Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:22:52 (6163)

2000-04-07 12:22:52# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt viðbrögð við ræðu þingmannsins. Hann kom hér inn á grundvallarhugsun um ríkið og markaðinn. Við þekkjum afstöðu hans sem hann hreyfir hérna við á sviði sem er ekki oft til umræðu og það er að ríkið sjálft er svo ráðandi. Hins vegar hefur Sjálfstfl. aldrei tekið umræðuna og þaðan af síður ákvörðunina um hvort að einkavæða eigi þjónustufyrirtæki ríkisins. Hann hefur látið ákvörðunina verða til hinum megin frá. Hún verður til úti á markaðnum sjálfum. E.t.v. eru þetta klókindi, e.t.v. er þetta einber heigulsháttur vegna þess að þá geta menn verið í þykjustuleik, verið eins konar flokkur fólksins, en hagrætt hlutunum þannig á meðan að einn góðar veðurdag verði að einkavæða stóru ríkisfyrirtækin af því að markaðurinn er búinn að skapa þá stöðu. Það er opnað fyrir heimildir einkaaðila til þess að starfa á markaði á þeim sviðum sem áður voru með einkaleyfi ríkisins. Síðan krefst samkeppnissiðferðið þess að þar með verði ríkisfyrirtækinu deilt upp þannig að það geti ekki í skjóli annarrar markaðseinokunar beitt valdi á markaðnum gagnvart þjónustufyrirtækjum sem þar hafa orðið til. Þetta er það sem við höfum verið að horfa upp á á liðnum árum. Það sem við stöndum frammi fyrir er að ef að þessi lög heimila Landsvirkjun að reka fjarskiptafyrirtæki, sem ætti auðvitað að vera meginmálið í lagasetningunni í dag en ekki þessi subbugangur sem er orðinn til varðandi TETRA-kerfið, þá verður Landsvirkjun í þessu tilfelli e.t.v. hinn stóri samkeppnisaðili Landssímans í að reka fjarskiptafyrirtæki og e.t.v. verður það svo að enn um sinn verður það kannski hlutverk ríkisins að reka tvö fjarskiptafyrirtæki sem eru svo stór að bara þau tvö geta keppt hvort við annað og því kannski ekki ástæða til að hleypa þeim út á markaðinn. En e.t.v er þetta fyrsta skrefið í því að þau fari á markað.