Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:45:29 (6932)

2000-05-04 20:45:29# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., Frsm. ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:45]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að leiðrétta aðeins misskilning í þessum efnum. Lagasetningin miðar við það að enginn tapi réttindum, enginn sem hafði pungapróf tapi réttindum miðað við þá reynslu sem hann hefur haft og þær bátastærðir sem hann hefur verið að vinna á. Og til þess þurfti mælingin að fara í 71 brúttótonn.

Það kom fram hér í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar í dag að breytingin á reiknireglunni lægi einhvers staðar á bilinu 50--75 tonn og það getur verið álitamál vegna þess að þetta er ekki bara breyting á einu orði. Ef maður ætti að útskýra það í stuttu máli þá er brúttórúmlestatala reiknuð eftir ákvæðum Óslóarsamþykktar frá 1947. Brúttórúmlestir eru rými undir mæliþilfari að viðbættu rými ofan mæliþilfars sem samþykktir mæla fyrir um. Brúttórúmlestatalan er summa eftirtalinna rúmtaka skipsins:

Í fyrsta lagi rúmtak undir mælingaþilfari, rúmtak milli mælingaþilfars og efra þilfars, rúmtak reisna og umframmál lestaropa. Þetta er gamla mælieiningin.

Nýja mælieiningin brúttótonn miðar við að rúmmál skips er mælt samkvæmt Lundúnasamþykktinni frá 1969 sem tók gildi 1982. Brúttótala er heildarstærð skipsins, þ.e. heildarrúmmál allra lokaðra rýma skipsins, þannig að það getur verið mjög breytilegt eftir lengd skips hvaða brúttótonn reiknast út. Það hefði mátt segja að 71 tonn hefði dugað til þess að jafna þarna réttindastöðuna. En það er slétt af í 75 tonn og skiptir engu máli í heildarútkomu, þetta varðar 3% frávik, rétt 39 báta af liðlega 1.600.