Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:10:32 (6180)

2000-04-07 14:10:32# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég hafi oft áður sagt þá skoðun mína að mér virðist eðlilegast í ýmsum greinum, þar á meðal í þeirri starfsemi sem Landsvirkjun rekur, að breyta fyrirkomulaginu í samkeppni. Ég er sannfærður um að það verður ekki eðlilega gert með því að opinber fyrirtæki fari að keppa hvert við annað. Og ég er ekki viss um að það muni takast þannig. Þó ekki væri nema þess vegna tel ég eðlilegt að við breytum líka eignarformi þeirra fyrirtækja allra. Það hefur gerst í tilviki Landssímans. Þær deilur sem enn standa milli hv. þm. um það fyrirtæki eru eingöngu um hversu hratt eigi að ganga veginn áfram í því að selja öðrum aðilum það fyrirtæki. Og þá skulum við líka gæta þess að hér á landi starfa ýmsir aðilar við að ávaxta fjármuni landsmanna, t.d. lífeyrissjóðir. Það er mín skoðun og ég tel mig hafa nokkuð til míns máls, að þeir leita nú að tækifærum til að ávaxta peninga sjóðþeganna hérlendis en fái ekki næg tækifæri vegna þess að ríkið er enn þá eignaraðili að svo mörgum fyrirtækjum sem þeim um leið gefst ekki kostur á að festa fé í en telja vænleg tækifæri. Ég tel að við eigum ekki að gjalda varhug við því að slíkir aðilar fái að koma til sögunnar og koma að sjónarmiðum þeirra sem er vanir að reka fyrirtæki á samkeppnisforsendum, á markaðsforsendum. Að því leyti tel ég að við getum verið sammála. Og ég held að þetta mál sé aðeins spurning um lítinn tíma og sá tími sé liðinn.