Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:12:24 (6181)

2000-04-07 14:12:24# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það reyndist ekkert naumur tími. Landsvirkjun skutlaði sér bara tímabundið út úr fyrirtækinu á meðan verið er að afgreiða það, og það stendur ekki á Alþingi, það stendur m.a. á umsögn dómsmrn. En ég hallast að því að vera sammála hv. þm. um að það sé ekki endilega það besta að risar á markaði séu tvö ríkisfyrirtæki í samkeppni, það er kannski ekki sú samkeppni sem við trúum að skili bestri þjónustu og á sem bestu verði til neytenda. Við erum bara ekki að ræða málin á þeirri forsendu. Við erum aldrei að ræða málin á þeirri forsendu, eins og ég gat um í ræðu minni í morgun vegna þess að hægt og sígandi er löggjafinn að heimila fyrirtækjum á markaði að taka og bjóða upp á sömu þjónustu og ríkið hefur haft einokun á, en bara í litlum, afmörkuðum pörtum. Hægt og sígandi fara þessi fyrirtæki að gera kröfu til ríkisins um að létta af einokun sinni á ákveðnum þáttum og benda á að ríkið geti hagrætt verði í þessum fyrirtækjum ef ekki eru aðskildir allir þættir í fyrirtækinu. Það hefur kallað á að menn bregðast við því þannig að við tölum ekki um prinsipp í þessum sal, við erum alltaf að elta viðbrögð sem verða við litlum lagabreytingum af því menn þora ekki að fara í stóru prinsippumræðuna, eins og ég benti á í morgun að Sjálfstfl., sem menn eru að segja að sé flokkurinn sem vilji helst að allt sé á markaði og heilbrigð samkeppni og fyrirtækin séu í eigu einkaaðila, og að ríkið létti þessu bara öllu af, og ég spurði: Er það? Vegna þess að það er ekki sú pólitík sem hefur verið rekin hér. Hins vegar er þessu laumað til og frá og svo elta menn uppi afleiðingarnar hér á þinginu í einu litlu frv. sem er hálf lína og sem við þurfum að túlka út og suður og halda annan fund í nefndinni til að vita hvernig sé. Þannig er nú málið.