Alþjóðaþingmannasambandið 1999

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 18:46:33 (6605)

2000-04-13 18:46:33# 125. lþ. 101.3 fundur 367. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 1999# skýrsl, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins þakka fyrir góðar undirtektir hæstv. utanrrh. við því starfi sem fram fer á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins. Það starf tekur eðli málsins samkvæmt oft ákaflega langan tíma. Það er mjög sérkennilegt að reyna að koma saman stefnumótun eða ákvörðunum í samtökum 139 ríkja, ákaflega ólíkra ríkja þar sem hagsmunirnir eru margir og lýðræðishefðin mjög víða ákaflega veikburða. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að alþjóðlegt starf af þessu tagi sé til þess fallið að styrkja stoðir lýðræðisins víða um heiminn og veitir svo sannarlega ekki af. Sjálfur hef ég, eins og hæstv. utanrrh., tekið þátt í fundi Alþjóðaþingmannasambandsins í nýfrjálsu ríki, Namibíu. Maður varð auðvitað mjög var við það af hálfu stjórnvalda þar að þau töldu þingið mjög mikilvægt til þess að festa lýðræðislegar hefðir í sessi, þ.e. að slík samtök héldu ársfund sinn þar á bæ.

Ég vil ítreka það sem enn fremur kom fram í máli hæstv. utanrrh. Ég tel ákaflega mikilvægt fyrir alþjóðleg þingmannasamtök af þessu tagi, sem sækja styrk sinn fyrst og fremst til þjóðþinganna, að eiga þess kost að hafa samstarf við önnur alþjóðleg samtök, sérstaklega Sameinuðu þjóðirnar. Ég held að það gæti styrkt hvor tveggja að efla þetta samstarf.