Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:08:17 (6179)

2000-04-07 14:08:17# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þau orð sem hér voru viðhöfð, þ.e. að skoða hvernig við nýtum verðmæti okkar, en þá eigum við líka að vinna að málunum þannig að okkur gefist tími til þess í nefndarstarfi að fara yfir þann þátt. Eins og ég dró fram í ræðu minni í morgun var það ekki gert. Við höfum ekkert fjallað um það fyrirtæki sem Landsvirkjun ætlar að setja á laggirnar og eiga 100%, sem er félag um ljósleiðara. Og því miður, hv. þm. Árni Ragnar Árnason, hafa þau vandamál sem hér hefur verið drepið á ekki gufað upp, þvert á móti hafa þau verið leidd fram með slíkum rökum að nú er alvarlega verið að skoða það af hálfu formanns nefndarinnar að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. Ekki af því við stöndum hér og séum að nöldra, heldur vegna þess að það eru nokkur atriði sem afdráttarlaust verður að skoða betur.

Við erum að tala um að á markaðnum í TETRA-kerfinu er öryggis- og neyðarband annars vegar og almennt band hins vegar. Á almenna bandið sækja margir. Póst- og fjarskiptastofnun hefur óskað eftir umsögn dómsmrn. um það hvort dómsmrn. telji það forsvaranlegt að kerfi nr. tvö fari inn á neyðar- og öryggisbandið og því hefur ekki verið svarað. Auðvitað bíðum við þess svars.

Við erum að tala um samkeppni og það er vissulega samkeppni á markaði á ákveðnum sviðum fjarskiptamála, við erum með fleiri en eitt farsímakerfi, en annars, hv. þm., erum við með ríkiseinokun sem er ekki endilega heppileg, jafnvel frá sjónarhóli þess fólks sem vill sjá verðmætin í eigu ríkisins. En við verðum líka að passa að ríkiseinokun verði ekki að markaðseinokun sem er enn þá verra. Í því efni hefur hv. þm. Pétur Blöndal haldið hér ræður sem virkilega hefur verið hlustandi á. Og hvað gerist ef Landsvirkjun kaupir Landssímann og verður þar með eina fyrirtækið á markaði með tækifæri til þess að selja aðgang að ljósleiðurum og dreifikerfi?