Vegalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 23:03:50 (6802)

2000-04-27 23:03:50# 125. lþ. 103.31 fundur 480. mál: #A vegalög# (tengistígar) frv., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum. Flm. auk mín er hv. þm. Jón Kristjánsson.

Breytingarnar eru eftirfarandi, þ.e. frv. hljóðar svo:

,,1. gr. Við 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tengistígar eru göngu- og hjólreiðastígar milli þéttbýlisstaða, þar sem börn og unglingar fara daglega á milli til að sækja skóla, íþrótta- og tómstundastarf eða nauðsynlega þjónustu af öðrum toga, og eru kostaðir af opinberum aðilum.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill beina þeim tilmælum til gesta okkar hér í þinginu að það er ekki leyfilegt að trufla þingstörf. Það verður að hafa hljóð.)

2. gr. Fyrri málsliður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega og tengistíga, enda komi fullar bætur fyrir.

3. gr. Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Almennir vegir, einkavegir og tengistígar.

4. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000.``

Í greinargerðinni kemur fram að löngu tímabært sé gefa meiri gaum að umferð hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda í samgöngumálum á Íslandi. Sú umferð er hluti af eðlilegri útivist og íþróttaiðkun, veitir holla hreyfingu og fellur afar vel að nútímaviðhorfum til umhverfismála enda fylgir henni hvorki hávaði né mengun af öðrum toga. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að betri þjónusta við þessa tegund umferðar leiði til þess að landsmenn tileinki sér hana í auknum mæli.

Frumvarp þetta er lagt fram til að veita mikilvægum göngu- og hjólreiðastígum eðlilegan sess í vegakerfi landsins. Sums staðar háttar þannig til, m.a. í tengslum við samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga, að börn og unglingar þurfa daglega að fara á milli þéttbýliskjarna til að sækja skóla, taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi eða sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu án þess að það kalli á akstur milli staða. Þar af leiðandi fara börn og unglingar þessara ferða ýmist gangandi eða hjólandi og sú umferð kallar á að lagðir séu fullnægjandi stígar fyrir göngu- og hjólreiðafólk. Öllum má vera ljós sú hætta sem stafar af því að beina þessari umferð inn á vegi fyrir vélknúin ökutæki.

Hingað til hefur uppbygging slíkra stíga einkum strandað á óvissu um hverjum bæri að annast lagningu þeirra, umsjón og viðhald. Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í þessu frumvarpi eru slíkir stígar settir í umsjá opinberra aðila. Stígunum er valið heitið tengistígar þar sem þeim er ætlað að tengja saman þéttbýliskjarna með fyrrgreindum hætti.

Herra forseti. Hér eru nefnd börn og unglingar sem fara daglega á milli til að sækja skóla af þeirri ástæðu að þrengja ákvæði þessara lagabreytinga. Hér er ekki verið að tala um almenna hjólreiða- og göngustíga sem æskilegt væri að leggja sem net um landið samhliða vegakerfi fyrir ökutæki.

Hér fyrir hinu hv. þingi liggur frammi till. til þál. um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta. Það sýnir að þingmenn eru eins og aðrir í okkar þjóðfélagi farnir að huga miklu meira að þeim möguleikum sem hjólreiðar og holl hreyfing býður upp á, þ.e. til þess að hægt sé að stunda þessa útiveru, ferðast á milli og draga úr umferð ökutækja þá verður að leggja hjóla- og göngustíga sambærilega við þá sem ánægjulegt er að sjá hvað Reykjavíkurborg, höfuðborgin, hefur lagt í á undanförnum árum. Þeir tengistígar sem eru innan höfuðborgarsvæðisins eru alveg til fyrirmyndar. Slíka stíga væri hægt að hugsa sér víða um land, sérstaklega á fjölförnum ferðamannastöðum eins og í kringum Mývatn, Þingvallavatn og á fleiri stöðum. En það er ekki verið að tala um slíka almenna stíga í þessu frv. heldur þessa sérstöku tengistíga á milli þéttbýliskjarna þar sem ákveðin þjónusta er veitt.

Ég get nefnt tvo þéttbýlisstaði, þ.e. Fellabæ og Egilsstaði. Börnin fara þar á milli og auðvitað fullorðnir líka til þess að sækja þjónustu og börn og unglingar sækja þar í ýmsa félagsþjónustu sem þeim stendur til boða. Ef þessi tengistígur verður lagður þá liggur hann innan þéttbýlissvæða í tveimur sveitarfélögum og auk þess á landi utan þéttbýlis. Það hefur verið deiluefni nokkuð langan tíma hver eigi að greiða, hver eigi að sjá um og leggja tengistíginn og hver eigi að sjá um viðhald á honum, ef lagður verður. Aftur á móti eru allir sammála um nauðsyn þess að leggja þennan stíg.

Svona háttar til á fleiri stöðum þar sem tveir þéttbýliskjarnar eru og svæði á milli sem fellur utan þéttbýlissvæðanna, þ.e. þá er það tilvalið þrætuepli hver eigi að greiða og hver eigi að sjá um viðhald. Þetta frv. er lagt fram til þess að taka af allan vafa þegar svo háttar til að börn og unglingar sækja þjónustu á báðum stöðum --- þarna er verið að takmarka eins og ég sagði áðan vegalengdina og tilgang stíganna --- um að það sé á ábyrgð Vegagerðarinnar að leggja þessa stíga. Þetta eru nú ekki mjög margir staðir. Og vonandi verður það til þess að þessir stígar verði lagðir og öryggið bætt.

Síðan fagna ég því ef farið verður í að koma því inn í svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag alls staðar á landinu að hugsa um umferð gangandi og hjólandi vegfarenda jafnhliða því sem settir eru á teikniborðið og skipulagðir eru akvegir, þ.e. að jafnsjálfsagt sé að skipuleggja þessa vegi á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég óska eftir því að frv. verði tekið til 2. umr. og legg til að því verði vísað til hv. samgn.

[23:13]