2000-04-12 02:34:32# 125. lþ. 97.20 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[26:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þessi þáltill. sem er til umfjöllunar um notkun íslenskra veðurhugtaka er flutt af sjö þingmönnum Sjálfstfl. með hv. þm. Kristján Pálsson í fararbroddi. Engu að síður er tillagan eins laus við flokkspólitík og veðrið enda fjallar hún um veður og veðurlýsingar eins og áður getur. Markmiðið með tillögunni er að hvetja til þess að íslensk veðurhugtök verði notuð samhliða alþjóðlegu einingakerfi til að lýsa veðurhæð. Því er beint til umhvrh. að fela Veðurstofu Íslands að nota íslensku hugtökin logn, hægur vindur, andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður og fárviðri eins og við á í veðurlýsingum og veðurspám í ljósvaka- og prentmiðlum samhliða metrum á sekúndu þegar lýst er veðurhæð. Þetta finnst mér hið besta mál og til þess fallið að viðhalda fjölbreytileika íslenskrar tungu jafnframt notkun alþjóðlegra skilgreininga. Ég styð þessa þáltill.