Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 19:15:29 (6310)

2000-04-10 19:15:29# 125. lþ. 96.35 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[19:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta hafa verið mjög fróðleg orðaskipti á milli fulltrúa í hv. félmn. Það sem þeim kemur saman um er að hér hefur ríkt ófremdarástand. Það er mjög mikið vandamál að átta sig á hvernig á að komast fyrir þetta ófremdarástand og hvaða úrbætur er hægt að gera. Athyglisvert er að þrátt fyrir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið með fyrirvara í nefndinni skrifar hann þó undir þetta nál. og allir þingmenn í félmn. sameinast um að taka þetta skref, jafnvel þó þeir hafi ekki tilfinningu fyrir því að þetta breyti klámbylgjunni mjög mikið og þetta sé e.t.v. hálfkák eða kattarþvottur, þá er þetta eitt af því sem þarf að gera og e.t.v. til bóta.

Ég ætla að taka undir það að við höfum brugðist seint við vandamálinu. Ég tel að ástæðan sé sú sem hefur hitt okkur fyrir áður að okkur hættir afskaplega oft til að halda að eitthvað óþægilegt eða ósiðlegt og ljótt þrífist ekki eins í samfélagi okkar og hjá öðrum þjóðum og í stærri samfélögum. Þrátt fyrir að staðreyndin sé sú að það hefur alltaf hitt okkur fyrir, að það sem finnst annars staðar, finnst líka hér. Ég held að það sé sú hugsun að við séum betri og fallegri sem blekkir okkur. Þá bregður okkur þegar staðreyndin blasir allt í einu við, hvort sem það er einhver tegund siðleysis eða annar vandi að þetta er að finna hjá okkur og að í þjóðarsál okkar eru sömu langanir til að gægjast inn fyrir þetta framandi og ósiðlega eins og annars staðar. En það sem skiptir máli er umræðan um þessa erótísku staði, klámbylgjuna, og misnotkun á ungum stúlkum sem koma erlendis frá til þess að troða hér upp, sækja sér pening og hafa í einhverjum tilfellum verið til þess lokkaðar, eða jafnvel fluttar til Norðurlanda eða Vestur-Evrópu, til að sinna lágum hvötum þeirra sem vilja fá stúlkur til að horfa á, leika sér að eða gæla við og tengslin við fíkniefnavandann.

Það er alveg ljóst að þetta tvennt tengist oft hvað öðru. Við höfum verið að bregðast við umræðunni að sumu leyti með upphrópunum og að sumu leyti í hálfgerðri uppgjöf af því við vitum ekki nákvæmlega hvernig á að taka á þessum málum. Það er gott að þeim stúlkum sem hingað koma, kannski vegna blekkingar, e.t.v. vegna einhvers konar þrýstings eða misnotkunar, séu tryggð ákveðin réttindi. Það ætti að einhverju leyti að koma í veg fyrir mannréttindabrot. Það hjálpar e.t.v. eitthvað að sveitarfélög fá um það að segja hvar slíkir staðir eru staðsettir innan þeirra en við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar farið er með þessar sýningar út á land eru þær settar niður einhvers staðar í þessum litlu sveitarfélögum og sett á einhvern stað sem er laus og hægt er að vera með slíkar uppákomur og að þau ákvæði sem getið er um í nál., að flokka samkvæmt frv. samgrh., að vera með mismunandi flokka veitingastaða þannig að sveitarfélög eða sveitarstjórnir geti ráðið hvar rekstur slíkra veitingastaða fer fram á e.t.v. fyrst og fremst við um Reykjavík.

Þess vegna er greinilegt að frv. samgrh. er eitthvað til bóta þó það sé ekki fullnægjandi. Það frv. hér, sem er verið að afgreiða, er eitthvað til bóta þó ekki sé búið að leysa vandann. Hvað er þá verið að gera? Það er verið að fara þessar krókóttu leiðir eins og hér kom fram, að reyna að ákveða hvar næturklúbbar eiga að vera því það á að leyfa þeim að þróast hér eins og annars staðar, hvernig skorður á að setja þeim og hvað á að vera leyft og hvað er bannað. Við erum að tala um klúbba með danssýningum og í einhverjum tilfellum er hægt að hugsa sér klúbba með danssýningum þar sem þeir sem fram koma eru örugglega listamenn og enginn ætlar að setja því skorður. Síðan eru e.t.v. einhverjir klúbbar eins og þeir sem við erum að tala um, þar sem eru danssýningar og við metum svo að þeir sem fram koma eru ekki listamenn. Þetta verður vandi félmrh. og þess vegna er hægt að taka undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þetta verður vandræðalegt en það er líka mjög mikilvægt að reyna taka þetta skref eins og þau önnur sem verið er að taka í þessum efnum.

Ég tek eftir því í lok nál. er þess getið að við umfjöllun málsins í nefndinni hafi komið fram ábending um að mikil og brýn þörf væri á heildstæðri löggjöf um útlendinga hér á landi. Nefndin tekur undir það og ég tek heils hugar undir það líka.

Það er vandræðagangur í öllu sem lýtur að meðferð og þeim römmum sem snúa að útlendingum í löggjöf okkar. Mestur vandi er í því sem snýr að flóttamönnum í löggjöf okkar og það hefur átt að taka á því núna í nokkur ár. Það var sýnt frv. í fyrra, svo seint, að það fékk enga meðhöndlun hér og það er ekki farið að koma inn í þingið enn þá. Að sumu leyti mætti halda að stjórnvöld væru haldin fælni hvað það varðar að reyna að taka heildstætt á málum útlendinga. Það er ekki boðlegt fyrir Alþingi að láta þessi mál rekast áfram eins og þau hafa gert að mörgu leyti á liðnum árum.

Þess vegna, herra forseti, kem ég upp og er í raun og veru á vissan hátt að lýsa yfir stuðningi við þessa afgreiðslu þó ég geti á sama tíma tekið heils hugar undir bæði gagnrýnina á þörfina á heildstæðri löggjöf um útlendinga og þá gagnrýni sem fram kom hjá Steingrími J. Sigfússyni. Við erum ekki að leysa ófremdarástandið og við erum að flytja vandann til með einhverjum hætti og nú erum við búin að setja hluta af honum inn á borð félmrh. og við vitum að það verður mjög erfitt fyrir hann að kveða upp úr um suma af þessum hlutum. Annan vanda erum við að flytja yfir til sveitarfélaganna og þau eiga að finna erótísku veitingastöðunum stað einhvers staðar í skipulagi sínu og við vitum líka að það verður mjög erfitt að halda um það.

Ef ég ætti lausnina á því hvað ætti að gera þá mundi ég koma með hana hér og nú. Þetta dæmi er flóknara en svo. En það er eitt sem okkur ber að gera, það er að skoða þessi mál frá öllum hliðum og eins og ég sagði í upphafi máls míns, ekki síst að reyna að vera með skipulega og heildstæða umræðu um fíkniefnavandann og allt sem hangir utan á honum.

Vegna þess, og það verða lokaorð mín, herra forseti, að þann dag sem ríkisstjórnin ákvað að við værum með fíkniefnalaust Ísland 2002, þá var umræðan í sölum Alþingis vönuð, ef ég má nota það orð, og síðan hefur ekki verið almennileg umræða hér svo nokkru nemi. Full ástæða væri til þess að reyna að taka upp slíka umræðu áður en þing hverfur í sumarhlé að vori.