Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:12:05 (6922)

2000-05-04 17:12:05# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrir svona 20--30 árum hefði ég tekið undir með hv. þm. vegna þess að ég sá ekki hvernig hægt væri að veita samkeppni á orkumarkaðnum. Síðan hafa augu mín upp lokist vegna nýrrar tækni, vegna nýrrar stjórnunar, vegna nýrrar hugsunar í útlöndum þar sem menn hafa virkilega innleitt samkeppni í orkumálum. Og það merkilega er að hér á Íslandi mundi það koma Norðlendingum best, Norðurlandi eystra, að hafa samkeppni í orkumálum vegna þess að þaðan er flutt rafmagn til Suðurlands þannig að ekki þyrfti að leggja neinar línur. Aukin notkun mundi spara línulögn fyrir neytendur á Norðurlandi eystra. Það mætti jafnvel hafa mínus flutningsgjald til Norðurlands.

En varðandi það sem hv. þm. er að ýja að, þ.e. félagslegan þátt orkukerfisins, þá er það mjög ankannalegt að eitthvert ríkisfyrirtæki sé að stunda félagslega starfsemi í rekstri raforku og raforkudreifingu eins og Rarik gerir. Það er miklu skynsamlegra að ríkið komi þar beint að en sé ekki að fela félagslega aðstoð í gegnum raforkudreifingu. Ef menn vilja hafa flutningsjöfnun, ef menn vilja hafa raforkuhitunarjöfnun eða eitthvað slíkt, þá á að gera það beint frá ríkinu en ekki gegnum fyrirtækin sjálf sem starfa. Ég get því ekki fallist á það með hv. þm. að ekki sé hægt að innleiða samkeppni því það er mjög auðvelt að gera það í raforkugeiranum, sérstaklega ef menn hafa fylgst með því sem er að gerast erlendis.