2000-05-04 15:42:30# 125. lþ. 106.9 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta og brtt. og nál. samgn.

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara um ákveðna þætti. Ég vil þó hér í upphafi taka fram að í vinnu nefndarinnar var lögð áhersla á að finna leið til að gera reglur og umgjörð þessara starfa og verkefna sem skýrust og einföldust og fella þau að þeim veruleika sem menn standa frammi fyrir og þóttust sjá í þessum efnum. Það hafa því, eins og hv. frsm. Árni Johnsen gat um, verið gerðar umtalsverðar breytingar á frv.

[15:45]

Ég styð margt af því sem þar er sett fram og nálgunina sem þar er við veruleikann. Ég vil vekja athygli á að hér unnið að miklum breytingum varðandi menntunarmál og réttindamál sem tengjast menntun. Það er staðreynd að eftirspurn eftir menntun á þessum sviðum hefur dvínað, þ.e. bæði sjómannamenntun, vélstjóramenntun og annarri menntun sem tengist sjómennskunni. Atvinnuvegurinn hefur farið ýmsar leiðir til að leysa brýn vandamál án þess að þar hafi verið mörkuð nokkur framtíðarstefna, enda ekki svigrúm til þess.

Herra forseti. Þegar ráðist er í svo miklar breytingar og menn standa frammi fyrir jafnerfiðri stöðu menntunar á þessum vettvangi þá hefði verið þörf á að taka þennan þátt til sérstakrar skoðunar og ítarlegar en nefndin gat á þeim tíma sem henni var skammtaður. Ég tel að það sé veika hliðin á þessu frv. og að það hefði þurft að vinna betur menntunargrunninn sem þessi atvinnuvegur þarf að byggja á.

Ég tel, herra forseti, það er mín persónulega skoðun, að skólar sem fást við réttindanám á þessu stigi ættu að vera sérskólar. Þeir ættu að vera undir sérstökum lögum en tryggð tenging og samræming við annað nám. Það gefur skólunum meiri möguleika og frjálsari hendur til að aðlaga sig skjótt breyttum kröfum, breyttum viðhorfum og nýjum þörfum. Það að skólarnir verða að lúta lögum um framhaldsskóla gefur þeim þyngslalega umgerð, eins og margt annað starfs- og réttindanám fær reyndar þegar það er bundið almennum lögum sem taka fyrst og fremst mið af reglubundnu bóknámi. Það hefði átt að kanna hvort sérlög ættu að gilda um þetta nám og þessi réttindi sem gæfu aukið svigrúm til að bregðast við á hverjum tíma.

Herra forseti. Þar sem svo miklar breytingar voru gerðar á frv. í meðförum þingnefndar varðandi menntun og menntunarkröfur til einstakra starfa, ábyrgð og réttindi sem þeim fylgja, þá hefði verið eðlilegt og sjálfsagt að þeir sem tengjast þessum vettvangi á sviði hins opinbera fengju formlegt tækifæri til að koma fyrir nefndina og gera henni grein fyrir mati sínu á breytingum á þeim atriðum.

Ég tek samt undir þær áherslur, varðandi lagaumgerðina sem við erum hér að fjalla um, að brýn þörf hafi verið á að færa þar ákvæði saman, samræma þau og gera einfaldari og skýrari. Ég dreg ekkert úr þeim vilja og áhuga allra nefndarmanna á að gera það. Ég tel, herra forseti, að það eigi að skoða þessar menntunarkröfur betur.

Eftir að nál. fór frá nefndinni barst bréf varðandi þetta frá fulltrúum aðila sem þessi mál snerta mjög. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til þess. Það er dagsett 9. apríl árið 2000:

,,Vísað er til nefndarálits samgöngunefndar Alþingis vegna frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta, máls. nr. 189. Undirritaðir, fyrir hönd viðkomandi félaga og skóla, vilja koma á framfæri eftirfarandi athugasendum:

1. Í breytingartillögum nefndarinnar felast veigamiklar breytingar við frumvarpsdrögin eins og þau voru lögð fyrir í samgn. Frumvarpsdrögin voru samin af nefnd samgrh. sem í störfum sínum hafði til hliðsjónar ábendingar og athugasemdir helstu hagsmunaaðila. Hafði full samstaða náðst um ýmis umdeild og veigamikil atriði frv. sem samgn. hefur nú gert breytingar á.

2. Undirritaðir lýsa furðu sinni á að samgn. skuli gera tillögur um svo umfangsmiklar breytingar á frv. án þess að leita áður álits helstu hagsmunaaðila á þeim og án þess að gefa þessum hagsmunaaðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í viðtölum við nefndina. Undirritaðir lýsa andstöðu sinni við frv. í núverandi mynd. Óska þeir eftir að fá tækifæri til að eiga fund með samgn. í þeim tilgangi að kynna sér þau sjónarmið sem liggja að baki fram komnum brtt. nefndarinnar og koma athugasemdum einstakra hagsmunaaðila á framfæri.``

Undir þetta rita fyrir hönd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Grétar Mar Jónsson; fyrir hönd Sambands ísl. kaupskipaútgerða, Ólafur J. Briem; fyrir hönd Stýrimannaskólans í Reykjavík, Guðjón Ármann Eyjólfsson; fyrir hönd Vélskóla Íslands, Björgvin Þór Jóhannsson og fyrir hönd Vélstjórafélags Íslands, Helgi Laxdal.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að sjónarmið þessara aðila fái að koma fyrir nefndina og nefndin fái að heyra viðhorf þeirra til breytinga samkvæmt nál. sem hér liggur fyrir, þannig að hægt sé að meta þær ábendingar sem þeir kunna þar að koma á framfæri. Ég teldi mikilvægt að það yrði gert á milli 2. og 3. umr. þessa máls. Ég fer fram á að forseti beiti sér fyrir því við formann samgn. að þessum aðilum verði gefinn kostur á að tjá sig fyrir nefndinni á milli umræðna.

Herra forseti. Í lok máls míns legg ég áherslu á mikilvægi þessa máls í heild sinni, bæði fyrir þessa atvinnuvegi og starfsfólkið sem við þá starfar. Ég legg áherslu á ósk mína um að málið verði aftur tekið inn í nefnd og þessum aðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.