Alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:23:01 (6219)

2000-04-07 16:23:01# 125. lþ. 95.40 fundur 557. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu# frv. 85/2000, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, er samið í umhvrn. í nánu samstarfi við sjútvrn. Frv. er lagt fram til að fullnægja þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist vegna samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, oftast nefndur CITES-samningurinn. Samningurinn var gerður í Washington 3. mars 1973 og hefur honum verið breytt tvisvar. Fyrri breytingin er kennd við Bonn og var gerð 22. júní 1979 og hin síðari Gaborone þann 30. apríl 1983. En hún hefur ekki enn öðlast gildi.

Tilgangur CITES-samningsins er að koma í veg fyrir verslun með dýr eða plöntur í útrýmingarhættu eða ef slík hætta vofir yfir ef viðskipti með þau halda áfram. Samningurinn nær ekki einungis til dýra og plantna heldur einnig afurða af þeim.

Samningurinn hefur síðan hann tók gildi árið 1975 haft mikil áhrif til aukinnar verndunar lífríkisins og aukið talsvert líkur á að unnt verði bjarga fjölmörgum tegundum sem nú eru í útrýmingarhættu eða nálægt því.

CITES-samningurinn byggir á því að viðskipti milli landa með dýr og plöntur í útrýmingarhættu eða ef slík hætta vofir yfir ef viðskipti halda áfram eru bundin reglum um inn- og útflutningsleyfi. Í tveimur viðaukum við samninginn eru taldar upp þær tegundir sem samningurinn nær til. Annars vegar eru tegundir í mikilli útrýmingarhættu, en þær eru taldar upp í I. viðauka og hins vegar tegundir sem minni hætta vofir yfir en nauðsynlegt er að takmarka viðskiptin með og eru þær taldar upp í II. viðauka. Nær algert viðskiptabann er með tegundir í I. viðauka en viðskipti með tegundir sem skráðar eru í II. viðauka eru háðar ströngu eftirliti. Loks hefur III. viðauki að geyma skrá yfir um 300 tegundir sem eru háðar viðskiptatakmörkunum í löggjöf einstakra ríkja.

Til að tryggja að ákvæðum CITES-samningsins sé framfylgt er mælt svo fyrir að verslun með tegundir sem undir samninginn falla sé háð sérstökum leyfum hvort sem er til innflutnings eða útflutnings. Forsenda viðskipta með tegundir í I. viðauka er að ætíð þarf bæði inn- og útflutningsleyfi stjórnvalda í viðkomandi ríkjum en verslun með tegundir í II. viðauka er ávallt háð útflutningsleyfi.

Þær tegundir sem helst falla undir CITES-samninginn eru einkum hitabeltistegundir, en helstu norrænu dýrategundirnar sem samningurinn tekur til eru ísbirnir, skógarbirnir, úlfar, gaupur og otrar auk fjölda ránfugla og uglna. Auk þess nær samningurinn yfir nokkrar tegundir hvala sem skráðar eru í I. og II. viðauka við samninginn, en Ísland hefur gert fyrirvara við samninginn vegna hvala.

Alþingi veitti með þingsályktun sem samþykkt var 14. desember 1999 ríkisstjórninni heimild til að gerast aðili að samningnum og var hann fullgiltur 3. janúar 2000. Samkvæmt ákvæðum hans á samningurinn að öðlast gildi hér á landi 2. apríl 2000. Ég vil hins vegar benda á að umhvrn. hefur í raun framfylgt ákvæðum CITES-samningsins í mörg ár með útgáfu svokallaðra CITES-vottorða þó svo Ísland væri ekki aðili að samningnum, en CITES-samningurinn gerir ráð fyrir að aðildarríkjum samningsins sé heimilt að taka við skjölum frá bærum stjórnvöldum í viðkomandi ríki séu þau í aðalatriðum í samræmi við kröfu samningsins varðandi leyfi og vottorð.

Ég mun nú, virðulegur forseti, fara yfir helstu atriði frv.

Gildissvið frv. tekur til alþjóðaverslunar með dýr og plöntur sem falla undir CITES-samninginn en einungis að svo miklu leyti sem önnur lög gera ekki strangari kröfur, t.d. um innflutning lifandi dýra. Slíkt er í samræmi við samninginn, enda gerir hann ráð fyrir að aðildarríki hans geti gert strangari kröfur um verslun með dýr og plöntur en samningurinn gerir. Lagt er til að öll verslun með dýr og plöntur sem heyra undir lögin séu leyfisskyld í samræmi við ákvæði CITES-samningsins en hann gerir eins og áður sagði ráð fyrir að sækja þurfi um sérstakt leyfi eða vottorð vegna innflutnings og útflutnings, endurútflutnings og aðflutnings úr sjó.

Í 4. gr. frv. er heimild til handa umhvrh. og sjútvrh. að setja reglugerð um atriði sem talin eru upp í greininni en frv. fellur efni sínu samkvæmt undir tvö ráðuneyti, umhvrn. og sjútvrn. hvað varðar nytjastofna sjávar.

Helstu atriðin sem lagt er til að sett verði í reglugerðir eru ákvæði um gerð þeirra leyfa og vottorða sem gefa þarf út, lista yfir þau dýr og plöntur sem talin eru upp í I., II. og III. viðauka við samninginn og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við, hlutverk leyfisveitenda og vísindalegra stjórnvalda, eftirlit stjórnvalda með að ákvæðum laganna sé framfylgt og meðferð lifandi dýra. Lagt er til að kostnaður vegna umsókna um leyfi og vottorð greiðist af umsækjanda.

Í 6. gr. frv. er kveðið á um refsingu fyrir brot gegn ákvæðum frv. og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Það er í samræmi við ákvæði CITES-samningsins en samkvæmt honum skulu aðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir til þess að framfylgja ákvæðum hans, m.a. banna verslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu sem brjóta í bága við samninginn og gera verslun sem brýtur gegn ákvæðum samningsins refsiverða.

Hæstv. forseti. Verndun dýra og plantna í útrýmingarhættu er eitt af mikilvægustu umhverfismálunum sem þjóðir heimsins þurfa að takast á við með ábyrgari hætti en verið hefur. Nú er talið að vegna athafna mannsins fækki tegundum í lífríki jarðar um fimm á hverri klukkustund. Full aðild Íslands að samningnum og framkvæmd hans hér á landi mun að sjálfsögðu ekki ein og sér hafa mikil áhrif á þá þróun, en slíkt er þó stuðningur við hið mikla átak þjóða heims sem þarf að verða. Ég tel að þetta mál sé mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni og alþjóðahagsmuni og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.