Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 19:24:21 (6311)

2000-04-10 19:24:21# 125. lþ. 96.35 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[19:24]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst gæta aðeins misskilnings hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur varðandi það hvað sú brtt. innifelur sem félmn. leggur til. En í brtt. segir í 2. lið:

,,Við 14. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo: Þeir sem koma fram á næturklúbbum falla ekki undir þessa undanþágu.``

Ekki mun þýða fyrir næturklúbba að óska eftir því að fram komi einhverjir á þeim stöðum undir því yfirskyni að þeir séu listamenn. Þó svo að þeir séu flokkaðir sem listamenn eftir einhverjum reglum þarf samt undanþágu fyrir atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Þeir sem koma fram á næturklúbbunum eru því ekki undir neinum kringumstæðum undanþegnir lögunum.

Til frekari áréttingar þá er síðasta málsgreinin:

,,Ráðherra getur sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu skv. 1. mgr.``