Barnalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:26:39 (6797)

2000-04-27 22:26:39# 125. lþ. 103.21 fundur 396. mál: #A barnalög# (talsmaður barns í umgengnisdeilu) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:26]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Eins og ég gat hér fyrr á fundinum þá mæli ég hér fyrir tveimur frv. um breytingar á barnalögum, nr. 20/1992, með síðari breytingum. Ég hef núna mælt fyrir fyrra málinu en þetta frv. er á þskj. 654, 396. mál, og fjallar um að barni skuli skipaður talsmaður ef upp komi ágreiningsmál um umgengni þess við foreldri, þ.e. forsjárlaust foreldri eða nána vandamenn.

Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru allir hv. þm. Samfylkingarinnar, þ.e. allur þingflokkurinn flytur þetta mál.

1. gr. frv. snýst um að við 37. gr. laganna, þ.e. barnalaganna, bætist ný málsgrein sem hljóði svo:

,,Sýslumanni er skylt að skipa barni talsmann meðan ágreiningsmál um umgengni þess við forsjárlaust foreldri eða nána vandamenn, sbr. 5. mgr., er til meðferðar hjá sýslumanni. Einnig er sýslumanni skylt að skipa barni talsmann ef foreldri sinnir ekki umgengnisskyldu við barn sitt og ósk þar að lútandi kemur fram. Þóknun talsmanns skal greiðast úr ríkissjóði. Dómsmrh. setur nánari reglur um þóknun talsmanns.``

Þetta atriði er eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar varðandi það að tryggja börnum betur umgengni við báða foreldra sína. Þetta var lagt til í þál. þeirri sem ég gerði að umtalsefni hér er ég mælti fyrir frv. til laga um breytingu á barnalögunum þar sem lögð var til skilnaðarráðgjöfin. Þetta er nýtt úrræði, að skipa barni talsmann á þennan hátt. Það var lagt til í grg. með þál. þeirri er ég hef áður vísað til frá 122. lögþ. Þessi hugmynd hefur vakið athygli víðar en hér á landi því að þetta vakti einnig athygli er sagt var frá þessari leið á Norðurlöndunum.

Frv. er lagt fram í þeim tilgangi að tryggja betur rétt barns eða barna til umgengni við báða foreldra sína. Til að tryggja þann rétt þá er mikilvægt að barni sé skipaður talsmaður um leið og ágreiningur verður um umgengni. Talsmaður getur þá verið milligöngumaður, annars vegar á milli foreldranna og hins vegar á milli foreldra og barns. Hlutverk hans yrði fyrst og fremst að gæta hagsmuna barnsins og tryggja því umgengni við forsjárlaust foreldri eða forsjárforeldri sem það býr ekki hjá.

Gert er ráð fyrir að þóknun talsmannsins verði greidd úr ríkissjóði og dómsmrh. setji nánari reglur um hana.

Hlutverk talsmanns er að gæta hagsmuna barnsins í hvívetna í umgengnisdeilum foreldra. Á þetta jafnt við þegar ágreiningsmál um umgengnina sjálfa eru til meðferðar hjá sýslumanni og þegar dagsektamál eru til meðferðar hjá honum. Skylt er að skipa talsmann ef forsjárlaust foreldri sinnir ekki lögbundinni umgengnisskyldu ef krafa þar að lútandi berst sýslumanni.

[22:30]

Dæmi eru um að áhugaleysi foreldris, þ.e. að foreldrið sinnir ekki barni sínu, sé vegna þess að óuppgerðar tilfinningar gagnvart barnsmóður eða barnsföður eru fyrir hendi. Skipaður talsmaður, sem hefur aðeins það hlutverk að standa vörð um hagsmuni barns, gæti hugsanlega komið á sambandi milli foreldra þegar svo háttar. Hér er um að ræða nýtt úrræði sem ekki felur í sér þvingun eða refsingu heldur miðar gagngert að því að styrkja fjölskyldutengsl. Þau úrræði sem eru fyrir í lögunum eru meira þvingunarúrræði og hafa ekki skilað þeim árangri sem menn vonuðust eftir þegar þau ákvæði voru sett í lög. Reynsla og rannsóknir sýna að aðgerðir til stuðnings barnafjölskyldum geta beinlínis komið í veg fyrir að börn bíði skaða af óhjákvæmilegum skilnaði.

Mikill fjöldi barna er fæddur utan hjónabands og er oft erfitt fyrir þau að ná fram grundvallarrétti sínum til umgengni við það foreldri sem það býr ekki hjá, jafnvel að kynnast því foreldri. Ég hef sótt þó nokkuð marga fundi hjá Félagi einstæðra foreldra þar sem þessi mál hafa verið rædd og ég verð að segja að oft hefur verið átakanlegt að hlusta á hve mörg börn líða fyrir það að geta ekki umgengist annað foreldri sitt eða jafnvel kynnst því foreldri sínu sem það hefur ekki alist upp með eða þegar börn eru fædd utan hjónabands. Í slíkum tilvikum er hægt að óska eftir því við sýslumann að barni sé skipaður talsmaður sem sinni því verkefni að koma á kynnum, samskiptum og umgengni milli barnsins og föður þess eða móður eftir atvikum. Oftar eru það feður sem eru í slíkri stöðu og börnin eiga því erfitt með að kynnast.

Flutningsmenn telja að við úrlausn á því vandamáli sem hér er til meðferðar skuli réttur barnsins ávallt lagður til grundvallar. Heimild til að skipa barni sérstakan talsmann við úrlausn barnaverndarmála er til staðar í barnaverndarlögum, nr. 58/1992. Einnig er skv. 5. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 20/1992, heimilt að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls. Eðlilegt væri að skylt yrði að skipa barni talsmann um leið og umgengnismál er komið í hnút. Það úrræði ásamt vandaðri ráðgjöf --- og þá er ég að tala um vandaða skilnaðarráðgjöf sem var til umræðu í frv. því sem ég mælti fyrir hér á undan --- gæti og mundi miða að því að laða fram hæfni foreldra til að rækja hlutverk sitt og skila hamingjusamari einstaklingum út í þjóðfélagið.

Herra forseti. Þessi lagabreyting er ekki síður mikilvæg en skilnaðarráðgjöfin. Hún felur í sér úrræði til handa börnum sem skilnaðarráðgjöfin hjálpar ekki. Þetta er úrræði fyrir börn sem fæðast utan hjónabands og vilja kynnast foreldri sínu og þá er hægt að fara fram á það við sýslumann að skipa talsmann til að koma á slíkum kynnum og umgengni eftir því sem hægt er. Þetta er því mjög mikilvægt úrræði fyrir stóran hóp barna á Íslandi því að mjög mörg börn, eins og við vitum og kom fram í tölum hjá mér áðan, fæðast utan hjónabands á Íslandi og því enn ríkari þörf fyrir úrræði sem þetta hér á landi en víða annars staðar, þ.e. að barni verði skipaður talsmaður.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu fari frv. einnig til hv. allshn. til umræðu. Ég vona að nefndin taki vel í þessi mál og samkomulag verði um að afgreiða þau þannig að þessum börnum verði tryggð úrræði og leiðir til að tryggja þann grundvallarrétt sem þau hafa og eiga að hafa og við eigum að tryggja þeim til umgengni við báða foreldra sína.