Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 11:53:33 (6882)

2000-05-04 11:53:33# 125. lþ. 105.3 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[11:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að verða langorður í lok umræðunnar um málið þegar það kemur frá hv. menntmn. Ég vil þakka nefndinni fyrir mjög vel unnin störf við frv. og ég er sammála öllum þeim tillögum um breytingar á frv. sem fram koma frá nefndinni. Þær sýna að nefndin hefur farið yfir þetta af gaumgæfni og litið til margra þátta þegar hún skoðaði málið.

Þetta er annað þingið sem málið er til meðhöndlunar hér og þess vegna er ánægjulegt að við náum þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir og um hana er jafnvíðtæk samstaða og fram hefur komið í umræðunum. Lengi hefur staðið til að endurskoða útvarpslögin eða allt frá árinu 1987. Hér er því mikið í húfi frá sjónarmiði löggjafans og einnig held ég frá sjónarmiði alls almennings því að fátt hefur meiri mótandi áhrif á umhverfi okkar en einmitt ljósvakamiðlar sem við öll hlustum á og viljum að starfi á skynsamlegum og góðum forsendum og ég tel að með frv. sé verið að móta slíkt umhverfi almennt fyrir þá miðla.

Fram hefur komið og ég fagna því að nefndin er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hraða endurskoðun á þeim ákvæðum útvarpslaganna sem við erum að breyta sem lúta að Ríkisútvarpinu. Þegar í þetta mál var farið var spurning um vinnubrögð, hvort standa ætti að því á þennan hátt, þ.e. að leggja fram frv. til almennra útvarpslaga og síðan sérstök lög um ríkisútvarpið. Við völdum þá leið að fá fyrst afstöðu Alþingis til almenna hlutans til þess síðan að geta mótað reglurnar um Ríkisútvarpið í ljósi þess almenna ramma sem frv. skapar útvarpsstarfseminni.

Vafalaust á eftir að verða ágreiningur um ýmislegt að því er varðar frv. til laga um Ríkisútvarpið, sem menn hafa skorað á mig að flutt verði strax á næsta þingi. Ég mun einhenda mér í það að vinna að slíku frv. og hef sjálfur þegar lýst yfir nokkrum meginatriðum og skoðunum varðandi það hvernig ég tel skynsamlegast að búa Ríkisútvarpið undir nýja tíma með nýrri lagasetningu. En ég held að ekki sé ráðlegt að fara út í þær umræður núna, þær munu fara fram þegar frv. eða það mál verður til umræðu á þingi næsta haust væntanlega eða næsta vetur.

Ég vil geta þess einnig og ítreka það sem hv. formaður nefndarinnar rakti, að ég tel að hvorki málefni sem hafa notið stuðnings úr Menningarsjóði útvarpsstöðva né Sinfóníuhljómsveit Íslands séu í nokkru tómarúmi þótt við leggjum sjóðinn niður. Ég tel að gengið hafi verið þannig frá málum, bæði með samkomulaginu um eflingu Kvikmyndasjóðs og einnig með samkomulagi um að Ríkisútvarpið komi að því að greiða kostnað af rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, að ekki eigi að skapast neitt tómarúm í þeim efnum. Að sjálfsögðu má velta því fyrir sér hvort Ríkisútvarpið eigi almennt að koma að Sinfóníuhljómsveitinni, en eins og menn minnast þegar við héldum upp á 50 ára afmæli hljómsveitarinnar 9. mars sl. var það rifjað mjög rækilega upp að hljómsveitin fæddist innan Ríkisútvarpsins og það var voru forráðamenn Ríkisútvarpsins í tónlistarmálum, þeir dr. Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson tónskáld, ásamt Jónasi Þorbergssyni útvarpsstjóra sem á sínum tíma beittu sér fyrir því að Sinfóníuhljómsveit Íslands kom til sögunnar. Hún hefur alla tíð starfað í nánum tengslum við Ríkisútvarpið og einnig hefur verið tekið tillit til þeirra tengsla útvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina þegar afnotagjöld Ríkisútvarpsins hafa verið ákveðin. Við þurfum því að líta til ýmissa þátta ef við höggvum alveg á þau tengsl sem eru bæði söguleg, tilfinningaleg og fjárhagsleg og þarf að líta til þeirra málefna af varúð og nærgætni því að báðar stofnanirnar hafa sín sjónarmið varðandi það mál. En ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að starfsumhverfi Sinfóníuhljómsveitarinnr hefur ekki síður breyst en annarra menningarstofnana. Við höfum haft það í huga hvernig best væri staðið að því að endurskoða lagarammann um Sinfóníuhljómsveitina en hún er ekki ríkisstofnun í sama skilningi og Ríkisútvarpið. Þar koma fleiri aðilar að. Sinfóníuhljómsveitin er mun sjálfstæðari stofnun en Ríkisútvarpið þegar litið er á ríkisstofnanir almennt og þess vegna tel ég að það eigi ekki að vera einhliða frumkvæði endilega frá ríkisvaldinu um breytingar á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur þurfi fleiri að koma þar að og frumkvæði að koma jafnvel frekar frá stjórnendum hljómsveitarinnar en frá ríkisvaldinu. En ég hef lýst vilja mínum til að eiga samstarf við þessa aðila um breytingar á þeim lögum ef óskað er eftir því.

Ég tel að ekkert tómarúm sé í þessu efni og vel sé að því verki staðið og vel ígrundað að flytja málefni og fjármuni þegar Menningarsjóður útvarpsstöðva verður lagður niður. Ég er ekki sömu skoðunar og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir þegar hún nefnir að æskilegt hefði verið að hafa í lögunum ákvæði um að útvarpsstöðvarnar nýttu þá fjármuni sem þær fá núna til ráðstöfunar á einhvern sérstakan hátt þegar þær hætta að borga tíundina til Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Við getum alveg eins sagt að Alþingi ætti þá að ákveða efni í blöðum o.s.frv. Þetta eru fjölmiðlar með því sniði að menn eiga að hafa þar ritstjórnarvald og geta ráðið fjármunum sínum til einstakrar þáttagerðar eins og þeir vilja. En við setjum í frv. og væntanleg lög almennan starfsramma sem hefur verið skynsamlega mótaður og m.a. þau ákvæði sem nefndin hefur núna endurskoðað um vernd barna eru til marks um það að við getum almennt sett þessum stofnunum og félögum leikreglur en mér finnst að við getum ekki seilst of langt í að ákveða að þeir noti fjármuni sína til að búa til einn þátt frekar en annan.

[12:00]

Eins og styrkveitingar hafa verið úr Menningarsjóði útvarpsstöðva hafa þær verið til einstakra þátta og við getum ekki gefið slík fyrirmæli í lögum og er gott að hv. þm. er sammála mér um það.

Ég vil árétta að það eru tvö atriði sem þingmenn hafa nefnt sem lúta að heimildum til menntmrh. Það er annars vegar varðandi gerð þess lista sem er forsenda almenns aðgangs að menn geti séð einstaka viðburði, að ekki verði takmarkað áhorf að þeim með öðrum hætti en þeim almennu reglum sem slíkur listi mundi mæla fyrir um. Ég mun ekki fara út í það að gera slíkan lista einhliða heldur hafa samráð við aðila. Fyrst mun ég kynna mér hvernig framkvæmdin hefur verið í þessu efni á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég held að ýmis ríki hafi lent í nokkrum hremmingum vegna þessara ákvæða. Í öðru lagi mun ég, þegar ég hef lokið þeirri könnun, kynna það fyrir hagsmunaaðilum og ganga síðan til viðræðna við þá um hvert skref í því efni.

Sömu sögu er að segja um stafrænu tæknina. Þar verður að sjálfsögðu haft samráð við þá sem hlut eiga að máli enda er það ekki einhliða á valdi menntmrh. að gera neitt í því efni. Hins vegar getur hann ýtt undir þróun og ýtt undir samstarf og samvinnu um að við nýtum þessa tækni skipulega hér þegar menn telja að það sé tímabært. Það eru líka einkaaðilar hér eins og fyrirtækið Gagnvirk miðlun sem eru með hugmyndir um ákveðna þjónustu sem er næsta byltingarkennd þegar litið er til umræðna í öðrum löndum um þetta mál. Við þurfum því að nýta okkur þau tækifæri sem eru á þessu sviði og ég mun að sjálfsögðu líta til þess sem aðilar hafa verið að vinna í því efni.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir ræddi sérstaklega um afnotagjaldið og hugmyndir sem hún hefði haft um nefskatt og var fróðlegt að heyra vangaveltur hennar um það og einnig að þetta hefði komið til umræðu í hv. menntmn. Þetta er að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum sem menn þurfa að líta til við endurskoðun á lögunum um Ríkisútvarpið en ég vildi skýra frá því að menntmrn. fór þess á leit við Gallup-fyrirtækið að í byrjun ársins yrði það kannað og afstaða almennings til spurningar sem ráðuneytið lagði fyrir í könnun á vegum Gallups og hefur ekki verið skýrt frá áður hverjar spurningarnar voru eða hver svörin voru. En spurningin var þessi:

Þegar gengið er út frá því að ríkisútvarp sé rekið áfram með verulegum hluta fyrir almannafé, hverja af eftirfarandi þremur leiðum telur þú besta til að kosta þann hluta reksturs þess sem afnotagjaldið stendur nú undir? --- Síðan voru þessir þrír kostir gefnir:

1. Með afnotagjaldi eins og nú er þannig að gjaldið greiðist af eigendum eða notendum viðtækja.

2. Með nefskatti, þ.e. með sérstökum skatti á alla skattgreiðendur óháð því hvort þeir eiga eða nota viðtæki.

3. Með almennri skattheimtu þannig að Ríkisútvarpinu verði ákveðið fjárframlag á fjárlögum hverju sinni.

Þessir þrír kostir voru bornir undir þátttakendur í þessari könnun Gallups. Þar kom fram að það voru 33,7% fylgjandi afnotagjaldi, 17,6% fylgjandi nefskatti og 42,9% töldu að fjármagna ætti Ríkisútvarpið með almennri skattheimtu eða af fjárlögum ríkisins. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel að menn þurfi að huga vel að þegar við endurskoðun lög um Ríkisútvarpið hvernig við ætlum að standa að fjármögnun Ríkisútvarpsins. Hver þróunin er í Evrópu að þessu leyti o.s.frv. Það eru ýmsir slíkir grunnþættir sem þarf að huga að til þess að stofnunin geti starfað sem ríkisstofnun eins og að er stefnt. Þá er athyglisvert að sjá að 42,9% þeirra sem spurðir voru í janúar árið 2000 um afstöðu í þessu máli telja að það eigi að gera það af fjárlögum ríkisins og þannig eigi að fella Ríkisútvarpið undir ríkisstofnanir eins og Þjóðleikhúsið eða söfn eða skóla, að menn greiði fyrir það af almennum sköttum sínum og Alþingi ákveði síðan hvernig því fé er skipt á milli einstakra ríkisstofnana. Þetta er mál sem við þurfum að ræða síðar en gefur vísbendingu um hug almennings í þessu og að sjálfsögðu ber að hafa það í huga þegar næstu skref eru stigin til að búa Ríkisútvarpinu þann starfsramma sem allir þingmenn sem hér hafa talað hvetja mig til að gerist strax á næsta vetri.