Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:17:19 (6341)

2000-04-11 15:17:19# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í þeirri nefnd sem m.a. Reykjavíkurborg tekur þátt í er talað um að nauðsynlegt sé að koma þessu t.d. í skilmála og deiliskipulag. Þetta er mjög sérstætt mál.

Ýmis orð féllu í ágætri utandagskrárumræðu fyrir áramótin um vanda þessa fólks sem kemur hingað til landsins. Þar hafði einn ágætur þingmaður orð á því að nærri daglega kæmu grátandi stúlkur sem væru í þessari miður þokkuðu atvinnugrein og bæðu Flugleiðir um flugfarseðla eða annað því um líkt til að komast heim til sín. Aðrir hafa hins vegar sagt okkur að oftar sé það á hinn veginn að þær komi brosandi út undir eyru með fullar hendur fjár í Landsbankann til að skipta íslenskum krónum yfir í gjaldeyri.

Málið er að þetta er ekkert grín. Ég geri mér alveg grein fyrir því og öfgarnar eru á báða bóga í þessu máli. Ég tel þó, án þess að ég hafi nokkuð á móti útlendingum, að ef það sem kom fram hjá hv. þm. áðan er satt þá sé eftirlit Útlendingaeftirlitsins ekki nægjanlegt. Ég spyr: Er það eitthvað öðruvísi gagnvart kvenfólki en karlmönnum? Það er ekki langt síðan þingmenn Samfylkingar komu í ræðustól og sögðu að Útlendingaeftirlitið færi offari gegn útlendingum. Nú er talað um að útlendingar komist til landsins með fölsuð vegabréf því ekkert sé fylgst með málinu. Hvar er þessi eftirlitsþáttur eiginlega á vegi staddur þegar svo breitt bil er á milli kvartana yfir því hve hart sé tekið á útlendingum og hins vegar þess að hingað komist dansmeyjar til landsins á fölsuðum vegabréfum?