Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:09:18 (6723)

2000-04-27 17:09:18# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem í andsvar vegna þeirra orða sem ég heyrði hv. þm. láta frá sér fara þar sem ég var við vinnu annars staðar í húsinu og ég ætla bara að skila þeim ummælum til baka til föðurhúsanna. Mér fannst þingmaðurinn vera með stóryrði um málflutning minn. Það er engin forsenda fyrir því, það veit hv. þm. því við sátum saman í gær og vorum saman í þessum sal fyrr í dag. Ég hef talað um tillögur um grundvallarbreytingar, ekki eitthvað sem sé að finna í greinargerð í tillögum sem hafa verið fluttar hér eða málflutningi manna þegar þeir eru að ræða hin ýmsu sjávarútvegsmál. Ég ætla að láta þess getið úr þessum ræðustól að það sem ég var að segja í þætti í gær, sem greinilega hefur vakið mikla athygli í þinginu miðað við að verða aftur og aftur tilefni umræðu hér, var ekki bara mitt viðhorf. Þegar ég lendi í umræðum um m.a. sjávarútvegsmál og það sem er að gerast í þinginu, þá hafa fjölmargir rætt það í mín eyru að þeir hefðu átt von á því að Frjálslyndi flokkurinn flytti grjótharðar tillögur um breytingar á ranglætinu við úthlutun veiðiheimilda og það eru margir sem hafa haft væntingar til þess og átt von á öðru en þegar hefur komið fram. Ég hef fulla ástæða til að hafa skoðun á því og láta hana í ljósi, enda er það þá skoðun mín og eitthvað sem ég er að setja fram. Ég hef ekkert að segja um málflutning vinstri grænna eða tillöguflutning, enda hef ég ekki gert hann að umtalsefni, en vísa því alveg til föðurhúsanna að ég hafi verið með ómakleg ummæli, hvorki í gær í viðkomandi pólitískum sjónvarpsþætti né í umræðum hér fyrr í dag.