Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:11:57 (6725)

2000-04-27 17:11:57# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það þýðir auðvitað ekkert að vera að elta ólar við umræðu af þessu tagi. Við vorum spurð um utandagskrárumræðu sem hér var hafin í gær af hálfu Frjálslynda flokksins. Frjálslyndi flokkurinn átti ekki fulltrúa í þættinum og ég benti á hversu erfitt væri að ræða slík mál sem lúta að fiskveiðistjórnarkerfinu og dómnum og dómurinn er um óréttláta úthlutun, þegar fulltrúi Frjálslynda flokksins væri ekki á staðnum. Ég benti nákvæmlega á það sem ég er margbúin að endurtaka að það kæmi á óvart að Frjálslyndi flokkurinn hefði ekki flutt beinar tillögur um breytingar á þeim þætti stjórnar fiskveiða. Ég sagði ekki orð um vinstri græna. Ég sagði að flokkurinn hefði hins vegar flutt tillögur sem fyrst og fremst miða að því að skipa nefnd sem skoði hluti ásamt vinstri grænum. Það er það eina sem ég nefndi vinstri græna. Mér finnst þetta satt best að segja heldur lítilmannleg umræða og að segja að ég hafi verið með röng orð eða ósannindi, það er nú svo langur vegur frá málefnalegri umræðu sem hugsast getur. (Gripið fram í.)