Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 16:12:30 (6353)

2000-04-11 16:12:30# 125. lþ. 97.20 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., Frsm. minni hluta ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Frsm. minni hluta umhvn. (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti umhvn. um till. til þál. um notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands. Að minnihlutaálitinu standa auk mín hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason. Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að beina því til umhverfisráðherra að fela Veðurstofu Íslands að nota íslensku hugtökin logn, hægur vindur, andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður og fárviðri eins og við á í veðurlýsingum og veðurspám í ljósvaka- og prentmiðlum samhliða metrum á sekúndu þegar lýst er veðurhæð.``

Í sjálfu sér er ekki mikið um þessa þáltill. að segja. Þetta er í rauninni ekki mjög stórt mál og ekki ástæða til þess að hafa mörg orð um það. Hins vegar koma þarna fram ákveðin prinsippatriði sem kannski er vert að skoða. Flutningsmenn þessarar þáltill., sem margir eru félagar mínir í Sjálfstfl., fara fram með hana undir merkjum málverndar sem sannarlega er gott málefni og verðugt baráttumál. Við í minni hluta umhvn. teljum að leggja beri þunga áherslu á mikilvægi málverndar og málræktar. Hins vegar vill minni hlutinn árétta að vandséð sé hvernig flokka megi það sem hlutverk Veðurstofu Íslands að stunda þá málvernd sem þáltill. virðist leggja henni á herðar.

Fjölmargir umsagnaraðilar hafa mælt með samþykkt þessarar þáltill. en þrír umsagnaraðilar skáru sig sérstaklega úr, þ.e. umsagnir Veðurstofu Íslands, Háskólans á Akureyri og Orðabókar Háskólans og er sérstaklega vísað til umsagna þeirra í nefndaráliti minni hlutans.

Mig langar að rökstyðja skoðun minni hlutans í þessu máli. Í fyrsta lagi teljum við það ekki eðlilega stjórnsýsla að Alþingi beini því til umhvrh. að beina til faglegrar undirstofnunar umhvrn. að breyta ákvörðun sem byggir á faglegum rökum. Minni hluti nefndarinnar telur að Veðurstofa Íslands hafi fært fullgild fagleg rök fyrir ákvörðun sinni um að nota mælanlegan skala til að lýsa vindstyrk í stað veðurhugtaka.

[16:15]

Ýmis rök eru á móti því að taka aftur upp íslensk veðurhugtök í lestri veðurfregna. Í fyrsta lagi vildi ég nefna skilning á merkingu hugtakanna. Í umsögn Veðurstofu Íslands segir að þeir hafi gert athugun í þessa veru þar sem fram komi að þekking almennings á tengingu veðurhugtakanna við tölulegan mælikvarða, þ.e. vindstig við metra á sekúndu, er takmarkaður. Í umsögninni segir að um 80% af tæplega 800 manna úrtaki í könnun Gallup nýlega vissi ekki eða svaraði rangt spurningunni um veðurfræðilega merkingu orðsins stinningskaldi. Jafnframt segir að Veðurstofan hafi fyrir fimm árum hætt að nota vindheitin í sjóveðurspám vegna óska frá sjómönnum sjálfum sem vildu fremur tölur en heiti.

Einnig má nefna þau rök að þessi hugtök hafa mismunandi merkingu milli landshluta og jafnvel á milli tíma. Ég vil t.d. segja fyrir sjálfa mig, sem er Vestlendingur og Sunnlendingur, að í mínum huga er stormur meira en rok. En á skala Veðurstofunnar er þessu öfugt farið. Þar er rok meira en stormur. Ég veit ekki hvort þessi skilningur minn er sérstaklega vestlenskur eða sunnlenskur. Hann er alla vega annar en Veðurstofan gefur út á sínum skala.

Einnig eru ýmis önnur veðurhugtök notuð í daglegu máli, jafnvel með mismunandi merkingu, án þess að vera notuð í formlegum veðurheitaskala Veðurstofunnar. Þar má nefna gjólu, strekking og blástur. Það hafa líka verið færð rök fyrir því að tungumálið þróist en það að Veðurstofan taki upp veðurhugtök í veðurlýsingum á ný eða veðurspám breyti engu þar um.

Í öðru lagi hefur verið nefnt óhagræði við notkun veðurheita í veðurlýsingum. Nefna má að þegar Veðurstofan spáir vindi á bilinu 5--10 m/sek., sem er mjög oft, þá ná fjögur veðurhugtök yfir þetta vindbil. Það er gola sem er 3,40--5,2 m/sek.; kaldi, 5,3--7,4 m/sek.; stinningsgola, 7,5--9,8 m/sek. og stinningskaldi, 9,9--12,4 m/sek. sem, þrátt fyrir það sem hv. þm. Kristján Pálsson sagði hér áðan, er þó á bilinu 5--10 m/sek. Þetta er óþjált og óhentugt og það er ruglingslegt að nota m/sek. og hin íslensku veðurhugtök samhliða í veðurlýsingu. Auk þess hefur það litla merkingu fyrir þá sem eru að hlusta.

Það má líka nefna það að notkun m/sek. er nákvæmara en veðurhugtökin. Það samræmist mælikerfi nágrannaþjóðanna þannig að þetta er tungumál sem skilst á milli landa. Önnur rök eru að veðurhugtakaskalinn nær upp í 29 m/sek. og yfir, þ.e. hugtakið fárviðri sem ég var ekki alveg viss um hvort væri fárviðri eða ofsaveður er misvísandi í plöggum Veðurstofunnar. Þetta hugtak, fárviðri, lýsir öllum vindi yfir 29 m/sek. en vindur og ekki síst vindhviður geta farið langt þar yfir. T.d. náði veðurhamur á Austurlandi fyrr í vetur milli 50--60 m/sek. sem er helmingi meira en minnsti vindur sem hugtakið fárviðri nær yfir. Það mundi þannig alls ekki ná því að vara fólk við þegar hugtakið fárviðri eða ofsaveður er notað yfir vind yfir 30 m/sek.

Ég verð að segja að aðeins framan af vetri, eftir að þetta nýja kerfi hjá Veðurstofunni var innleitt, var ég sjálf svolítið rugluð í hvernig túlka ætti veðurspána. En þegar ég náði þessum 50--60 m/sek. á Austurlandi, þegar þökin flugu af, þá náði ég skalanum. Ég hugsa að ég sé ekki ein um að hafa tileinkað mér þennan skala, sem sagt metra á sekúndu í veðurfregnum.

Auk þessa hefur verið talað um að það að tvítaka vindstyrk eða vindhraða lengi veðurfréttirnar og það þykir ekki eftirsóknarvert. Það kemur fram bæði í umsögn Veðurstofunnar og einnig Ríkisútvarpsins. Miðlunartillagan í þessu öllu saman, og ég tel að Veðurstofan hafi staðið fyrir henni, er að Veðurstofan notar yfirleitt ákveðin hugtök til áhersluauka í veðurfregnum, sérstaklega þegar verið er að spá miklum vindi, t.d. þegar hann fer yfir 30 m/sek. Þá eru til áhersluauka notuð orð eins og fárviðri eða ofsaveður.

Ég átta mig á að þessi umræða, herra forseti, er kannski ekki það brýnasta í þinginu en það væri samt ágætt að fá smáþögn.

Í þriðja lagi eru rökin á móti því að taka upp veðurhugtökin á ný þau sem snúa að málverndinni. Það er meginhlutverk Veðurstofunnar að spá fyrir um veður. Það er ekki sérstakt hlutverk hennar að standa fyrir málvernd. Veðurfarshugtökum eins og öðrum hugtökum sem lýsa veðurfari, t.d. hitastigi, er haldið á lofti með annarri notkun. Ég hef m.a. tekið fram í nefndinni að hægt er að nota þessi hugtök t.d. sem nöfn á hesta. Þeim er líka haldið á lofti með mannanöfnum. Þar get ég tekið sérstaklega fram mannanöfnin Svali og Blær og hestanöfnin Gola, Kaldi, Stormur, Gaddur, Nístingur og Þeyr en þetta eru hitaheiti sem upplögð eru sem nöfn á hesta til að viðhalda þessum hugtökum í daglegu tali.

Sams konar breyting hefur átt sér stað þegar breytt var úr gömlu mælieiningunum, t.d. tommu, þumlungi og öðrum hugtökum í metra. Einnig hefur sams konar breyting átt sér stað í gömlu hitastigslýsingunum en þar er skalinn frá 25 gráðu frosti til yfir 25 gráðu hita eftirfarandi: Fimbulkuldi er undir 25 gráðum, gaddur, hörkufrost, nístingur, stinningskaldi, kuldi, svali, milt, hlýtt, mjög hlýtt, þeyr og svækja, sem er lýsing á yfir 25 gráðu hita. Þegar hiti fer yfir 25 gráður ætti Veðurstofan samkvæmt sömu formúlu að tala um að það sé svækja úti. Varla viljum við taka þessi heiti inn sem lýsingu á hitastigi í veðurlýsingum.

Í umsögn Orðabókar Háskólans segir eftirfarandi varðandi málverndina, með leyfi forseta:

,,Orðabók Háskólans er annt um hvert orð tungunnar og reynir að gæta þess að ekkert þeirra lendi í glatkistunni. Við verðum þó að horfast í augu við að mörg orð, sem tengjast verkháttum, sem eru á undanhaldi í búskap og sjávarútvegi, munu hverfa úr daglegum orðaforða og aðeins lifa á bókum hvernig sem reynt verður að sporna á móti. Þannig hafa orð öldum saman fallið í gleymsku þegar viðmiðið breytist. Tungan hefur þó ekki orðið orðfærri og ný orð verða sífellt til í stað þeirra sem hverfa. Þau af umræddum veðurorðum, sem raunverulega eru hluti daglegs orðaforða, munu halda velli og lifa áfram í málinu. Hin verða að láta í minni pokann fyrir öðrum sömu merkingar. Þetta sýnir saga orðanna á liðnum öldum.``

Jafnframt vil ég vísa í umsögn Háskólans á Akureyri, en þar koma fram svipuð sjónarmið og vil ég vísa í það, með leyfi forseta:

,,Það er mitt álit að það sé tímaskekkja að fela Veðurstofunni það verkefni að gæta varðveislu íslenskra orða sem væntanlega eru dauðadæmd hvort eð er. Ef orðin lifa ekki með þjóðinni í lífsbaráttunni á nýjum og breyttum tímum þá verður þeim ekki haldið á lífi með því að skylda stofnanir til að þylja þau í fjölmiðlum í tíma og ótíma. Þá verða þau með tímanum stofnanamál sem enginn skilur hvort eð er. Nær væri fyrir flutningsmenn að hafa áhyggjur af talnalæsi Íslendinga og beita sér fyrir því að fólk fengi meiri og betri þekkingu í meðferð talna þar sem lífsmáti þjóðarinnar í framtíðinni byggist í æ ríkara mæli á því að geta metið upplýsingar á tölulegu formi, t.d. vindhraða í m/sek.``

Niðurstaða minni hluta umhvn. er því sú að við mælum með að þáltill. verði felld. Fleiri orð vil ég ekki hafa um þetta. Ég sagði áðan að mér fyndist þetta ekki neitt stórmál sem Alþingi ætti að velta mikið fyrir sér. Þetta er smekksatriði að vissu leyti og ég geri ráð fyrir að hv. þm. taki ákvarðanir í samræmi við eigin smekk.