Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 13:55:11 (6689)

2000-04-27 13:55:11# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, á þskj. 1046 frá meiri hluta sjútvn.

Megintilgangur frv. er að fresta um eins árs skeið gildistöku nokkurra ákvæða varðandi veiðar smábáta sem taka áttu gildi 1. september nk. Helsta ástæða þess er sú, eins og raunar kemur fram í athugasemdum við frv., að nú stendur yfir heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og því þykir ekki heppilegt að taka upp nýja skipan við stjórn veiða smábáta meðan endurskoðunin stendur yfir.

Ljóst er að á þeim tíma sem liðinn er frá því að að fyrrgreind atriði, sem við erum að fresta með frv., gengu í gildi 15. janúar árið 1999, hafa ýmsir aðilar, útgerðarmenn og þeir sem hafa hugsað sér að hasla sér völl í sjávarútvegi tekið ákvarðanir byggðar á lögunum og því að þau kæmu til framkvæmda 1. september nk. eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Þannig hafa allnokkrir aðilar ákveðið nýsmíði á bátum og stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga með það í huga að hefja veiðar á þeim innan hins nýja krókaaflamarks frá 1. september nk. Meiri hluti sjútvn. leggur þess vegna til að gerðar verði breytingar á frv. sem gera þetta mögulegt. Við erum með öðrum orðum að bregðast við upplýsingum sem nefndin fékk í meðförum málsins til að koma í veg fyrir að þeir sem unnu í góðri trú eftir gildandi lögum af eðlilegum ástæðum, lendi í vandræðum, að þeir króist ekki af og hafi möguleika að vinna áfram samkvæmt ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. að gefa ræðumanni hljóð.)

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þetta mál hefur ekki mjög víðtæka skírskotun, heyri ég, en hins vegar er ljóst að það frv. sem hér um ræðir hefur mikla þýðingu fyrir fjölmarga aðila sem hafa verið að vinna samkvæmt þessu kerfi. Enginn vafi er á því að fyrir ýmsar byggðir landsins skiptir það gríðarlega miklu máli hvernig lagasetningu á þessu sviði sjávarútvegsins er háttað. Eftir því var auðvitað tekið þegar hæstv. sjútvrh. lagði fram þetta frv. sem fól í sér frestun á framkvæmd laga sem samþykkt voru í ársbyrjun 1999 og hefðu falið í sér kvótasetningu á allmörgum tegundum sem allir vita að hefðu haft gríðarlega mikil áhrif. En við vitum að ýmsir hafa brugðist við af eðlilegum ástæðum, axlað skuldbindingar sínar og meiri hluti sjútvn. taldi þess vegna nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum hætti og gerir það í þeim brtt. sem hér er kveðið á um og fela í sér að horfið verði frá því að binda veiðileyfi með krókaflamarki við 6 brúttótona stærðarmörk. Þess í stað er veiðileyfi þeirra eingöngu bundið við tegundir sem þeir hafa krókaaflamark í og tegundir sem sæta ekki takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Er þessi ákvörðun tekin í ljósi þess megintilgangs frv. að fresta gildistöku lagaákvæða er snerta fiskveiðistjórn báta innan við 6 brúttótonn en að öðru leyti er ekki um efnislega breytingu á stjórn fiskveiða að ræða.

Við skulum ekki gleyma því að grundvallarhugsunin í þessu frv. er sú að breyta gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir því í gildandi lögum að þetta ákvæði um stærðarmörkin sé ekki til staðar. Við vitum að á sínum tíma þegar þáv. sjútvn. lagði fram brtt. í þessa veru í ársbyrjun 1999 var það gert í ákveðnum tilgangi, m.a. til þess að gera mönnum kleift að þróa áfram þessar veiðar og tryggja öryggi sjómanna. Þess vegna þykir ekki eðlilegt að gera breytingar í ljósi þess að við erum fyrst og fremst að fresta málinu um eins árs skeið.

Ástæða er til þess að árétta að við erum eingöngu að fresta gildistöku tiltekinna lagaákvæða. Hins vegar er brýnt að um þennan hluta fiskveiðistjórnarinnar verði mótaðar heildstæðar reglur til lengri tíma, líkt og um aðra útgerð í landinu, eins og gefur augaleið. Má ljóst vera að slíkt er ekki einasta þýðingarmikið vegna þeirra sem hafa beina hagsmuni af útgerð þessara báta heldur ekki síður til þess að tryggja stjórnskipulega stöðu þessa útgerðarflokks til framtíðar.

Þetta er nefnt ekki síst vegna þess að við vitum að á sínum tíma í ársbyrjun 1999 var brugðist við með þeirri lagasetningu, sem verið er að fresta, í þeim tilgangi að koma til móts við og bregðast við dómi Hæstaréttar í svokölluðu Valdimarsmáli í byrjun desember 1998.

[14:00]

Það er augljóst mál að samkvæmt þeim dómi hefur Alþingi ekki heimild til þess eða getur ekki endalaust frestað gildistökuákvæði þessara laga. Við teljum því að ekki verði gengið lengra í þeim efnum en hér er verið að leggja til, að fresta þessu um eitt ár til viðbótar og framtíðaráform í þeim efnum verður þess vegna að binda niður til lengri tíma með lögformlegum og stjórnskipulegum hætti.

Meiri hluti sjútvn. leggur til eftirfarandi breytingar á frv.:

1. Lagt er til að kveðið verði á um að hafi krókaaflahlutdeild í þorski á fiskveiðiárinu 1999/2000 verið flutt af báti sem veiðileyfi hefur með föstu hámarki í þorski til báts sem veiðileyfi hefur með þorskaflahámarki skuli úthluta þeim báti sem þorskaflahlutdeildin var flutt af veiðileyfi með þorskaflahámarki nema valið sé fyrir þann bát veiðileyfi með krókaaflamarki. Ef ekki væri kveðið á um þetta leiddi flutningur á þorskaflahlutdeildinni á fiskveiðiárinu 1999/2000 til þess að aflaheimildir í þorski mundu aukast á fiskveiðiárinu 2000/2001 á þeim báti sem aflahlutdeildina hefði fengið, án þess að þorskveiðiheimildir þess báts sem aflahlutdeildina lét mundu minnka þar sem hann hefur fast hámark á þorski á því fiskveiðiári. Fái hins vegar sá bátur sem krókaaflahlutdeildin var flutt af veiðileyfi með þorskaflahámarki eða krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/2001 skerðast veiðiheimildir hans í þorski í samræmi við það magn sem af honum var flutt.

2. Lagt er til að horfið verði frá því að binda veiðileyfi með krókaaflamarki því skilyrði að viðkomandi bátur sé ekki sex brúttótonn eða stærri. Í staðinn er lagt til að bátum sem veiðileyfi hafa með krókaaflamarki verði einungis heimilt að stunda veiðar á þeim tegundum sem þeir hafa krókaaflamark í og tegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Með þessu móti er komið í veg fyrir að krókabátar sem leyfi hafa til veiða með krókaaflamarki fái ríkari heimildir en aðrir bátar til að stunda veiðar á tilteknum tegundum. Þá er lagt til að allir bátar eigi kost á veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með fiskveiðiárinu 2000/2001. Er þetta gert til að koma til móts við þá sem gert höfðu ráðstafanir á grundvelli laga sem samþykkt voru um stjórn veiða smábáta í janúar og mars 1999. Í 2. málslið greinarinnar er kveðið á um að þeir sem stundað hafa veiðar samkvæmt leyfum með föstu hámarki á þorskafla eða þorskaflahámarki skuli sækja um veiðileyfi með krókaaflamarki fyrir 15. maí 2000, en úthlutað krókaaflamark þeirra geti þó aldrei orðið hærra en sem leiðir af þeirri krókaaflahlutdeild sem bundin var viðkomandi skipi 1. apríl 2000. Þessi takmörkun er sett til að koma í veg fyrir að flutningur á krókaaflahlutdeildum milli skipa --- og þetta er ákaflega mikilvægt --- á fiskveiðiárinu 1999/2000 geti leitt til þess að óeðlilegar umframveiðiheimildir skapist hjá skipi sem veiðileyfi fær með krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/2001, án þess að veiðimöguleikar þeirra sem krókaaflahlutdeildin var flutt af skerðist. Loks er lagt til að heimilað verði, með ákveðnum skilyrðum, að flutt verði krókaaflahlutdeild af báti sem ekki hefur veiðileyfi með krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/2001 til báts sem slíkt leyfi hefur. Er þetta sérstaklega gert til þess að leysa mál þeirra aðila sem hafa til ráðstöfunar veiðiheimildir sem ekki eru tímabundið bundnar við báta í eigu þeirra.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta álit rita auk formanns og frsm. sem hér stendur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Vilhjálmur Egilsson, Guðmundur Hallvarðsson og Árni R. Árnason sem ritar undir málið með fyrirvara. Ég hafði skilið það sem svo að hann mundi síðar gera grein fyrir fyrirvara sínum, þ.e. við upphaf atkvæðagreiðslu. En hann þarf að hverfa héðan vegna annarra skuldbindinga sinna.