Vinnumarkaðsaðgerðir

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:41:35 (6196)

2000-04-07 14:41:35# 125. lþ. 95.33 fundur 521. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# (atvinnumál fatlaðra) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv. er fylgifrv. með frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga sem við ræddum fyrir nokkrum dögum og er flutt vegna yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.

Ástæðan til þess að nauðsynlegt er að breyta lögunum um vinnumarkaðsaðgerðir í tengslum við samþættingu málefna fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga er sú að eiginleg atvinnumál fatlaðra sem falla nú undir lög um málefni fatlaðra, verða ekki felld undir félagsþjónustu. Með eiginlegum atvinnumálum fatlaðra er átt við atvinnu sem unnin er á launum samkvæmt kjarasamningi. Sú hlið málefna fatlaðra er því felld undir Vinnumálastofnun með frv. þessu. Aftur á móti er iðja og þjálfun sem flokkast undir atvinnumál fatlaðra, færð undir félagsþjónustu sveitarfélaga samkvæmt frv. til laga um það efni.

Atvinnumál fatlaðra í skilningi frv. skiptist í tvennt, annars vegar vinnu á almennum vinnumarkaði með stuðningi og hins vegar vernduð störf. Forsenda þess að framangreind störf falli að frv. þessu er að þau séu unnin á kjarasamningsbundnum launum eins og áður hefur komið fram. Er lögð áhersla á að vinna fatlaðra á almennum vinnumarkaði með stuðningi gangi framar verndaðri vinnu. Reynslan sýnir að ef rétt er á haldið og fatlaðir fá vinnu við hæfi og nauðsynlega aðstoð, einkum í upphafi starfs, geta þeir innt af hendi margvísleg störf á vinnumarkaði. Er ekki talinn vafi á að sú leið er fötluðum mikilvæg til þátttöku í samfélaginu og að það sé ódýrara fyrir þjóðfélagið þegar fram í sækir en störf í verndaðri vinnu. Er svæðisvinnumiðlunum ætlað að aðstoða hina fötluðu við að fá nauðsynlega liðveislu í störfum á almennum vinnumarkaði.

Nú sem fyrr er talið nauðsynlegt að fyrir hendi séu vernduð störf. Þau störf geta ýmist verið unnin á vernduðum vinnustöðum eða innan dagvistar sveitarfélaga. Vinnumálastofnun er fyrst og fremst ætlað að semja um vernduð störf við viðkomandi rekstraraðila en ekki að reka verndaða vinnustaði. Þó er talið rétt að heimila Vinnumálastofnun slíkan rekstur og því er ákvæði þar að lútandi í frv.

Nú sem fyrr er vernduðum störfum ætlað tvíþætt hlutverk, annars vegar að sjá fólki fyrir vinnu til frambúðar, hins vegar að starfsþjálfun sem felst í vinnunni skili þeim árangri að einstakingar geti fært sig um set yfir til almenns vinnumarkaðar. Í verndaðri vinnu felst því samkvæmt framansögðu bæði vinna í hefðbundnum skilningi en jafnframt starfshæfing og starfsþjálfun.

Lögð er áhersla á að vernduð störf geta hentað fleirum en fötluðum og er ákvæði frv. um það atriði ekki bundið við þann hóp. Talið er að það sé umtalsverður kostur að Vinnumálastofnun bætist nýtt úrræði fyrir þá sem hafa ekki af ýmsum ástæðum fundið sig á almennum vinnumarkaði en geta unnið í vernduðu umhverfi.

Við það að málaflokkur þessi verði færður til Vinnumálastofnunar er gert ráð fyrir að þangað verði ráðnir starfsmenn til þess að sinna honum. Lögð er áhersla á að sú sérþekking sem svæðisskrifstofur málefna fatlaðra hafa á sviði atvinnumála þeirra glatist ekki heldur skili sér til Vinnumálastofnunar. Þetta er að sínu leyti sams konar áhersla og fram kemur í yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

[14:45]

Um kostnað skal það tekið fram að bæði kostnaður vegna verndaðrar vinnu og aðstoðar á almennum vinnumarkaði greiðist úr ríkissjóði. Í fjárlögum ársins 2000 fá tíu verndaðir vinnustaðir um 140 millj. kr. framlag en árið 1998 störfuðu þar 349 manns í rúmlega 220 stöðugildum. Meðalstarfshlutfall starfsmanns í verndaðri vinnu var því um 60% og má áætla að 25--30% eða um 90--100 manns hafi þá starfsgetu sem krafist er í frumvarpinu til að stunda launuð störf. Ef miðað er við meðalstarfshlutfallið má gera ráð fyrir að alls verði um 60 stöðugildi í verndaðri vinnu eftir gildistöku laganna og að kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra verði 35--40 millj. kr. á ári. Ekki er um að ræða ný útgjöld þar sem fjárhæðin kemur til lækkunar á þeim 140 millj. kr. sem nú er varið til verndaðra vinnustaða. Mismunurinn flyst yfir til sveitarfélaga til að reka dagvist fyrir þann hóp starfsmanna á vinnustöðunum sem ekki standast þær kröfur um vinnugetu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði sent til hv. félmn. að lokinni umræðunni en þar sem þetta er fylgifrv. við félagsþjónustufrv., sem er ekki hugmyndin að verði samþykkt eða fullafgreitt á þessu þingi, liggur ekki á að afgreiða það en nauðsynlegt að það fylgi með til þess að menn hafi myndina fyrir sér hvernig frambúðarskipulag þessara mála geti haganlegast orðið.