hugsanlegt að hægt sé að selja Lánasjóð ísl. námsmanna til einkaaðila sem tæki að sér að veita lánin en fengi styrk til þess að standa undir vaxtaniðurgreiðslunni. Þá er mjög mikilvægt að sýnt sé að það sé einhver trygging eða greitt sé fyrir ríkisábyrgðina sem hvílir á þessum sjóðum. Þess vegna er mjög mikilvægt, herra forseti, að þetta ríkisábyrgðargjald sé sýnt í reikningum þessara sjóða.

Segjum t.d. að hinn nýi banki, sem stofnaður var á dögunum eða í vikunni, geri ríkissjóði tilboð í að reka Íbúðalánasjóð. Hvernig á þá að vera hægt að sýna að það sé hagkvæmt þegar Íbúðalánasjóður greiðir enga skatta og á heldur ekki að greiða gjald fyrir ríkisábyrgðina? Það er mjög mikilvægt að sýna alla þessa skatta og gjöld til að hægt sé að sjá hvort það borgar sig að hafa þetta í höndum einkaaðila eða á hendi hins opinbera.

Ljóst er að þau gjöld sem hér yrðu lögð á, ef þessi grein yrði ekki sett á, rynnu í ríkissjóð og úr ríkissjóði. Menn eru bara að plata sjálfa sig, eða eins og hæstv. fjmrh. sagði í andsvari áðan, að þetta sýni betri bókhaldslega útkomu. Nema hvað? Það er einmitt verið að plata, það er einmitt verið að plata sjálfan sig með því að sýna betri bókhaldslega útkomu. Það er ekki verið að sýna hvað þessir sjóðir kosta ríkissjóð raunverulega.

Herra forseti. Við erum nýbúin að samþykkja fjárreiðufrv. þar sem tekið var sérstaklega á því að reyna að sýna alla skatta út og inn og reyna að sýna t.d. barnabætur, ekki sem frádrætti frá skatti heldur sem útgreiðslu úr ríkissjóði. Hér er verið að snúa við blaðinu að því leyti. Ég vænti þess að hv. efh.- og viðskn., sem fær þetta mál til umfjöllunar, muni skoða mjög nákvæmlega hvernig þetta samrýmist þeirri hugsun sem er í fjárreiðufrv. og samrýmist þeirri hugsun að sýna raunverulegan kostnað hvar sem hann verður til þó að það sýni verri bókhaldslega útkomu.