2000-05-04 15:53:32# 125. lþ. 106.9 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við frv. sem var þó nokkuð lengi í vinnslu á vegum nefndar sem skipuð var af samgrh. á sínum tíma. Það er um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta. Um þetta frv. hafði í nefndarstarfinu náðst nokkuð víðtækt samkomulag milli þeirra sem að málinu koma, bæði hagsmunaaðila á þessu sviði, menntastofnana sem mennta skipstjórnarmenn og vélstjóra og skólamanna þar á bæ.

Ég sé að í brtt. og nál. meiri hluta samgn. eru lagðar til breytingar í mörgum liðum á þessu máli sem ég taldi á sínum tíma að nokkurt samkomulag hefði verið um milli skólamanna og ráðueytismanna sem þá unnu með samtökum hagsmunaaðila að endurskoðun þessara laga.

Áðan kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að þessi samtök hafa ekki séð þær brtt. sem hér hafa verið kynntar við þetta frv. Þau óska sérstaklega eftir því að fá að koma að málinu og ræða það við hv. samgn. Ég tel sjálfboðið að nefndarmenn og formaður nefndarinnar verði við því. Hins vegar tengist frv. þetta að nokkru leyti málum sem hér eru síðar á dagskránni, þ.e. 1. umræðu málum sem fjalla um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, lögum nr. 112, og vélstjórnarmanna, nr. 113 frá 1984 ef ég man rétt. Þar er m.a. kveðið á um hluti sem er einnig að finna þessu frv., t.d. undanþágunefnd og mönnunarnefnd og ákvæði þar að lútandi.

Ég hefði talið eðlilegt að þessari umræðu, með tilliti til þess sem hv. þm. Jón Bjarnason upplýsti áðan og vitnaði í bréf frá hagsmunaaðilum, að umræðu um þetta mál sem hér er til 2. umr. yrði frestað, hæstv. forseti, og að þau frv. sem hér koma á eftir og fjalla að hluta um sömu málum, atvinnuréttindafrumvörpin, verði þá tekin til 1. umr. og vísað þá aftur til samgn. Samgn. hefði þannig möguleika á, meðan þessu máli væri frestað, að ræða nánar þær brtt. sem hún leggur til. Ég tel að þær þurfi nánari skoðunar við í ýmsum atriðum samhliða umfjöllun nefndarinnar um lög um atvinnuréttindi. Ég held að það væri eðlileg og rétt málsmeðferð vegna þess að málin tengjast en eru ekki á sama stigi í umræðunni.

Ég vil svo vekja athygli á því í einni brtt. frá samgn., í 13. lið, þ.e. 15. gr. sem verður 14. gr., segir, með leyfi forseta:

,,Greinin orðist svo:

Greiða skal fyrir útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina, veitingu undanþágna og útgáfu öryggismönnunarskírteina samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu þeirra.``

Nú er ekki mjög langt síðan að við samþykktum lög um aukatekjur ríkissjóðs ef ég man rétt. Þar var kveðið nákvæmlega á um það hvað skyldi greiða fyrir útgáfu skírteina skipstjórnarmanna, vélstjórnarmanna, flugmanna og fjölda annarra sem þurfa að endurnýja atvinnuskírteini sín reglulega. Þar er sem sagt ákvæði um það hvaða gjöld skulu tekin fyrir þessa útgáfu. Ég tel að þessi texti: ,, ...skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu þeirra`` --- fari í bága við þau lög sem sett voru um ákveðna gjaldtöku fyrir útgáfu skírteinanna. Það er engan veginn sjálfboðið að þær 5.000 kr. sem mig minnir að reiknað hafi verið með fyrir endurnýjun skírteinis dugi til þess kostnaðar sem Siglingastofnun hefur af vinnunni við að gefa út þessi skírteini. Ég held að þessi tillaga eins og hún er orðuð stangist á við lög sem við settum ekki fyrir löngu á hv. Alþingi. Ég vildi bara benda á þetta.

Ég ætla ekki að teygja umræðuna um þessi mál þó maður hefði viljað benda á eitt og annað. Hv. formaður samgn. fór yfir breytingarnar úr brúttórúmlestum í brúttótonn. Það er sjálfgefið að eitthvað þarf að hækka 30 tonna réttindin. Ég er hins vegar ekki alveg sammála honum um að fara með þau í 75 brúttótonn því að í þessu frv. stendur einmitt um eldri skírteini svohljóðandi ákvæði:

,,Sá sem er lögmætur handhafi skírteinis samkvæmt lögum sem falla úr gildi við gildistöku þessara laga skal halda sínum réttindum óskertum, enda fullnægi hann öðrum kröfum laga þessara.``

Þó að nýjar viðmiðanir hefðu verið teknar upp, að fara frá Óslóarsamþykktinni um brúttórúmlestir og taka upp brúttótonnamælinguna, þá hefði viðkomandi haldið réttindum sínum til þess að starfa á þessum skipum.

Auðvitað er eðlilegt að gera samt einhverjar breytingar á þessari viðmiðun, 30 tonnum. Einhvers staðar liggur þetta á milli 50 og 75 tonna og einhvers staðar þarf að draga viðmiðunarlínu í því. Það er ekki eðlilegt að 30 brúttórúmlestabátur sem er yfirbyggður og gerður að öruggara sjófari, öruggara skipi eftir breytingu en fyrir, missi sérstaklega réttindi við þá breytingu vegna þess að brúttótonnamælingin gefur þá aðra niðurstöðu en brúttórúmlestamælingin.

Ég vildi gera að tillögu minni úr þessum ræðustól, hæstv. forseti, að þessari umræðu yrði frestað og þar sem atvinnuréttindalögin koma til skoðunar hjá hv. samgn. eftir 1. umr. þá lægi ljóst fyrir um þessi mál þegar málin koma aftur fyrir þingið, bæði sem 2. umræðu mál, atvinnuréttindamálin og málið sem hér um ræðir.