Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 13:47:33 (6176)

2000-04-07 13:47:33# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í framhaldi af ræðu minni áðan um Landsvirkjunarfrv. Í fyrri ræðu minni vitnaði ég nokkuð til spurninga og svara sem forstjóri Landsvirkjunar svaraði stjórnarmanni í Landsvirkjun, fulltrúa Reykvíkinga, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en hún lagði fyrir forstjórann einar átta spurningar í nokkrum liðum hverja og eina sem varða það mál sem hefur verið til umræðu, þ.e. hlutdeild Landsvirkjunar í fyrirtækinu TNeti sem síðan ætlar að fara að koma upp öðru TETRA-kerfi. Ég tel mikilvægt að ég fari aðeins yfir spurningarnar þar sem hv. formaður iðnn. gerði lítið úr því að ágreiningur væri uppi um áform Landsvirkjunar um að koma á tvöföldu öryggiskerfi hér á landi og þar sem ég tel að komi mjög skýrt fram, bæði í spurningum borgarstjórans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og svörum forstjóra Landsvirkjunar, Friðriks Sophussonar, að þarna er ekki allt sem skyldi.

Borgarstjórinn spyr forstjórann fyrst, og er best að ég lesi upp spurningarnar, með leyfi forseta:

Framhaldsstofnfundur TNets var haldinn 1. febrúar sl. þegar fyrir lá tilboð fyrirtækisins í útboði Ríkiskaupa á TETRA-fjarskiptakerfi og því hefði ekki verið tekið. Hefði þá ekki verið eðlilegt að leggja málið áður fyrir stjórn Landsvirkjunar til endurmats í ljósi þess að umræður í stjórninni og gögn sem þar hefðu verið lögð fram miðuðust öll við að stofna fyrirtækið til að standa að tilteknu tilboði á sviði öryggismála? Hér er verið að fjalla um útboð Ríkiskaupa í haust á öryggiskerfi fyrir lögregluna og slökkvistöðina. Þar varð TNet, fyrirtæki Landsvirkjunar, undir í útboði. Eins og kemur fram í spurningunni var það samþykkt hjá Landsvirkjun að Landsvirkjun tæki þátt í útboðinu til þess að sinna þessum öryggismálum en urðu þar undir.

Svar forstjórans er á þá leið að í janúar ákváðu eigendur TNets að halda áfram undirbúningi að uppsetningu TETRA-kerfis með breyttum áherslum og samkvæmt öðrum áætlunum en gengið var út frá í tilboði Ríkiskaupa og var raunar alls ekki reiknað með þeim viðskiptum sem fólust í samningi við Ríkiskaup. Þarna lýsir forstjórinn því yfir að þrátt fyrir að þeir hafi orðið undir í útboðinu og þrátt fyrir að komið hafi upplýsingar um að bara væri pláss fyrir eitt TETRA-kerfi á markaðnum, halda Landsvirkjun og fyrirtækið TNet áfram að undirbúa að setja upp TETRA-kerfið, halda þeim undirbúningi áfram í janúar í vetur eftir að þeir urðu undir í haust í útboði og er vitað að þetta mundi ekki bera sig nema eitt kerfi. Þeir koma upp TETRA-kerfi. Það hefur komið fram í ræðum m.a. í máli mínu að þeir eru búnir að kaupa kerfi frá Nokia sem getur ekki gengið með því kerfi sem fyrir er. Þetta gera þeir þrátt fyrir að ekki er komin lagaheimild fyrir fyrirtækið til þess að fara út í slíkan rekstur, þá er þegar búið að fjárfesta í búnaðinum. Þarna er stjórnarmaður með mjög gagnrýnar spurningar.

Síðan spyr borgarstjórinn: Hefur TNet gert samninga sem fela í sér verulegar fjárhagsskuldbindingar? Ef svo er, hversu mikill er hlutur eða ábyrgð Landsvirkjunar í þeim og hefði ekki verið rétt að bera slíkar ákvarðanir undir stjórn fyrirtækisins? Þarna kemur líka fram að þátttakan í þessu fyrirtæki, TNeti, hefur ekki einu sinni verið borin upp í stjórn fyrirtækisins. Þá svarar forstjórinn: Samkvæmt upplýsingum TNets hefur fyrirtækið gert samninga sem fela í sér fjárhagsskuldbindingar sem nema um 200 millj. kr. Hlutur Landsvirkjunar í þeim skuldbindingum er sem nemur hluta Landsvirkjunar í inngreiddu hlutafé sem er samtals 21 millj. kr. og heimildum til aukningar hlutafjár í 150 millj. kr. Landsvirkjun á einn þriðja hlut í TNeti. Þetta segir forstjóri Landsvirkjunar 29. mars sl., hálfum mánuði eftir að hann er búinn að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun í bréfi að þeir séu ekki eigendur að þessu fyrirtæki.

Hver er að segja satt þarna og hvenær? Mér finnst full ástæða til að það komi fram í umræðunum um þetta mál. Borgarstjóranum og stjórnarmanni í Landsvirkjun er sagt það 29. mars að þeir séu þriðjungseigendur að TNeti, en hálfum mánuði áður eru þeir ekki hluti af eigendum og alls ekki samkvæmt hlutafélagaskrá. Þar eru þeir enn þá eigendur.

Síðan eru ýmsar fleiri spurningar. Ég ætla ekki að lesa þær allar upp, menn ættu að geta kynnt sér þær, en ég vil geta þess að borgarstjóri spyr einnig um hvar sé áformað að koma upp TETRA-móðurtölvu TNets, þ.e. því öryggiskerfi sem þeir hafa verið að kaupa. Samkvæmt upplýsingum TNets hefur ekki verið tekin ákvörðun um staðsetningu TETRA-miðstöðvar TNets en framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur þó lýst áhuga á að leigja aðstöðu af Landsvirkjun í þessu skyni. Það eru sem sagt áform uppi um það að koma þessu kerfi fyrir hjá Landsvirkjun.

Síðan er spurt um grundvallaratriði, sem ég tel vera stórmál í þessu, og það er hvort mismunandi TETRA-fjarskiptakerfi sem tengd eru tveimur mismunandi móðurtölvum, þ.e. kerfi Irju sem núna er Lína.Net og kerfi TNets, gætu talað saman án sérstaks búnaðar. Þá kemur ákaflega loðið svar frá forstjóranum en sérfræðingar eru reyndar búnir að svara iðnn. því að það er ekki hægt og það verður ekki hægt fyrr en eftir kannski fjögur ár að þessi kerfi geti haft samskipti. En forstjórinn svarar svona: TETRA-staðallinn sem slíkur gerir ráð fyrir að um samtengingu tveggja eða fleiri kerfa geti verið að ræða með sérstökum skilgreindum tengiskilum. Slík tengiskil eru þó ekki tilbúin til notkunar hjá öllum framleiðendum. Samkvæmt upplýsingum frá TNeti mun þó vera hægt að framkvæma vissar samtengingar milli óskyldra kerfa nú þegar.

Komið hefur fram að ekki er hægt að tengja þessi tvö kerfi saman og verður kannski ekki fyrr en eftir kannski fjögur ár.

Síðan eru tvær spurningar í lokin sem ég ætla að láta fylgja með. Sjöunda spurningin er: Liggja fyrir eða eru í undirbúningi einhverjir samningar milli Landsvirkjunar og TNets um að Landsvirkjun kaupi þjónustu af TNeti þegar það hefur rekstur? Þá svarar forstjórinn: Ein af forsendum þess að Landsvirkjun hafi á sínum tíma forgöngu um að kynna TETRA-tæknina hérlendis var sú að tími var kominn til að endurnýja eldra talstöðvarkerfi fyrirtækisins. Engir samningar liggja þó fyrir um kaup á þjónustu af TNeti.

Þetta er allt mjög sérkennilegt og þyrfti auðvitað að fá skýringar við.

Síðan er áttunda spurningin: Eru áætlanir eða samningar um að TNet hafi einhvern aðgang að línum eða aðstöðu Landsvirkjunar til reksturs fjarskiptakerfis síns? Svarið frá forstjóranum er svona: Framkvæmdastjóri TNets upplýsti að í öllum áætlunum TNets hefði verið gert ráð fyrir því að fyrirtækið leigði aðstöðu og fjarskipti af þeim aðilum sem slík gæði eiga sem auk Landsvirkjunar eru aðallega starfandi fjarskiptafyrirtæki hérlendis. Eins og kunnugt er hafa lög um Landsvirkjun staðið í vegi fyrir slíkum samningum hvað leigu á fjarskiptaleiðum varðar, bæði fyrir TNet og aðra. Með samþykkt frv. með breytingu á lögum um Landsvirkjun sem er nú til umfjöllunar á Alþingi verða slíkir samningar þó mögulegir.

Þetta eru gróflega spurningar og svör sem ég vitnaði til í máli mínu áðan og sýnir að ætlun Landsvirkjunar var alltaf að fara inn á öryggismarkaðinn. Öryggismarkaður sem þegar var vitað að væri uppfylltur með útboðinu við Irju og ekkert pláss var fyrir fleiri í. Þetta er því alveg ljóst að allan tímann var ætlunin að komast inn á þetta hvað sem tautaði og raulaði.

Sömuleiðis eru notuð öll brögð til þess að komast inn á þennan markað, m.a. gefnar misvísandi og rangar upplýsingar um aðild Landsvirkjunar að fyrirtækinu sem ég tel að fulltrúar fyrirtækisins skuldi okkur skýringar á, þ.e. þingmönnum sem eru að afgreiða þetta mál. Ég nefndi í fyrri ræðu minni að við þyrftum að fá ýmsar skýringar á upplýsingum sem við höfum hér og hafa komið fram í umræðunni í nefndinni áður en þetta mál verður endanlega afgreitt.