Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 14:51:28 (6902)

2000-05-04 14:51:28# 125. lþ. 106.7 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst fagna þessu máli, ég tel að það sé auðvitað gleðiefni að við verðum í hópi fyrstu ríkja ef að líkum lætur sem fullgilda þessa Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakadómstólinn og þar með hefur sá langþráði draumur ræst að fastadómstóll komist á til þess að fjalla um alvarlegustu afbrot gegn mannréttindum, stríðsglæpi og annað slíkt. Þessi dómstóll sækir að sjálfsögðu heimildir sínar til Rómarsamþykktarinnar sjálfrar um stríðsglæpi og þar er skilgreint til hvaða afbrota lögsaga dómstólsins tekur eins og fram kemur í þingmálinu.

Einnig er rétt að vekja athygli á því að að stofni til er að sjálfsögðu um að ræða ákvæði Genfarsáttmálanna þar sem fyrst voru á alþjóðavettvangi og í formi skýrra ákvæða skilgreind þau alvarlegu brot gegn mannkyninu sem þarna eiga í hlut, mannréttindum og mannkyni. Þar af leiðandi sækir dómstóllinn a.m.k. óbeint ef ekki beinlínis lagalega beint umboð sitt eða heimildir til þeirra grundvallarsamninga á sviði mannréttindamála þar sem eru Genfarsáttmálarnir.

Ég nefni þetta, herra forseti, því að ég tel rétt að vekja athygli á því að þrátt fyrir að við Íslendingar höfum fyrir löngu fullgilt fyrir okkar leyti Genfarsáttmálana, þá höfum við því miður vanrækt að gera tilteknar lagalegar ráðstafanir sem okkur er samkvæmt ákvæðum þeirra sáttmála skylt að gera og lúta að því að taka upp í landslög ákvæði sem gera kleift að framfylgja og fullnusta ýmis ákvæði og þar með talið einnig afbrot gegn ákvæðum samninganna. Fyrir þinginu liggur lítil tillaga sem felur í sér að beina því til ríkisstjórnarinnar að semja lagafrv. til þess að fullnægja þessum skyldum sem við höfum fyrir margt löngu síðan undirgengist samkvæmt ákvæðum Genfarsáttmálans.

Ég leyfi mér að vekja athygli á þessu vegna þess að það er náskylt því máli sem hér er að ganga fram og varðar Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Á hinn bóginn er ekkert því til fyrirstöðu þrátt fyrir þetta að við fullgildum samþykktina og er eingöngu gleðiefni að það er tiltölulega tímanlega hér á ferð og ef ég hef réttar upplýsingar undir höndum gæti Ísland þar af leiðandi miðað við samþykkt þessa máls á Alþingi nú eða á næstu sólarhringum og að afhendingu fullgildingarskjala yrði hraðað, gæti Ísland jafnvel orðið í hópi tíu fyrstu ríkja til þess að gera svo.

Fleira hef ég ekki um þetta mál að segja, herra forseti.