Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:24:54 (6186)

2000-04-07 14:24:54# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þau frv. sem við ræðum hér frá hæstv. sjútvrh. eru skyld. Markmið þeirra beggja eiga að vera að tryggja skýra gjaldtöku og ákveðna samræmingu og eins og hér segir, með leyfi forseta, ,,að skýrar sé kveðið á um grundvöll og fjárhæðir gjalda en gert er í núgildandi lögum``. Það eru út af fyrir sig eðlileg og sjálfsögð markmið að stjórnvöld reyni að hafa samræmda gjaldtöku innan sömu atvinnugreinar en ég rek augun í það, herra forseti, að hér segir líka að þetta sé í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka hækkun gjalda til að sporna við þenslu í hagkerfinu. Þess vegna er lagt til að vísitölubinding þróunarsjóðsgjalds á skip verði afnumin en þetta gjald mun hafa verið uppfært reglulega árlega miðað við byggingarvísitölu.

Mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh.: Ef það á að afnema sjálfvirknina í þessu til að sporna við þenslu í hagkerfinu, við hvað á þá að miða þegar gjaldið verður uppfært? Líklega verður það gert árlega, við hvað á þá að miða ef ekki þær hækkanir sem orðið hafa? Hafa menn hugsað sér einhverja spánnýja aðferð sem byggi á einhverjum allt öðrum forsendum? Ég sé ekki að það að breyta þessum þætti afnemi í sjálfu sér sambærilega hækkun og ella hefði orðið.