Afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 10:41:33 (6871)

2000-05-04 10:41:33# 125. lþ. 105.91 fundur 477#B afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. hreyfir hér mjög mikilvægu máli. Hann er að vísu að tala um eitt sérstakt mál sem hann hefur flutt sex sinnum og lagt mikið upp úr að fá atkvæðagreiðslu á og afgreitt frá Alþingi. Það breytir því ekki að alvara málsins snýr ekki síður að þingmannamálunum almennt og stöðu þeirra. Það er mjög erfitt að fá yfirferð á þingmannamálum í sumum nefndum og þegar þingi lýkur er það undantekning ef þingmannamál fá afgreiðslu úr nefnd.

Ég hef á tilfinningunni að þeirri umræðu sem vakin er hér, með athugasemd hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um mál sem lýtur að viðskiptabanninu á Írak, sé ekki lokið. Ég gæti trúað að hún verði endurtekin á næstu dögum þegar við förum að sjá hvaða þingmannamál hafa hlotið náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans og hvaða þingmannamál fá þá náð að koma til umræðu í þingsal, jafnvel afar umdeild mál. Það ætla ég hins vegar að taka upp síðar þegar þau mál sem afgreidd hafa verið liggja á borðum þingmanna. Það er alveg ljóst hver viðhorf stjórnarmeirihlutans gagnvart þingmannamálum eru.