Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:28:52 (6519)

2000-04-13 11:28:52# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:28]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að ríki Evrópusambandsins hafa ekki vísað Austurríki úr samtökum sínum eða af sameiginlegum fundum. En honum hlýtur að vera alveg jafnljóst og mér að opinberir fulltrúar Austurríkis á slíkum fundum, a.m.k. ráðherrar sem þar hafa mætt, hafa verið sniðgengnir og þeir látið lítið fyrir sér fara og lítið tillit verið tekið til þeirra, m.a. í almennum samskiptum milli manna.

Það er allt annar hlutur hvort menn taka ákvörðun við þessar aðstæður um að draga úr samskiptum sínum við Austurríki eða hvort menn taka ákvörðun við þessar aðstæður að stórauka þau, eins og það er að stofna sendiráð í ríki þar sem sendiráð hefur ekki verið fyrir. Það er viss viðurkenning þeirra stjórnvalda eða þeirra ríkja sem það gera á þeirri ríkisstjórn sem þeir eru að opna samskipti við. A.m.k. er litið svo á að fólgin sé ákveðin viðurkenning og ákveðin traustsyfirlýsing í slíkum tilvikum og mér finnst full ástæða til að spyrja sig að því hvort rétt sé að gera það. Ég vissi um það, það hefur komið áður fram hjá hæstv. utanrrh. hvaða afstöðu hann hafði til þróunar mála í Austurríki. Þess vegna kom það mér á óvart þegar ég hnaut um það í lestri blaða að norrænu utanríkisráðherrarnir hefðu á fundum sínum orðið sammála um hvernig skyldi taka á málum, hvort sem það væri í formi opinberrar yfirlýsingar eða ekki. En það kemur í ljós, hæstv. forseti, að utanrrh. Íslands virðist vera nokkuð jákvæðari í afstöðu sinni til stjórnvalda í Austurríki en utanríkisráðherrar annarra Norðurlanda.