Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:17:53 (6324)

2000-04-11 14:17:53# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir séum ekki ósammála um marga þá þætti sem hún dregur fram hér en fyrir mig er notkunin á þeim möguleikum sem þetta kerfi býður upp á meginmál. Ég endurtek það sem ég sagði í ræðu við 2. umr. um málið að það er ekkert nýtt fyrir okkur að slegist sé um og bitist um hituna þegar verið er að liða í sundur ríkisfyrirtæki og hálfopinber fyrirtæki eða gefa möguleika á því að einkaaðilar komi inn á eða jafnvel félagasamtök komi inn á það. Þessu höfum við staðið frammi fyrir, ekki bara varðandi þessa hluti, eðlilega verða átök um svo stór hagsmunamál, ég geri mér fulla grein fyrir því. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og ég vil árétta það enn og aftur, og ég tel að þingmaðurinn sé ekkert mótfallinn þeirri hugsun, að það er mjög mikilvægt að þetta afkastamikla kerfi geti nýst fólki t.d. norður á Akureyri eða Húsavík. Fyrirtæki eins og Tal, sem eru með viðskiptavini á þessum svæðum, vilja hafa aðgang að þessu og þetta gjörbreytir stöðu þeirra.

Þannig lít ég á málið. Ég vil að þetta sé notað og tel að þarna sé fundin formúla til þess, ekki yfir gagnrýni hafin, það er svo langt því frá, en skásti kosturinn sem ég sé í stöðunni.