Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:51:06 (6733)

2000-04-27 17:51:06# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að bera fram þessa þáltill. er brilljant leið, sagði hv. þm. áðan. Síðan talaði hann um að þeir sem vildu breyta ættu að standa saman. Til þess að menn geti staðið saman þurfa menn að finna sameiginleg markmið og sameiginlegar leiðir að markmiðunum og við gerðum tilraun til þess í vetur. Hv. þm. sagði að þeirri leið sem hafði staðið þar opin hafi verið hafnað af hálfu Samfylkingarinnar. Það sem við lögðum til grundvallar þeirrar samvinnu var að tillögurnar sem lagðar yrðu fram yrðu byggðar á jafnræði allra sem ætluðu að stunda sjó við Ísland til þess að nýta þessa auðlind. En þær tillögur sem við fengum að sjá byggðust ekki á því. Gert var ráð fyrir því að handstýra hlutunum áfram og gera upp á milli manna með slíkum aðferðum. Ég held því fram að við getum þá alveg eins sagt að okkar tillögum í málinu hafi verið hafnað, þ.e. þeirri leið sem við vildum fara.

Mér kemur það svolítið á óvart frá hendi þeirra sem hér eru á þingi fyrir vinstri græna ef þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að það eigi ekki að bera fram tillögur í þinginu. Mér hefur sýnst að þeir væru bara duglegir við að bera fram mótaðar tillögur. Ég held einmitt að þannig eigi að vinna, það eigi að koma sem allra skýrast fram hvað menn vilja. Það höfum við kappkostað að gera í þessu máli og lagt það fram. Ég tel fráleitt að það geti orðið til að spilla málum að setja þau skýrt fram og reyna þau sem allra best. Það segir ekkert um að ekki sé hægt að finna sáttaleiðir í framhaldinu.