Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:31:30 (6520)

2000-04-13 11:31:30# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:31]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Sú skýrsla sem hér liggur fyrir um alþjóðamál er ítarleg og markar ásamt annarri úgáfu á vegum ráðuneytisins nú um þessar stundir mikilvægi utanríkismála og það hvernig vægi þessa málaflokks hefur vaxið, ekki síst á undanförnum áratug. Íslendingar eru að sjálfsögðu mjög háðir utanríkisviðskiptum. Af Evrópuþjóðum er þjóðin ein þeirra sem eiga mest undir utanríkisviðskiptum, það á reyndar við um flestar smáþjóðir Evrópu. Það sem hefur breyst síðasta áratug er að vægi og samsetning öryggismála hefur vaxið, þau hafa orðið flóknari og samspil þeirra við utanríkismál orðið sterkara. Sama má segja um umhverfismálin, þau hafa líka tekið á sig nýja vídd og tengjast nú mjög mikið öryggismálum og viðskiptamálum eins og ég mun koma að síðar. Í samræmi við þetta hefur verið unnið markvisst að því að styrkja utanríkisþjónustuna og er það vel og tímabært og hefur haft áhrif á stöðu okkar Íslendinga til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri.

Ég vil geta þess sérstaklega að ég tel tímabært að opna sendiráð í Japan. Japan er mjög stórt í efnahags- og viðskiptalífi heimsins, einn af stærstu aðilunum á því sviði. Íslendingar eiga mikil viðskipti við Japana og má búast við því að þau fari vaxandi. Líka má vekja athygli á því að viðskiptaumhverfi í Austurlöndum fjær þar sem við skoðum stöðu Japan, Kína, Tævan og annarra þeirra efnahagssvæða sem þar hafa verið að rísa á undanförnum árum er ljóst að þar verður mjög virkt viðskiptasvæði í framtíðinni. Hugsanlegt er að mesti hagvöxturinn í heiminum verði á komandi árum einmitt á þessu svæði. Þar eru fyrir mjög sterkir aðilar, Japana hefur nú verið getið, Suður-Kórea er þrátt fyrir áföll, sem þá hafa hent, enn þá mjög sterkur aðili og verður það væntanlega í framtíðinni. Mjög miklu skiptir hvernig þróun mála verður á meginlandi Kína. Tævanar eru með sterkustu efnahagssvæðum í heimi og eru sérstaklega sterkir á sviði tæknibúnaðar. Þeir framleiða sennilega um þessar stundir um 60% af tölvuborðum sem seld eru í heiminum og hafa afar sterka stöðu á því sviði. Þeir hafa áætlanir um að styrkja stöðu sína enn frekar á sviði viðskipta og samgangna. Þeir eru stærsti fjárfestingaraðili á meginlandi Kína og er þar bæði um að ræða beina fjárfestingu Tævana á meginlandinu, einkum og sér í lagi óshólmasvæði Yangtzekiang en ekki síður óbeina fjárfestingu í gegnum fyrirtæki sem Tævanar eiga í Singapúr og Malasíu. Þarna er því um að ræða verulega breytingu og svæði sem mikilvægt er fyrir Íslendinga að tengjast nánari böndum og sterkari í framtíðinni.

Opnun sendiráðs í Kanada markar líka mikilvæg skref fyrir okkur Íslendinga. Við eigum mjög margt sameiginlegt með Kanadamönnum og viðskiptatengsl okkar þyrftu að styrkjast þar og geta styrkst mjög verulega. Það á ekki síst við um hagsmuni okkar sem eru menningarlegs eðlis og eru samofin íslenskri ferðaþjónustu og kynning á íslenskri menningu.

Hér hefur verið rætt svolítið um opnun sendiráðs í Austurríki og mér kemur á óvart ef menn setja sig upp á móti því að opna sendiráð í Austurríki. Austurríki er lýðræðissamfélag og hefur verið lengi og mun koma til með að vera vel staðsett í þeirri þróun sem á sér nú stað í Evrópu. Mið-Evrópa tengist nú æ nánari böndum Vestur-Evrópu, ekki síst í gegnum væntanlega stækkun Evrópusambandsins. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur að styrkja stöðu okkar á þessum svæðum í gegnum Þýskaland og Austurríki. Vandamálin sem uppi hafa verið í Austurríki vegna þátttöku öfgaflokks Haides í ríkisstjórn Austurríkis eiga að sjálfsögðu ekki að verða til þess að við drögum úr samskiptum okkar við Austurríki. Ástæða er til að styrkja tengsl okkar við Austurríki á sama hátt eins og það er á vissan hátt líka í vandræðum þeim sem Rússar hafa ratað í ástæða fyrir okkur Íslendinga sérstaklega í tvíhliða samskiptum okkar við Rússa að auka samskipti okkar við þá þó svo að dregið hafi úr tengslum Rússa við þær stofnanir sem við Íslendingar erum aðilar að.

Ég held líka að megi segja sem svo að það skref sem 14 aðildarþjóðir Evrópusambandsins stigu strax í nokkru írafári gagnvart Austurríki hafi orðið til þess að menn hafi nokkurn höfuðverk út af þessum málum. Evrópusambandið sjálft hefur eiginlega afneitað þessu og sagt að þetta væri ekki samkvæmt stjórnarskrá Evrópusambandsins. Í stjórnarskrá Evrópusambandsins eru ákvæði um það hvað hægt sé að gera á vegum sambandsins ef þjóðir taka ákvarðanir sem brjóta gegn grundvallarviðmiðum Evrópusambandsins og þeim hugsjónum sem Evrópusambandið stendur fyrir. Þær eru að sjálfsögðu nátengdar hugsjónum Evrópuráðsins sem allar aðildarþjóðirnar Evrópusambandsins eru aðilar að.

Ljóst er að ekki er einu sinni samstaða um þetta innan sósíaldemókratískra flokka í Evrópu þannig að þetta mál á sér ýmsar hliðar. Ég held að við Íslendingar eigum ekki að láta þessi mál trufla afstöðu okkar til Austurríkis á nokkurn hátt.

Um leið og utanríkisþjónustan hefur aukið starf sitt á erlendum vettvangi hefur Alþingi einnig aukið sitt starf og sendinefndir Íslands á ýmsum vettvangi hafa verið mjög virkar í þessu aukna alþjóðlega samskiptastarfi. Ég tek það sem vísbendingu um aukinn áhuga Íslendinga á alþjóðlegu starfi að fram hafi komið áhugi á því að Ísland taki sæti í öryggisráðinu fyrir lok þessa áratugar og styð það heils hugar.

Að því er varðar alþjóðleg viðskipti er ljóst að þau eru að styrkjast og Íslendingar eiga mjög mikið undir því að þau geri það. Áhersluatriði þau sem Íslendingar hafa lagt fram innan WTO eru þess eðlis að þau fara mjög heim og saman við mikilvæga þætti í efnahagslífi Íslendinga. Ég vil nefna sérstaklega tvo þætti sem Íslendingar ættu að vinna að og eru að vinna að á sviði WTO. Fyrir það fyrsta hefur þróun heimsviðskipta nú mjög mikil áhrif á umhverfismál og menn eru að gera sér betur og betur grein fyrir því hversu mikil áhrif heimsviðskipti geta haft á umhverfismál. Alþjóðavæðingin og aukinn styrkleiki alþjóðlegra viðskiptahringa og hraði í þróun viðskipta hefur bæði kosti og galla. Það er alveg ljóst að stækkun markaða og hraðari alþjóðleg viðskipti geta haft í för með sér ákveðnar hættur sem okkur ber að líta til.

Ljóst er að styrkjastefna í sjávarútvegi hefur mjög neikvæð áhrif á stöðu Íslendinga í alþjóðlegum viðskiptum og raunar stöðu mjög margra þjóða þriðja heimsins. Það er vitað mál að styrkir til sjávarútvegs hafa gert erfiðara að standa að fiskveiðum með þeim hætti að þær séu sjálfbærar. Það er viðurkennd staðreynd hjá OECD að styrkir til sjávarútvegs leiða til meiri sóknar og minni áhuga á sjálfbærum fiskveiðum en verið hefur hjá Íslendingum. Íslendingar hafa komið sér upp kerfi þar sem viðurkennt er að þeir hafa náð meiri árangri í sjálfbærri nýtingu fiskstofnanna en aðrir og það á m.a. rætur að rekja til þess að við höfum ekki styrki í sjávarútvegi og höfum ekki efni á því að hafa styrki í sjávarútvegi.

Ég vil geta þess sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem var hér áðan út af styrkjum í sjávarútvegi að það er ekki einsdæmi að sjómenn njóti skattafsláttar. Þess eru mörg dæmi, ekki síst í efnahagslífi þjóða sem nýta norðlægar slóðir. Þá á ég við t.d. Bandaríkjamenn í Alaska og Kanadamenn og Dani og skattastefnu þeirra gagnvart Grænlandi og Norðmenn og skattastefnu þeirra gagnvart Norður-Noregi. Þá er tekið tillit til þeirra sem vinna auðlindir á norðlægum slóðum vegna þess að þeir lifa við erfið skilyrði. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um Íslendinga og skattafsláttur til þeirra er á þessu byggður.

Rétt er að geta þess að ekkert Evrópuríki hefur ætlast til þess að sjávarútvegur þeirra tæki þátt í að kosta rannsóknarstarfsemi. Framlög sjávarútvegsins sjálfs til rannsóknarstarfsemi í Evrópu eru nánast engin, og framlög til hafrannsókna hafa farið minnkandi í Evrópuríkjunum, nema á Íslandi. Á Íslandi hefur hins vegar tekist að fá sjávarútveginn til þess að leggja fé óbeint til hafrannsókna og er hafrannsóknaskipið sem nú er verið að smíða dæmi um það.

Þetta endurspeglar þá staðreynd að Íslendingar hafa mikið út úr sjávarútvegi sínum, hann er mjög mikilvægur íslensku efnahagslífi og þar af leiðandi hefur tekist að fá áhuga hjá sjávarútveginum til að styrkja bæði rannsóknir í sjávarútvegi og fá stuðning sjávarútvegsins við það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum á Íslandi.

Annað atriði sem mig langar til að benda sérstaklega á í þessu stutta máli mínu og varðar alþjóðleg viðskipti og hefur langtímamerkingu og þýðingu fyrir Íslendinga eru alþjóðleg orkuviðskipti. Núna hefur verið unnið mikið starf, ekki síst á vegum Evrópuríkjanna, við að búa til sameiginlegan orkumarkað í Evrópu. Þetta hefur að mestu leyti tekist. Það hefur orðið til þess að orkuverð hefur verið mjög lágt í Evrópu í sögulegu samhengi. Þessi þróun sem er vissulega jákvæð frá viðskiptalegu sjónarmiði og hefur hugsanlega í framtíðinni einhverja þýðingu fyrir Íslendinga frá viðskiptasjónarmiði, þó það sé nú ekki enn þá, hefur hins vegar haft mjög alvarlegar afleiðingar að því er varðar öryggi í orkumálum og í umhverfismálum. Þróunin hefur leitt til þess að Evrópa í heild, og þá ekki síst Vestur-Evrópa, hefur orðið miklu háðari jarðefnavinnslu, þ.e. kolum, olíu og gasi, en áður. Um leið og þetta hefur gert Evrópu háðari mjög óöruggum svæðum eins og Austurlöndum nær, eins og Kaspíahafssvæðinu og Rússlandi, hefur það einnig haft það í för með sér að umhverfismál eru sett í uppnám. Þetta aukna vægi olíu og gass og kola í orkuframleiðslu Evróuríkjanna felur það í sér að nánast er óhugsandi fyrir Evrópuríkin að standa við Kyoto-bókunina og Kyoto-skuldbindingar sínar. Ekki er mikið um þetta rætt í Evrópu núna en það er alveg ljóst að ef orkuþörf Evrópuríkjanna og þörfin á olíu, kolum og gasi eykst jafnhratt í framtíðinni og undanfarið hefur farið, og það er allt sem bendir til þess að svo verði, þá muni Evrópuríkin lenda í miklum erfiðleikum með að glíma við umhverfismarkmið sín. Þetta hefur verið viðurkennt í Evrópusambandinu en Evrópusambandinu hefur ekki tekist að koma sér saman um sameiginlega stefnu sem samræmir orku- og umhverfismál. Þá er rétt að geta þess að við útblástur gróðurhúsalofttegunda er orkan ábyrg fyrir 85% af þeim útblæstri. Menn geta því lesið saman þessa framtíðarsýn og séð hversu alvarlegt það er.

Ég á eftir að koma í ræðu minni inn á nokkur fleiri atriði. Það snertir sérstaklega Atlantshafsbandalagið og afstöðu Rússa til ÖSE og Evrópuráðsins en tími minn er á þrotum nú. Ég mun því nota seinni ræðutíma minn til þess að taka á því máli.