Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:51:11 (6524)

2000-04-13 11:51:11# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:51]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð almennt sjónarmið að þar sem opinber stuðningur kemur fram við nýtingu auðlinda á norðlægum slóðum við erfiðar aðstæður þá sé ekki þar um að ræða annað en að verið sé að jafna kjör fólksins sem þar vinnur. Það fólk sem nýtir þessar auðlindir starfar og lifir við allt önnur skilyrði en algengt er að menn geri á suðlægari slóðum.

Það á að sjálfsögðu einnig við um íslenska sjómenn að þeir nýta ein hættulegustu svæði heimsins, sem jafnframt eru ein gjöfulustu svæði heimsins á fisk. Ég held því að hægt sé að jafna þessu saman að miklu leyti.

Fyrst hv. þm. minntist á að aðgangurinn að auðlindunum væri ókeypis hér á Íslandi þá er það atriði sem ég sé ekki ástæðu til að ræða hér. Aðgangur að auðlindum Íslands hefur aldrei verið ókeypis. Menn hafa þurft að fjárfesta til þess að komast í þessar auðlindir og mér er ekki kunnugt um að nokkurs staðar í heiminum sé aðgangur seldur að slíkum auðlindum.