Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 14:57:04 (6904)

2000-05-04 14:57:04# 125. lþ. 106.8 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, KLM
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins örstutt um þá till. til þál. um flugmálaáætlun sem hér er til síðari umræðu. Ég vil aðeins geta þess að við fulltrúar Samfylkingarinnar í samgn. erum sammála því nál. sem hér hefur verið fylgt eftir og styðjum það sem þar kemur fram og jafnframt þá einu breytingu sem gerð er við áætlunina sem er varðandi Bakkaflugvöll, þann mikilvæga völl sem er á Suðurlandi þar sem um 17 þús. farþegar fara um á ári hverju. Þarna er verið að gera lagfæringu og hún er í því heildaráliti sem öll samgn. stendur að. Í þáltill. er verið er að bæta við nýframkvæmdum fyrir árin 2002--2003. Sú nýbreytni er tekin upp að viðhaldsverkefnin eru ekki flokkuð niður, t.d. er endurnýjun slitlaga og málun flugbrauta ekki skipt niður eftir völlum heldur sett í einn pott, og ég held að það sé allt til bóta. Síðan er þessu skipt eftir þörfum fyrir hvert og eitt ár.

Eins og fram kemur í nál. er getið um og hvatt til þess að skoðun verði gerð á eldsneytisaðstöðu til sölu á eldsneyti á Egilsstaðaflugvelli og það verði gert fyrir næstu endurskoðun. Einnig má geta þess sem kom fram á fundi nefndarinnar að eldsneytissala til millilandaflugs er mjög mismunandi og að mig minnir er hún 10--15 kr. dýrari á Egilsstaðaflugvelli en á höfuðborgarsvæðinu. Það hlýtur náttúrlega að gera það að verkum að mínu mati að Egilsstaðaflugvöllur er kannski ekki eins mikið notaður og ætti að vera, því að sá flugvöllur á að hafa mikilvægt hlutverk í millilandaflugi. Ég held því að full ástæða sé til að ítreka það og nefna að þarna verður náttúrlega að ganga til einhvers konar verðjöfnunar líkt og á sér stað um innanlandsflug.

Það sem kemur líka fram í flugmálaáætlun er m.a. það sem ætlað er að gera og kanna varðandi Ísafjarðarflugvöll sem ég held að sé afar mikilvægt og afar brýnt, þ.e. að kanna með næturaðflug. Ef þær niðurstöður verða jákvæðar er lagt til að þeim framkvæmdum verði lokið árið 2003 með miklum fjárveitingum og aðalfjárveitingum til þess verks árin 2002 og 2003.

[15:00]

Herra forseti. Í flugmálaáætluninni er lagt til að samþykktar verði, með þeirri breytingu sem kemur fram í nál. og ég hef lýst stuðningi við, löngu tímabærar stórframkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll. Þær miklu framkvæmdir sem þar munu eiga sér stað eru þegar hafnar og verða unnar á næstu árum. Ég vil líka geta þess sérstaklega og ítreka að þarna er varið 15 millj. kr. til hönnunar og undirbúnings við byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Ég held að full ástæða sé til að taka þetta fram og ítreka vegna þess að þeir sem hafa farið um þessa flugstöð sjá að hún er barn síns tíma og löngu komin til ára sinna. Sem betur fer hefur það verið að gerast að flugfélögin tvö, sem eru í innanlandsflugi, þ.e. Flugfélag Íslands, sem hefur alltaf verið þarna, og Íslandsflug, sem þó hefur minnkað töluvert starfsemi sína í innanlandsflugi en þó er með eitthvað örlítið eftir og vonandi eykst það á næstu árum, hefur flutt flugafgreiðslu sína frá þeim stað þar sem hún var við gamla Loftleiðahótelið til Flugfélags Íslands.

Því er full ástæða til að nefna þetta og ítreka um leið mikilvægi þess að þetta mál sé skoðað og það væri reyndar full ástæða til að skoða það í heild sinni sem samgöngumiðstöð, ekki eingöngu flugstöð, heldur fyrir annað og meira en það er.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan skrifa ég undir þetta nál., og hef svo ekki meiru við þetta að bæta.