Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:24:02 (6751)

2000-04-27 19:24:02# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:24]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það fór sem mig grunaði að málflutningur hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur kæmi enn til umfjöllunar. Ég lít hins vegar svo á að hún sé búin að svara með fullnægjandi hætti, að hún hafi með fullnægjandi hætti í dag gert grein fyrir því hver afstaða hennar er í málinu, hvernig hún lagði málið upp. Ég lít líka þannig á að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafi sýnt því skilning. Hann hefur ekki gengið fram í málinu með sama hætti og hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það var það sem mér fannst merkilegt, nákvæmlega það hver það er sem þykist hafa réttlætisvöndinn í hendi. Það er ekki sá sem meint er að hafi verið brotið á. Nei, það eru aðrir.

Það er alltaf gott ef menn taka upp hanskann fyrir lítilmagnann en hanskinn þarf þá fyrst að hafa fallið. Því segi ég, herra forseti, mér kom ekki á óvart að hv. þm. tók málið upp enn. Ég hafði reyndar spáð því en ég er löngu hætt að skilja hvað liggur að baki.