Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 19:13:14 (6309)

2000-04-10 19:13:14# 125. lþ. 96.35 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[19:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Næturklúbbafrv. hæstv. samgrh. á væntanlega eftir að koma til umræðu og við getum þá skipst á skoðunum um það. Ég vil segja um þetta mál í heild sinni að vandinn í hnotskurn er sá að menn hafa flotið sofandi að feigðarósi. Fyrir um tveim, þrem árum var málið tekið upp á Alþingi af hv. þáv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, og hann spurði nokkurra gildra spurninga einmitt um þetta mál. Þar bar m.a. á góma af hans hálfu hvort meiningin væri að starfsmenn á þessum stöðum hefðu atvinnuleyfi og var hlegið mikið að því, þótti voðalega fyndið. Enginn sá ástæðu til þess að hafa af þessu nokkrar áhyggjur. Síðan eru þessir klúbbar líklega farnir að skipta tugum og mönnum blöskrar það sem þarna fer fram. Það hafa verið að koma fram í dagsljósið margar mjög neikvæðar upplýsingar um þessa starfsemi og afleiðingar hennar, óheyrileg fjárútlát og aðra hluti sem þarna hafa átt sér stað. Þá vakna menn upp við vondan draum, eftir að hafa galopnað allar dyr og verið steinsofandi í þessu máli og þá ríkir ráðleysi. Þá ríkir ráðleysi og ekki virðist vera kjarkur til þess að fara beint í málið og jafnvel ákveða hvort menn vilji yfir höfuð hafa þessa starfsemi í landinu, a.m.k. ekki setja henni mjög þröngar skorður og takmarka hana. Ekki bara vegna hennar sjálfrar sem slíkrar og þess sem þarna gerist heldur vegna þeirra hluta sem eru fylgifiskar hennar út um allan heim þar sem klámiðnaðurinn er auðvitað skjól og uppspretta annarra og enn þá verri hluta. Þetta er málið í hnotskurn og það held ég að sýni sig líka í þeim vandræðalegu viðbrögðum sem eru á ferðinni af hálfu stjórnvalda, að menn hafa vaknað upp við vondan draum eftir að hafa sofið á verðinum. Nú ríkir hálfgert ráðleysi gagnvart því hvað sé hægt að gera eða hvað eigi að reyna gera, en menn finna þrýstinginn á að eitthvað sé þá reynt. Það er auðvitað það sem er á ferðinni.

Ég vil svo endurtaka það sem ég sagði áðan að ég útiloka ekki að í þessu geti verið fólgin einhver lítils háttar bót en ég óttast að hún verði lítil.