Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:16:47 (6530)

2000-04-13 12:16:47# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að vekja athygli á því að nú bregður svo við að við hæstv. utanrrh. erum meira og minna sammála um það sem við erum að ræða og ég styð eindregið margt af því sem hæstv. ráðherra hefur verið að beita sér fyrir, þ.e. hvað varðar eflingu utanríkisþjónustunnar og það að við gætum okkar hagsmuna af myndugleik, að sjálfsögðu innan ramma þess sem hófsamlegt og skynsamlegt er miðað við okkar stærð og efnahag. En það leikur enginn efi á því í mínum huga að óumflýjanlegt var að efla utanríkisþjónustuna verulega og fjölga sendiráðum og fjölga okkar fulltrúum á erlendri grund. Það hefur verið gert í tíð hæstv. utanrrh. og ég hef verið stuðningsmaður þess. Þó ég sé nú stundum sakaður um ýmislegt annað og að vera yfirleitt á móti hlutunum, þá er nú gaman að geta getið þessa.

Herra forseti. Það ber einnig vel í veiði að virðulegur forseti Alþingis hlýðir á mál okkar úr forsetastóli því hér vorum við síðast, herra forseti, ég og hæstv. utanrrh., að ræða um stöðu Alþingis í þessu sambandi. Ég lýsti þar þeirri skoðun minni að það væri orðið tímabært og jafnvel meira en það, að t.d. utanrmn. Alþingis fengi fastan starfsmann í fullu starfi vegna þeirra mikilvægu verkefna sem á þeirri nefnd hvíla, og þó ekkert kæmi nú annað til en að sú leið var valin hér að fara gegnum utanrmn. með vinnu að fullgildingu gerða og tilskipana á grundvelli EES-samningsins, þá er það nú ærið. En fyrir utan það hefur þessi nefnd að sjálfsögðu mjög mikilvægum skyldum að gegna og nokkra sérstöðu meðal þingnefnda. Ég tel því að mörgu leyti einboðið að hún hefði sinn sérstaka starfsmann. Sama á við um mögulegan fulltrúa Alþingis á vettvangi í Brussel vegna þeirrar forvinnu og undirbúningsvinnu sem þar á sér stað að ákvörðunum sem síðar berast hingað til Alþingis. Það gæti að mörgu leyti verið heppilegt að einnig í því tilviki væri til staðar starfsmaður, annaðhvort utanrmn. eða alþjóðasviðs Alþingis. Og það gleður mig að forseti hefur hlýtt á mál mitt.