Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:37:11 (6930)

2000-05-04 20:37:11# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., Frsm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:37]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Þessi tvö frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, með síðari breytingum, og um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, með síðari breytingum, eru fylgifiskar frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta, þess frv. sem hér var til 2. umr. fyrr í dag.

Frumvörpin eru nauðsynleg vegna þess að í brtt. um áhafnir íslenskra skipa er reiknað með að leggja niður svokallaðar undanþágu- og mönnunarnefndir og færa þá starfsemi beint til Siglingastofnunar sem hefur verið aðili að þeim nefndum um árabil og haft forustu í þeim. En lagt er til að breyta þessu og færa þetta einvörðungu undir Siglingastofnun.

Með frv. um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða er lagt til að undanþágunefnd og mönnunarnefnd fiskiskipa verði lagðar niður, þetta á við um bæði frv., og verkefni þeirra fengin Siglingastofnun Íslands. Þá er lagt til að sett verði fót úrskurðarnefnd siglingamála sem hægt verði að skjóta til ákvörðunum Siglingastofnunar samkvæmt lögunum. Ef mönnum mislíkar eða líkar ekki við ákvörðun Siglingastofnunar í umsóknum sem kunna að berast, þá er úrskurðarnefnd til staðar.

Lagt er til að unnið verði að heildarlöggjöf um áhafnir allra íslenskra skipa. Nefndin telur mjög mikilvægt að slíkt frv. komi fram á næsta hausti. Verði réttindi til vélstjórnar skoðuð sérstaklega með hliðsjón af nýrri tækni í vélarrúmum skipa og því að hvaða leyti það geti haft áhrif á mönnun skipa og lengd náms vélstjóra. Mælist nefndin til að heildarendurskoðun á lögunum verði hraðað og að lagt verði fram frumvarp á Alþingi á hausti komanda.

Löngu tímabært er að stokka upp spilin í ýmsum þáttum er lúta að stöðu skipstjórnarmanna og vélavarða á íslenska flotanum. Það hefur verið vaxandi vandamál að manna flotann menntuðum mönnum. Misræmi er í réttindum til að mynda vélavarða á Íslandi og í nágrannalöndum þar sem íslenskir vélaverðir hafa minni réttindi en t.d. danskir og færeyskir með sama nám að baki. Þetta hefur m.a. leitt til þess að íslenskir vélaverðir hafa flúið land. Ég vil kveða svo fast að orði. Þeir hafa fengið hærri laun og meiri réttindi með því að vinna í öðrum löndum, þó á sama grunni og hér heima á Íslandi. Því er full ástæða til að skoða þetta ofan í kjölinn og reyna að samræma þetta þannig að menn sitji við sama borð og það hefur reynst framkvæmanlegt og eðlilegt í nágrannalöndum okkar sem mest hafa lagt upp úr þessu.

Það sem lýtur að breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, er að lagt er til að við upptöku brúttótonna í viðmiðun atvinnuréttinda verði miðað við 75 brúttótonn bæði hvað varðar fiskiskip og önnur skip. Þá er lagt til að undanþágunefnd og mönnunarnefnd fiskiskipa verði lagðar niður og verkefni þeirra fengin Siglingastofnun Íslands. Loks er lagt til að sett verði á fót úrskurðarnefnd siglingamála sem hægt verði að skjóta til ákvörðunum Siglingastofnunar samkvæmt lögunum.

Frumvörpin eru fylgifiskar frv. um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta og eru fyrsta skrefið í uppstokkun í þessum efnum. Samgn. Alþingis er sammála í öllum þáttum þessa frv. sem lagt hefur verið fram og hefur lagt mjög mikla vinnu í yfirferð á málinu og hnikar því til þeirrar niðurstöðu sem hér er kynnt.