Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:30:29 (6928)

2000-05-04 20:30:29# 125. lþ. 106.24 fundur 630. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (innflutningur frá frystiskipum) frv. 91/2000, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:30]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 55 10. júní 1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem gera mögulegt að koma til móts við athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við þá framkvæmd hér á landi að heimila innflutning sjávarafurða frá frystiskipum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins óháð því hvort þau eru skráð á listum yfir viðurkennda framleiðendur, vinnsluskip og frystiskip. Slíkir listar eru birtir í viðaukum við ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um sérstök skilyrði fyrir innflutningi sjávarafurða frá tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og byggjast á upplýsingum frá ríkjum um viðurkennda aðila. Framkvæmdastjórnin tekur slíkar ákvarðanir á grundvelli tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu sjávarafurða, sbr. 8. tölul. í kafla 6.1. í kafla 1 í viðauka I við EES-samninginn, sbr. tilskipun ráðherraráðsins, um hollustuhætti um borð í skipum, tilgreindum í grein 3 (1) (a) (i) í tilskipun 91/493, sbr. 9. tölul. í kafla 6.1. í kafla 1 í viðauka I við EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA segir að íhuguð verði formleg málsmeðferð ef núverandi framkvæmd verður ekki breytt. Túlkun stofnunarinnar á framangreindum tilskipunum og ákvörðunum þess efnis að einungis megi flytja inn sjávarafurðir frá viðurkenndum frystiskipum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki óumdeild á Evrópska efnahagssvæðinu. Auk Íslands hafa Noregur, Danmörk og Bretland heimilað innflutning sjávarafurða frystiskipa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins óháð viðurkenningu þeirra. Rússnesk frystiskip flytja inn frosinn þorsk til framangreindra ríkja auk Íslands. Því er mikilvægt fyrir Ísland að sömu reglur gildi í öllum ríkjunum um slíkan innflutning. Þar sem fyrir liggur að Eftirlitsstofnun EFTA íhugar formlega málsmeðferð á hendur Íslandi og vegna þess að nokkur óvissa ríkir um kröfur sem gerðar eru um viðurkenningu frystiskipa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er æskilegt að unnt verði að breyta framkvæmdinni hér á landi þegar skylda Íslands í þessum efnum liggur skýrt fyrir og ljóst er að framkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu er samræmd. Því er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að 3. mgr. 22. gr. laganna verði breytt svo að ráðherra fái vald til að kveða á um það í reglugerð að gera skuli kröfu um viðurkenningu frystiskipa ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ég vil undirstrika að verði frv. að lögum mun engin breyting eiga sér stað. Það er einungis um breytingu að ræða ef niðurstaðan verður sú í málsmeðferðinni að athugasemdir ESA séu réttlætanlegar og þá hefur ráðherra heimild til að gera breytingar á framkvæmdinni eins og hún er núna. Verði hins vegar niðurstaðan sú að athugasemdir ESA séu ekki réttmætar verður um enga breytingu á framkvæmd innflutningsins að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. sjútvn.