Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:07:14 (6515)

2000-04-13 11:07:14# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SighB
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram hjá hv. formanni utanrmn. er samkomulag milli hæstv. utanrrh., utanrmn. og stjórnar þingsins að sú umræða sem hér á sér stað fjalli fyrst og fremst um yfirlitsskýrslu hæstv. utanrrh. um alþjóðamál en að umræðan um hina skýrsluna, um Evrópumálin, bíði síðari umræðu eftir páska. Ég mun því í þessari ræðu minni eingöngu fjalla um þau atriði í yfirlitsskýrslunni sem ekki varða Evrópumálin eða samstarf Íslands við önnur Evrópuríki nema að því er varðar norrænt samstarf og fjölþjóðasamstarf.

Hjá hæstv. utanrrh. kom fram að hann leggur áherslu á að Alþingi og þjóðin fái sem bestar upplýsingar um starf stjórnvalda að utanríkismálum. Ég tel þess vegna sérstaka ástæðu til að þakka honum fyrir að hafa á ný tekið upp þann hátt að dreifa á Alþingi ítarlegri yfirlitsskýrslu sem getur veitt miklu betri og skýrari upplýsingar um starfsemi utanríkisþjónustunnar en stutt ræða hæstv. ráðherra, en á undanförnum árum hefur verið látið við það sitja að ráðherrar flytji slíka skýrslu munnlega án þess að dreifa prentaðri yfirlitsskýrslu eins og hér er gert. Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra hefur tekið upp þann sið á ný að láta dreifa slíkri skýrslu því að hér er um að ræða merkilegt plagg sem gefur miklu betri yfirsýn og miklu betri upplýsingar um einstök atriði en hægt er að gefa í tiltölulega stuttri framsögu.

Það veldur hins vegar því, virðulegi forseti, að menn verða á þeim stutta tíma sem hér gefst að hlaupa á hundavaði yfir einstök atriði í skýrslunni og geta ekki staðnæmst við nema tiltölulega fá atriði sem þar eru nefnd. Því mun ég í ræðu minni aðeins víkja að nokkrum atriðum en aðrir þingmenn Samfylkingarinnar munu koma hér á eftir í ræðustól og tala nánar um einstök atriði í skýrslunni. Ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra að kynna þingi og þjóð starfsemi utanrrn. á þann hátt sem hann hefur hér gert. Það er ekki aðeins fróðlegt sem stendur í skýrslunni sjálfri heldur ekki síður það sem stendur í tveimur viðaukum með skýrslunni, þó svo að segja megi að sakna megi þess að öll sendiráð Íslands í útlöndum hafi ekki gert starfsemi sinni sömu skil og sum þeirra hafa gert í þessum viðbæti. Og hvet ég hæstv. utanrrh. til þess, ef framhald verður á útgáfu slíkrar yfirlitsskýrslu, sem ég vona að verði, að þar megi finna svona stutt yfirlit um starfsemi allra sendiráða Íslands sem við eigum í útlöndum.

Fyrst langar mig til að staðnæmast við einn þátt í starfsemi utanríkisþjónustunnar eins og hún er fyrirhuguð á næsta ári. Í skýrslunni er rætt um að á næsta ári sé stefnt að því að tvö ný sendiráð verði opnuð í Kanada og Japan og kemur það okkur ekkert á óvart. Hins vegar kemur mér það nokkuð á óvart, ég verð að segja það eins og er, að gert er ráð fyrir því að breyta skrifstofu fastanefndar Íslands í Vín, sem sinnt hefur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, í sendiráð í Austurríki. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra um hvað veldur því.

Nú hefur hæstv. ráðherra nýlega setið fund utanríkisráðherra Norðurlanda þar sem mótmælt var harðlega tilkomu þjóðernissinna í ríkisstjórn Austurríkis. Ef ég man rétt var niðurstaða utanríkisráðherra Norðurlandanna algjörlega samhljóma í því efni, að menn ættu heldur að halda sér frá því að lyfta undir aukin samskipti milli Norðurlandanna og stjórnvalda í Austurríki og draga frekar úr þeim heldur en hitt. En það fer auðvitað ekki hjá því að nokkra athygli vekur í þessu sambandi að Ísland skuli við þessar aðstæður ætla að stíga það skref að opna formlegt sendiráð í Austurríki, í Vín. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra og biðja hann að gefa skýringu á því hvort honum finnist þetta ekki stangast svolítið á við þá niðurstöðu sem var um þessi mál, samskiptin við Austurríki, á hinum sameiginlega fundi utanríkisráðherra Norðurlanda fyrir ekki svo löngu. Því ég er alveg sannfærður um að sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að opna sendiráð í Austurríki við þessar aðstæður og auka þar með a.m.k. hvað formið varðar samskipti sín við stjórnvöld í Austurríki með þjóðernissinnaflokkinn þar innan borðs muni vekja athygli og kannski ekkert mjög þægilega athygli á okkur Íslendingum.

Í þriðja lagi langar mig til að víkja nokkrum orðum að því norræna samstarfi sem rætt er um í skýrslu hæstv. utanrrh. og láta í ljós þá skoðun mína að á síðari árum hafi talsvert dregið úr því formlega samstarfi sem verið hefur eða var á milli Norðurlandanna áður en þrjú þeirra gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Þetta kemur m.a. mjög fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og margra stofnana þeirra þar sem er mun sjaldgæfara en áður var að Norðurlöndin flytji sameiginlegar tillögur eða fylgi sameiginlega málum úr hlaði.

Ég man vel eftir því að þegar skipulag Norðurlandaráðs eða réttara sagt þegar breytingar voru gerðar á skipulagi og starfsháttum Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum var m.a. einn tilgangurinn í þeirri breytingu sá að opna eins konar bakdyr fyrir Íslendinga og Norðmenn til áhrifa á stefnumótun Evrópusambandsins fyrir milligöngu hinna landanna þriggja.

Nú má spyrja hvort það norræna samstarf hafi borið tilætlaðan árangur. Ég vil leyfa mér að efast um það. Hins vegar er nú verið að vinna á vegum samstarfsráðherranna að endurskoðun á norrænu samstarfi, hvernig það skuli skipulagt, og ég vildi gjarnan ef hæstv. utanrrh. hefur einhverja stund aflögu, að hann ræði það mál og hvernig hann sér það í framtíðinni.

Ég vil t.d. benda á, eins og kemur fram í kaflanum um svæðisbundna samvinnu, að mjög margvíslegt og marghliða samstarf er í gang á þessu heimssvæði. Þetta er mikil flóra, menn nefna Eystrasaltsráðið, Norðurskautsráðið, Barentsráðið o.s.frv. ásamt ýmsu samstarfi um nýtingu auðlinda og umhverfismál sem á sér stað utan þessara formlegu samtaka.

[11:15]

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Gæti hann séð þá þróun fyrir sér að öll þessi flóra, allur þessi samstarfsvettvangur yrði sameinaður undir eina samræmda stjórn eða sama hatt, t.d. á vegum norrænnar samvinnu þar sem samstarfið yrði um umhverfis- og auðlindanýtingu á þessu svæði öllu, um heilbrigðismál, um félagsmál og um aðra þá þætti sem varða hagsmuni þessa hluta heims? Mjög erfitt er að fá yfirsýn yfir allt það samstarf sem á sér stað í þessari margbreyttu flóru formlegs og óformlegs samstarfs en að mínu viti er nauðsynlegt að fá heildaryfirsýn yfir það og fella samstarfið í einn farveg.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Getur hann hugsað sér það að í þeirri endurskoðun á starfsemi Norðurlandaráðs og norræna samstarfsins sem á sér núna stað sé tekið tillit til þess sjónarmiðs að reyna að fella allt þetta fjölbreytta samstarf undir einn samræmdan hatt eða eina samræmda stjórn?

Þá langar mig, virðulegi forseti, til að víkja nokkrum orðum að því sem segir í skýrslunni um gildi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fyrir Ísland. Það segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ísland hefur sýnt frumkvæði og beitt sér fyrir því að viðræður um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi, er stuðla að ofveiði, verði eitt af verkefnum næstu samningalotu WTO.``

Þetta er ágætt markmið og athyglisvert í sjálfu sér. En við skulum gæta þess líka að kasta ekki steinum úr glerhúsi. Spurningin sem ég legg fyrir hæstv. utanrrh. er þessi: Telur hæstv. utanrrh. að íslenskum sjávarútvegi á Íslandi séu ekki veittir neinir styrkir? Hvað telur hann t.d. vera þau ákvæði skattalaga að veita sérstakan sjómannaafslátt? Er það ekki óbein aðstoð við íslenska útgerð til að greiða niður eða a.m.k. auðvelda henni að bera þann launakostnað sem hún ella þyrfti að gera? Hvað telur hæstv. ráðherra að megi segja um það að íslenska útgerðin borgi ekki fullu verði þá þjónustu sem íslenskar útgerðir fá frá hinu opinbera, bæði stjórnvöldum og sveitarstjórnum, t.d. í formi hafnargjalda, formi ráðgjafar, formi vísindalegrar aðstoðar o.s.frv.?

Ég er ansi hræddur um að hægt væri að halda því fram að jafnvel Ísland, þar sem sjávarútvegurinn er ein af helstu undirstöðuatvinnugreinunum, væri ekki land sem veitti sjávarútvegi enga styrki. Svo ég vil spyrja hæstv. utanrrh. að því: Hefur hann gert gangskör að því í undirbúningi að þessari starfsemi sem hann hefur verið tillögumaður að innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að þá yrði gerð úttekt á því svo að menn gætu þá svarað fyrir það: Er um að ræða beina eða óbeina styrki opinberra aðila til sjávarútvegs á Íslandi og ef svo er, hversu miklir eru þeir?

Í fimmta lagi langar mig til þess að víkja stuttlega að fyrirætlunum hæstv. ráðherra varðandi nýja bókun varnarsamningsins ,,Agreed Minutes`` um framkvæmd þess samnings. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt bókuninni frá 1996 geta samningsaðilar óskað eftir því að hún verði endurskoðuð að fjórum árum liðnum frá undirritun (nánar tiltekið frá og með 9. apríl árið 2000). Skal þá kappkostað að hefja viðræður innan fjögurra mánaða frá því að slík beiðni er lögð fram.``

Nú er þessi dagur, 9. apríl árið 2000, runninn upp. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur þeirri ósk verið komið á framfæri að umræddar viðræður hefjist og má þá eiga von á því að þær hefjist í haust? Þá er spurning mín til hans númer tvö: Hvert er upplegg stjórnvalda í þeim viðræðum? Hver eru samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda í þeim viðræðum um framkvæmd varnarsamningsins eða nýja bókun við varnarsamninginn, eins og það heitir nú á réttu máli? Hver eru samningsmarkmiðin sem Ísland leggur upp með í þeim viðræðum? Getur hæstv. ráðherra greint frá því? Auðvitað hlýtur hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn að hafa komið sér niður á einhver samningsmarkmið áður en þær viðræður hefjast og það væri vissulega forvitnilegt að fá upplýsingar um það hver þau samningsmarkmið eru.

Þá vil ég einnig fagna því að í kaflanum um samning um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn tekur hæstv. utanrrh. af öll tvímæli um það sem hann gerði ekki í ræðu sinni á Alþingi fyrir ári, að hann gagnrýnir afstöðu öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir að hafa látið hjá líða að staðfesta samninginn um að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og frekari þróun þeirra. Hæstv. utanrrh. tekur fram í skýrslunni að Bandaríkjamenn hafi barist einna harðast allra fyrir því að koma þessum samningi á. Hann tekur líka fram að samningurinn hafi ekki enn tekið gildi því það vanti upp á að þau 44 ríki sem tilgreind eru í samningnum hafi fullgilt hann. Aðeins 41 af þessum 44 hafa undirritað samninginn.

Alvarlegasta áfallið er að sjálfsögðu það að öldungadeild Bandaríkjaþings skuli hafa neitað að staðfesta samninginn, að stærsta kjarnorkuveldi heims, sem menn stóðu í þeirri trú að væri að berjast fyrir samningi um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn, skyldi þegar átti að fullgilda slíkan samning snúa við blaðinu. Þetta eru að sjálfsögðu mjög alvarleg tíðindi og áfall fyrir álit Bandaríkjamanna og Bandaríkjastjórnar, a.m.k. á Vesturlöndum, og sennilega um heim allan, því að þessi ákvörðun Bandaríkjaþings getur dregið mjög alvarlegan dilk á eftir sér í samskiptum við önnur kjarnorkuveldi.

Því fagna ég því, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. tekur undir gagnrýni á þessa afstöðu og fullyrðir að afstaða öldungadeildarinnar hafi orðið verulegt bakslag í þessari viðleitni.