Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 16:45:24 (6719)

2000-04-27 16:45:24# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[16:45]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að þetta þingmál okkar, þótt seint sé fram komið, hafi komið fram fyrr en ætla mætti. Þetta er fyrsti vetur Samfylkingarinnar á þingi og hún hefur þó unnið það afrek að koma frá sér stefnu í sjávarútvegsmálum, ekki þáltill. heldur stefnu þar sem tekið er á öllum þáttum málsins. Ég held að ýmsir gætu nú bara verið sæmilega kátir yfir því. Og ég segi líka að ég er ekkert hissa á því þó menn fyrtist svolítið yfir því þegar bent er á að stefna þeirra sem fram kemur á Alþingi í þessum málum er byggð á því að setja málin í nefnd og skoða betur, eins og gert hefur verið hér undanfarin ár.

Ég get ekki séð að menn þurfi að kvarta neitt yfir því þó að í svona stóru máli ræði menn um stefnu hvers annars. Til hvers erum við hér? Eigum við ekki líka að ræða um stefnu hvers annars sem eru í stjórnarandstöðu? Það er ekki nóg að ræða bara við stjórnina. Ef menn eiga að finna leiðir og ef menn eiga að getað samræmt sjónarmið og fundið leiðir út úr erfiðum málum, þá verða menn auðvitað að ræða þau mál og komast að einhverri niðurstöðu. Ég tel að stjórnarandstaðan eigi möguleika á því að ná saman að ýmsu leyti. Ég hef ekki... (Gripið fram í.) Ég tel að við séum að því já, við höfum lagt fram okkar mál mjög skýrt (SJS: Með athyglisverðum hætti.) og aðalatriðið er til að menn finni niðurstöðu í málum að stefna þeirra liggi fyrir, ekki að lagðar séu fram óljósar og þokukenndar yfirlýsingar sem ekki er hægt að átta sig á hvað þýða og þar sem menn forðast að koma að kjarna málsins, sem er eignarhaldið á veiðiheimildunum. Hvenær ætla menn að segja hvernig þeir viljið hafa það?