Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:16:08 (6668)

2000-04-26 15:16:08# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar í svonefndu Vatneyrarmáli felur í raun í sér það eitt að varanleg eða ótímabundin úthlutun veiðiréttinda á grundvelli veiðireynslu viðmiðunaráranna standist viðeigandi ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði. Þetta er niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar öfugt við álit Héraðsdóms Vestfjarða og öfugt við álit sama Hæstaréttar hvað varðaði svonefndar úreldingarreglur eða veiðileyfi bundin rúmmáli innan íslensku efnahagslögsögunnar. Í því tilviki var talið að ótímabundin eða varanleg úthlutun veiðileyfa á grundvelli rúmlesta í sama fiskiskipaflota á svipuðu viðmiðunaráratímabili stæðist ekki.

Þessar gagnstæðu niðurstöður, annars vegar Hæstaréttar sjálfs í tilvikinu veiðileyfi á móti veiðiheimildum og hins vegar Héraðsdóms Vestfjarða --- reyndar einnig minni hluta Hæstaréttar á móti meiri hluta Hæstaréttar hvað varðar veiðiheimildirnar sjálfar --- eru mjög athyglisverðar. Hæstiréttur leggur reyndar lykkju á leið sína í reifun sinni um málin og lætur þess getið að Alþingi geti breytt kerfinu, að Alþingi geti sett lög, þökk sé m.a. 1. gr. laganna um sameign þjóðarinnar á auðlindinni og að ekki myndist óafturkallanlegt forræði þrátt fyrir úthlutun til einstakra aðila.

Ég leyfi mér nú að segja: Nema hvað? Ég leyfi mér að segja að þetta hefði Þórbergur Þórðarson rithöfundur kallað ,,selvfølgelighed``. Að sjálfsögðu getur Alþingi sett lög og leikreglur um nýtingu þessarar auðlindar og svo fremi sem þau standast ákvæði stjórnarskrárinnar er alfarið í höndum Alþingis að gera það.

En niðurstaða Hæstaréttar, þó svona sé fram komin, er niðurstaðan og við hana búum við um sinn. Hún breytir hins vegar engu um hina pólitísku stöðu málsins. Hún breytir engu um þá stórfelldu ágalla sem eru á núgildandi löggjöf og framkvæmd hennar. Þessi niðurstaða Hæstaréttar breytir engu um það ósætti sem er með þjóðinni um núverandi fyrirkomulag. Ef eitthvað er hellir hún frekar olíu á þann eld en hitt.

Það öryggisleysi sjávarútvegsbyggðanna og íbúa þeirra sem kerfið býður upp á, fyrir stöðu sjómanna, stöðu fiskvinnslunnar og fleiri aðila í þessu kerfi, breytist ekki við dóminn. Hinni miklu gróðasöfnun einstaklinga sem hætta í sjávarútvegi og taka með sér út úr greininni ómældar fjárhæðir, þessi niðurstaða breytir því heldur ekki.

Það sem ég tel standa upp úr, herra forseti, og tel brýnast að gera er að taka á stöðu sjávarbyggðanna og íbúa þeirra og skapa þeim viðunandi öryggi á nýjan leik. Þegar kerfið lifir orðið sjálfu sér þannig að t.d. sjávarjörðum í sveitum eða einangruðum byggðarlögum, sem mörg liggja hvað best við gjöfulum fiskimiðum af öllum stöðum landsins, eru allar bjargir bannaðar þá er eitthvað mikið að. Þá lifir kerfið sjálfu sér en ekki þeim sem það á að þjóna.

Í öðru lagi þarf að stöðva þá miklu röskun sem orðið hefur á undanförnum árum á útgerðarmynstri í landinu þar sem sífellt gengur á hlut strandveiðanna, nema minnstu bátanna. Strandveiðarnar þarf að efla á nýjan leik og styrkja þannig um leið hinar dreifðu byggðir sem lifa á þeim veiðum. Í leiðinni er hægt að stuðla að umhverfisvænni þróun innan greinarinnar, auka aðgang fiskvinnslunnar að fersku hráefni og leysa mörg fleiri vandamál.

Hvað varðar álitamál um gjaldtöku, sem gjarnan er blandað inn í umræður um þessa hluti, eru það í mínum huga aðskilin mál. Þau eru til umfjöllunar í sérstakri nefnd, auðlindanefnd, og við skulum binda vonir við --- þangað til annað kemur á daginn --- að þar takist að finna skynsamlega niðurstöðu sem sæmileg samstaða geti orðið um. Að mínu mati er mikilvægt að árétta að gjaldtaka ein og sér, þó hún kæmi til, án grundvallarbreytinga á kerfinu að öðru leyti, breytir engu um þá ágalla kerfisins sem ég hef hér sérstaklega gert að umtalsefni og lúta að stöðu byggðanna, stöðu strandveiða, samskiptum sjómanna og útvegsmanna, stöðu fiskvinnslunnar og fleiri þáttum.

Niðurstaða málsins er sú, herra forseti, að verkið er óunnið. Fram undan er það verk sem menn lofuðu að vinna fyrir síðustu kosningar og nú þarf að drífa sig í þá hluti.