Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 13:36:15 (6172)

2000-04-07 13:36:15# 125. lþ. 95.11 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ástæða er til að árétta afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til Schengen-samkomulagsins. Við erum andvíg því að Íslendingar gerist aðilar að þessum samningum. Fram hafa komið hjá stjórnskipaðri nefnd fullyrðingar um að þetta samkomulag sé mjög óhagkvæmt, bjóði upp á óhagræði og óhagkvæmni fyrir íslenska ferðaþjónustu og hafi í för með sér ómældan kostnað fyrir íslenska skattgreiðendur.

Þessar fullyrðingar koma fram án þess að þeim sé á nokkurn hátt svarað af hálfu ríkisstjórnarinnar eða stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Auk þess er að finna í þeim lögum sem er fylgifrv. með Schengen-samkomulaginu ámælisverða hluti. Ekki er nægilega staðið að persónuvernd gagnvart embætti ríkislögreglustjóra. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs getum því ekki stutt þessi frumvörp.