Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 16:55:09 (6919)

2000-05-04 16:55:09# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[16:55]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það virðist ekki vera stórkostlegur áhugi á þessu máli miðað við umræður eða viðveru í þingsalnum. Hefði þó mátt búast við því að það kveikti í einni og einni sál að þessi stóra ákvörðun er að fara í gegnum þingið, að innleiða þessa tilskipun um sameiginlegan innri markað í raforkumálum á Íslandi. Það er auðvelt að rökstyðja og sýna fram á, held ég, að við höfum væntanlega ekki um áratuga skeið staðið frammi fyrir stærri breytingu í okkar orkubúskap en þeirri sem hlýtur að leiða af slíkri gjörð.

Hér eru ákaflega hljóðir þeir aðilar t.d. frá iðnaðarhliðinni eða orkumálahliðinni sem hefði verið eðlilegt að lagt hefðu kannski sitt af mörkum til faglegrar umfjöllunar um þetta mál. Ég minni enn á að hér er verið að taka upp það verklag að hin eiginlega efnislega afgreiðsla málsins er að fara fram nú og síðan glíma menn við afleiðingarnar í formi lagabreytinga sem eru þá orðnar óhjákvæmilegar vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslendinga, e.t.v. á næsta þingi eða þarnæsta. Okkur verður skammtaður naumur tími, þ.e. tvö ár frá og með því að fresturinn hefst, sem gerist þegar síðasta aðildarríkið hefur fallið frá fyrirvörum sem vel má vera að sé Ísland. Innan fárra daga þegar pappírar hafa verið sendir Brussel kann því að vera að skeiðklukkan fari af stað.

Öfugt við hæstv. iðnrh. sem er glaðsinna og áhyggjulaus varðandi þetta mál þá hef ég af því miklar áhyggjur. Ég óttast því miður að hæstv. iðnrh. eigi eftir að reka sig á að þetta eru ekki eins einföld mál og mér fannst koma fram í svörum hæstv. ráðherra. Það er t.d. alveg ljóst að fyrirtækinu Landsvirkjun sem hefur haft mjög sérstaka stöðu á Íslandi og sérstaka stöðu væntanlega í orkubúskap þó víðar væri leitað hjá einni þjóð, þarf ekki bara að breyta hvað rekstrarfyrirkomulag og skipulag varðar, það þarf að gjörbreyta lögum um Landsvirkjun því það er augljóst mál að þau ákvæði sem þar eru t.d. núna um skyldur Landsvirkjunar til að afhenda raforku og á sama verði um allt land, fá ekki staðist. Það hefur verið grundvöllur, herra forseti, þeirrar verðjöfnunarstefnu í raforkumálum sem hér hefur verið rekin.

Til viðbótar því hafa menn síðan lagt fram mikla fjármuni í formi niðurgreiðslna t.d. á raforku til húshitunar til að reyna að jafna aðstöðu landsmanna að þessu leyti. Ég tel að það sé algjörlega óútfyllt ávísun hvernig slíku verði við komið í kjölfar þeirra breytinga sem þessi tilskipun kallar á. Ég tel að undirbúningur sé mjög skammt á veg kominn þó að menn beri sig kannski borginmannlega í iðnrn., enda búnir að fara í sumarferðina þannig að ekki tefur hún þá frá störfum þeim sem fram undan eru. Ég tel að undirbúningurinn sé mjög skammt á veg kominn og ég hef ekki náð að koma höndum yfir nema eitt plagg og það er þessi skýrsla um landsnetið sem tekur á, nánast í vangaveltustíl, herra forseti, einum þætti þessa máls, þ.e. hvernig megi aðskilja sjálfan flutninginn frá framleiðslunni. Þá er eftir að aðskilja dreifinguna því að hún má heldur ekki vera í sama fyrirtæki, a.m.k. verður hún að vera bókhaldslega og fjárhagslega og stjórnunarlega aðskilin. Og það er eftir að leysa ýmis fleiri álitamál sem þarna vakna.

Ég geri ekki mikið með það sem hæstv. iðnrh. skaut sér á bak við, að forveri hæstv. ráðherra í embætti hefði lagt hér inn þáltill. fyrir nokkru síðan um framtíðarskipulag raforkumála. Ég man hvernig það plagg var úr garði gert. Það voru ákaflega losaralegar vangaveltur og hugmyndir um það hvernig þessir hlutir gætu orðið á komandi tímum. Það plagg komst hér eitthvað til umræðu, var aldrei afgreitt. Það væri nær lagi að tala um að það hafi verið sýnt hér heldur en að í því hafi falist nokkur eiginleg aðkoma Alþingis að málinu.

[17:00]

Í öðru lagi er ég eins og áður kom fram, herra forseti, á öndverðum meiði við hæstv. ráðherra sem hélt fram þeirri frumlegu kenningu hér að tilskipun Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum ætti einstaklega vel við á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég tel að Ísland eigi þvert á móti ekkert erindi inn í þær leikreglur sem verið er að setja um þennan sameiginlega raforkumarkað meginlands Evrópu. Þar eru allt aðrar aðstæður og allt önnur mál uppi sem verið er að leysa heldur en þau sem við höfum við að glíma, sem einkum snúa að fámenni þjóðarinnar í stóru landi og því hvernig menn geta varist því að hér verði óhóflegur verðmunur á raforku eftir byggðarlögum og annað í þeim dúr.

Í þriðja lagi, herra forseti, ítreka ég gagnrýni mína á samningamenn Íslands í þessu máli. Ég tel að þarna hafi mönnum tekist afar óhönduglega og ég hef engin rök heyrt, og fékk þau ekki heldur í svari hæstv. ráðherra, fyrir því að standa þannig að málum að gefa sér fyrir fram sem óumflýjanlega niðurstöðu að Ísland yrði aðili að þessari tilskipun. Ég hefði þvert á móti talið nánast öll rök mæla með hinu gagnstæða, að við færum sömu leið og þegar í hlut átti tilskipun með viðskipti með jarðgas eða þess vegna reglur um járnbrautarsamgöngur, fljótasiglingar eða annað slíkt sem alls ekki eiga við íslenskar aðstæður, þ.e. að við gengjum frá því að við værum undanþegnir slíku drasli. Enda höfum við ekkert með það að gera hér á Íslandi, herra forseti, að taka upp í landsréttinn ákvæði um slíkt eða hvað? Fá vötn eru hér skipgeng svo að nokkru nemi og lítið um járnbrautir.

Hið sama á í raun við um raforkumarkaðinn. Hann er einangraður, án tengsla við markað hinna aðildarlandanna og þar af leiðandi er þegar af þeirri ástæðu eðlilegt að byrja á því að skoða það sem möguleika að við stöndum þar fyrir utan.

Herra forseti. Því miður komu engin svör frá hæstv. ráðherra við þeirri spurningu minni hvernig menn mætu eða hvort skoðaðir hefðu verið sérstaklega möguleikar á sérmeðhöndlun fyrir Ísland á grundvelli 24. gr. tilskipunarinnar. Ég veit ekki hvort hv. formaður utanrmn. treystir sér til að svara einhverju til í þeim efnum. En fari svo óskynsamlega, að mínu mati, að menn samþykki hér að falla frá fyrirvaranum þá virðist í raun sá möguleiki sem helst stendur eftir hvað Ísland varðar vera sá að höfða til sérstöðu okkar og þá fyrst og fremst vegna þess að við erum einangraður og lítill markaður og að semja á grundvelli þeirra ákvæða um einhverja sértilhögun fyrir Ísland. Það eru að mínu mati talsverðar ástæður til að ætla að það mætti t.d. fá mun lengri aðlögunartíma að þessum breytingum og það væri aðildarríkjum Evrópusambandsins og öðrum EES-ríkjum að meinalausu þó að Ísland tæki sér slíkan aðlögunartíma af þeirri ósköp einföldu ástæðu að það kemur ekki við þá þó að það gerist með öðrum hætti að Ísland komi þarna að. Og enn undirstrika ég að við erum þarna ótengdir.

Um Norðmenn gildir að sjálfsögðu allt öðru máli. Norðmenn eru orðnir hluti af sameiginlegum evrópskum orkumarkaði og hafa verið það lengi. Þeir selja jarðgas í vaxandi mæli til meginlands Evrópu og þeir eru nettóútflytjendur á raforku í einhverjum mæli og kunna að verða það í stórum stíl á komandi árum ef verður af áformum þar um að reisa raforkuver sem framleiða raforku úr jarðgasi. Það sama á væntanlega við um smáríkið Liechtenstein sem á líka hlut að máli og fær reyndar tveggja ára aðlögunartíma eins og Ísland þó að ræðumaður játi það fúslega að hann er ekki sérfræðingur í orkumarkaðsmálum í því landi og veit mest lítið um það hvaðan þeirra raforka kemur. En mér þykir líklegt að af landfræðilegum ástæðum séu þeir samtengdir nágrönnum sínum og kæmi ekki á óvart þó að raforka þeirra kæmi að mestu leyti frá Sviss eða öðrum nálægum Alparíkjum.

Herra forseti. Niðurstaða minni hlutans er eins og kemur fram í nefndaráliti sú að við teljum með öllu, þ.e. þeir sem að því áliti standa, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, með leyfi forseta:

,,... ótímabært að ákveða nú að Alþingi heimili að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara í tengslum við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/99, að tilskipun Evrópubandalagsins um innri markað fyrir raforku verði felld inn í EES-samninginn. Það voru hrein og klár mistök að leita ekki eftir varanlegri undanþágu fyrir Íslands hönd. Með vísan til þess sem að framan greinir í nefndarálitinu leggur minni hlutinn til að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/99 verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að taka málið upp á nýjan leik á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar. Leita ber þar eftir ótímabundinni undanþágu fyrir Ísland frá því að gerast aðili að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins með raforku. Standi sú tilhögun svo lengi sem íslenski raforkumarkaðurinn er einangraður og ótengdur við raforkumarkað annarra EES-landa. Til vara verði gerð sú krafa af Íslands hálfu`` --- og þar er átt við í gegnum samninganefndarmenn landsins --- ,,að Íslendingum gefist mun lengri aðlögunartími að þessum breytingum, að lágmarki tólf til fimmtán ár.

Alþingi, 2. maí 2000.

Steingrímur J. Sigfússon.``

Þannig lýkur þessu nál., herra forseti, og ég held að ég hafi ekki um þetta öllu fleiri orð. Ég gæti út af fyrir sig gert það og hefði margt fleira um þetta að segja ef út í það væri farið því að málið er stórt og kemur víða við. Það væri líka freistandi að ræða aðeins um frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum almennt og tengdum á undanförnum mánuðum og missirum, t.d. stöðuna sem nú er uppi í orkuöflunar- eða orkusölumálum þjóðarinnar eftir þær kollsteypur sem ríkisstjórnin hefur farið í þeim málum á undanförnum mánuðum og nýlegar fréttir um að engu að síður ætli sameiginlegt fyrirtæki landsmanna að fara í milljarðafjárfestingar í rannsóknum upp á von og óvon um það að þær nýtist á næstu árum. Það eru hlutir, herra forseti, sem manni finnast satt best að segja ískyggilegir hvernig menn hegða sér í þeim efnum eins og að um þeirra einkafyrirtæki og þeirra einkamál sé að ræða þar sem í hlut eiga þeir sem ráða málum hjá hinu sameiginlega orkufyrirtæki landsmanna og í ráðuneyti og víðar þar sem um þessi mál er vélað.

Þar sem hæstv. iðnrh. er á braut og vegna þess að hér eru annir uppi í þinghaldinu og líður á daginn, ætla ég ekki við þetta tækifæri, herra forseti, að hafa um þetta mál fleiri orð. Ég hef lokið máli mínu.