Landsvegir á hálendi Íslands

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 23:18:59 (6804)

2000-04-27 23:18:59# 125. lþ. 103.38 fundur 518. mál: #A landsvegir á hálendi Íslands# þál., Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[23:18]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 818, 518. máli, um framtíðarskipulag og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands. Flm. auk mín eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Ásta Möller, Hjálmar Jónsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa nefnd sem geri tillögur um framtíðarskipulag og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands.

Nefndin verði skipuð fimm mönnum, einum tilnefndum af ráðherra, tveimur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum af Náttúruvernd ríkisins og einum af Vegagerð ríkisins.``

Herra forseti. Umferð á hálendi Íslands fer sívaxandi. Samkvæmt tillögunni skal skipuð nefnd sem semji drög að framtíðarskipulagi og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands þannig að hægt sé að komast um hálendið án mikilla svaðilfara, en með nokkrum takmörkunum þó.

Aðalleiðir, þ.e. Kjölur, Sprengisandur, Kaldi\-dalur/Uxa\-hrygg\-ir og Fjallabaksleið nyrðri, þurfa að vera færar dugmiklum fólksbílum, venjulegum jeppum og fólksflutningabílum yfir helsta ferðamannatímann, þ.e. frá júní til september.

Vinsælar leiðir eins og að Öskju, Gæsavötnum, Herðubreið og Snæfelli, Fjallabaksleið syðri, hringleið um Heklu, Emstruleið, inn í Þórsmörk, Dómadalsleið í Landmannalaugar, um Haukadalsheiði, Eyfirðingabraut, yfir Öxi, að Lakagígum og fleiri vinsælar ferðaleiðir á hálendinu þurfa að vera færar öllum venjulegum jeppum og fólksflutningabílum yfir sumartímann.

Til að þetta geti orðið til frambúðar þarf að veita fé til uppbyggingar og viðhalds þessara vega á hverju ári. Í flokkun veganna þarf að koma fram tilgangur þeirra, þ.e. hverjir fara um þá og hvert. Setja þarf viðmiðunarreglur um hvar á að brúa og hvar ekki. Rétt er að fjármagnið skiptist eftir þessari flokkun og ástandi og mikilvægi hvers vegar eins og reynt er að gera í byggð.

Með góðum og greiðfærum vegum á hálendinu er hægt að draga úr utanvegaakstri og stuðla þar með að verndun gróðurs og ósnortinna svæða, auka öryggi ferðamanna á ferðum um hálendið og tryggja að ekki verði ,,óvart`` til nýjar slóðir hér og þar.

Með efldu vegakerfi á hálendinu er auðveldara að stýra umgengni ferðamanna og náttúruunnenda. Almenningi er þannig gefinn kostur á að njóta stórkostlegrar náttúru, nokkuð sem ekki hefur hingað til verið mögulegt á venjulegum farartækjum.

Nauðsynlegt er að taka mið af skipulagi miðhálendis Íslands við skipulagningu vegakerfis um hálendið. Það ætti að einhverju leyti að taka mið af hugmyndafræðinni um að ferðamenn fari um hálendið og njóti náttúrunnar að degi til en dveljist eins og við verður komið við jaðar þess eða á skipulögðum svæðum yfir nætur.

Herra forseti. Ég legg til að till. til þál. um framtíðarskipulag og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands verði vísað til hv. samgn. og til síðari umræðu.