Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:05:23 (6514)

2000-04-13 11:05:23# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:05]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski nokkuð sérstakt að ég skuli nota þann möguleika sem ég hef hér til að koma upp í andsvari til að koma á framfæri ábendingu sem er þó mikilvæg fyrir umræðuna um þetta mál. Þannig vill til að fyrir þinginu liggja tvær viðamiklar skýrslur sem utanrrn. hefur látið gefa út, annars vegar um alþjóðamál yfirleitt en hins vegar um Evrópumálin.

Samkomulag varð um það í utanrmn. að óska eftir því við hæstv. utanrrh. og við stjórn þingsins að sérstök umræða færi fram um skýrsluna um Evrópumálin og henni yrði ekki blandað saman við það mál sem er á dagskrá í dag. Þessi beiðni markast af því að utanrmn. lítur svo á að ástæða sé til þess að fá mjög vandaða umfjöllun um Evrópumálin og óskar eftir því að meira tímarúm gefist til þeirrar umfjöllunar og þessar tvær skýrslur séu vísbending um hversu mikilvægt það er að bæta umræðugrundvöllinn um utanríkismálin. Því höfum við farið fram á að fá sérstaka umræðu um Evrópumálaskýrsluna.

Bæði hæstv. utanrrh. og stjórn þingsins hafa orðið vel við þeirri beiðni og því hefur umræðan farið í þennan farveg sem hér verður í dag. Ég vildi aðeins gera þingheimi grein fyrir þessari afstöðu utanrmn.